Íslendingar standa frammi fyrir miklum breytingum á efnahagslífi þjóðarinnar. Stjórnmálamenn og flestir þeir sem tjáð sig hafa um framtíðina segja mikilvægt að horfa fram á veginn enda mörg tækifæri til staðar. Jón Aðalsteinn Bergsveinsson dýfði stóru tánni í kraumandi hugmyndapott sprotafyrirtækjanna um síðustu helgi og komst að því að þar liggja óteljandi framtíðarleiðir.

Það er fullt af tækifærum," segir dr. Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks, nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins. Hann mælir með því að fólk hætti að horfa til fortíðar, brjóti baksýnisspegilinn og gefi í fram á veg. Hann segir ekkert að óttast.

Klak ásamt frumkvöðlasetrinu Innovit stóðu saman að ráðstefnunni Hugspretta - landnám nýrra hugmynda á laugardag í félagi við stúdentafélög Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Bifröst, Listaháskólans og Keilis á Keflavíkurflugvelli.

Markmiðið var að fá ungt fólk til að snúa bökum saman og vinna að stefnumótun fyrir framtíð Íslands og sjá eigin tækifæri til nýsköpunar.

Ráðstefnan átti sér skamman aðdraganda. "Við ákváðum þetta með viku fyrirvara," segir Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Innovit. Menn hafi ákveðið að nýta tímann vel, keyra hugmyndina áfram af fullum krafti og fá jákvæðan innblástur inn í annars neikvæða umræðu eftir þrot bankanna í byrjun mánaðar sem virðist hafa fært landið inn í nýja og næsta óþekkta tíma fyrir marga. Hvert stefnir leiðir tíminn svo í ljós.

"Þótt við séum að fara í gegnum erfiðleika núna, þá stöndum við sterk ef horft er lengra fram í tímann," segir Andri.

Tiltölulega ódýr og einföld leið var farin til að auglýsa ráðstefnuna. Síða var sett upp á samfélagsvefnum Facebook og á vefsíðum aðildarfélaga. Þar skráði fólk sig til þátttöku. Í boði var snakk og kex, kaffi og með því ásamt kraumandi hugmyndafljóti.

Innovit, sem stofnað var af háskólanemendum í fyrra, er nýsköpunar- og frumkvöðlasetur fyrir fólk með viðskiptahugmyndir en áherslan er lögð á viðskiptatækifæri sem spretta úr starfi íslenskra háskóla. Nokkur af helstu útflutningsfyrirtækjum landsins í dag urðu einmitt til upp úr verkefnum í Háskóla Íslands en voru tekin lengra. Stoðfyrirtækið Össur og matvælavinnsluvélaframleiðandinn Marel Food Systems eru dæmi um slíkt.

Baklandið traust

Andri og Eyþór segja báðir fjármagn skorta til sprotafyrirtækja hér á landi, ekki síst á fyrstu stigum. Þar stöndum við frændum okkar á Norðurlöndunum og víðar að baki. Andri bendir á að í nágrannalöndunum, svo sem í Danmörku og Skotlandi, setji einkafjárfestar og stjórnvöld oft á laggirnar sameiginlegan vettvang þar sem hvor um sig leggi fram lágar en jafn háar upphæðir til sprotafyrirtækja.

Með þessu móti fái mörg ung sprotafyrirtæki tækifæri til að komast upp af byrjunarstiginu og vaxa frekar. "Þetta lag hefur alltaf vantað á Íslandi," segir Andri. Þetta er gömul saga, sem hollt er að hamra á.

Sprotafyrirtæki sem komin eru á legg geta þó fetað ýmsa stigu í leit að fjármögnun. Innovit leiðir háskólanema eða þá sem ný útskrifaðir eru áfram auk þess sem Klak blæs til Sprotaþings tvisvar á ári og leiðir þar saman

fyrirtæki og fjárfesta, sem luma á réttum leiðarvísum um krókastiguna. Auk þessa starfrækir Klak Viðskiptasmiðju, námsbraut á háskólastigi, í samvinnu við Háskólann í Reykjavík, Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn og í Lundi í Svíþjóð. Markmið námsins er að nemendur stofni fyrirtæki og hefji rekstur þess á námstímanum.

Þá býr Nýsköpunarmiðstöð Íslands yfir sérfræðingum sem geta stutt við bakið á sprotamönnum og fólki sem lumar á góðum hugmyndum.

Á öllum stöðum geta sprotafyrirtæki fengið þak yfir starfsemina tímabundið á meðan grunnvinnan fer fram auk þess að byggja upp tengslanet, sem er einn af mikilvægustu þáttum sprotageirans.

Þekking deyr aldrei

Spurður um áhættuna sem felist í stofnun sprotafyrirtækis, sem oft eigi erfitt uppdráttar, jafnvel heyri sögunni til innan fárra ára, segir Andri ekkert að óttast. "Þekking hverfur aldrei með einu sprotafyrirtæki heldur flyst hún á milli með starfsmönnunum," segir hann.

Dæmin eru mþmörg en hugbúnaðarfyrirtækið Oz, sem Guðjón Már Guðjónsson, einn þátttakenda á Hugsprettu, er þekktasta dæmið um slíkt. Margir fyrrverandi starfsmenn Oz hafa stofnað sprotafyrirtæki hér heima og erlendis á síðustu árum. Þekktast þeirra í dag er tölvuleikjafyrirtækið CCP en önnur eru Hex, Trackwell, sprotafyrirtækið Gogoyoko og fleiri til.

Birt:
22. október 2008
Höfundur:
Fréttablaðið
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Af sprotum sprettur ný framtíð“, Náttúran.is: 22. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/22/af-sprotum-sprettur-ny-framtio/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: