Hann hefur sjálfsagt upphaflega heitið hér skíriþórsdagur eins og skjærtorsdag á dönsku og Shere-thursday á ensku. Þó finnst ekki nema eitt dæmi um það orð í íslenskum fornritum og er það frá 14. öld. Ástæðan er vitaskuld afnám dagsheitanna Týsdagur, Óðinsdagur og Þórsdagur á 12. öld , hvort sem Jóni biskupi Ögmundssyni er þar réttilega um kennt. Hefur vafakaust þótt meira en lítil goðgá að nefna Þór í tengslum við svo ginnhelgan dag.

Skírdagur er haldinn í minningu þess, er Jesú innsetti hina heilögu kvöldmáltíð og þó fætur lærisveinanna, eftir að hafa snætt páskalambið með þeim. Lýsingarorðið skír merkir hreinn og nafnið lýtur að hreinsun sálarinnar, enda var hann ásamt öskudeginum öðrum fremur talinn dagur iðrunar og afturhvarfs. Heiti dagsins á latínu er dies viridium, sem bókstaflega þýðir dagur hinna grænu, ungu eða blómstrandi. Í yfirfærðri merkingu táknar það þá, sem hlotið hafa aflausn fyrir sanna iðrun og eru sem nýútsprungnir. Því heitir hann græni fimmtudagur á þýsku, og hafa alþýðuskýringar þar reyndar viljað tengja nafn hans við grænar greinar líkt og pálmasunnudag.

Íslensk þjóðskýring á nafninu skírdagur, þ.e. hreinsunardagur, var hinsvegar sú, að menn hefðu fengið sér ærlegt bað á þessum degi, eftir að hafa “klæðst í sekk og ösku” alla föstuna. En engar sönnur hafa verið færðar á það. Hitt er staðreynd, að sumir páfar og aðrir katólskir höfðingjar höfðu þann sið að þvo fætur 12 ölmusumanna á skírdag til að minna á fótaþvott lærisveinanna. Mun Austurríkiskeisari hafa haldið þeirri venju einna lengst. Eftir siðbreytinguna þurfti eki lengur að halda eins í við sig í mat og áður, og var þá jafnvel höfð svolítil útafbreytni á skírdag.

Heimildir eru um það frá 18. og 19. öld, að hnausþykkur rauðseyddur mjólkurgrautur væri hér víða skammtaður á skírdagsmorgun, áður en menn fóru til kirkju. En slíkur grautur sýnist lengi hafa þótt mesta lostæti hér á landi, og er hans ósjaldan getið sem sérstaks hátíðarréttar. Hitt er annað mál, að grautur þessi þótti auka svo vind, að ekki hefði alténd verið þefgott i kirkjunni á skírdag.

Mynd: Stúdíur fyrir síðustu kvöldmáltíðina - Leonardo da Vinci, af Wikipedia.

Birt:
24. mars 2016
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Skírdagur“, Náttúran.is: 24. mars 2016 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/skrdagur/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 24. mars 2016

Skilaboð: