Rekstrar- og verkefnastyrkir til félagasamtaka hækka í 12 milljónir króna
Félagasamtök á sviði umhverfisverndar fá 12 milljónir króna í rekstrar- og verkefnastyrki á þessu ári frá umhverfisráðuneytinu, en það er tveimur milljónum króna meira en á liðnu ári. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra tilkynnti þetta á samráðsfundi umhverfisráðuneytisins og félagasamtaka í dag. Samráðsfundir sem þessir fara fram með reglulegu millibili og þar er fjallað um þau mál sem fulltrúar félagasamtaka vilja bera upp við umhverfisráðherra. Jafnframt eru þessir fundir notaðir til að kynna fyrir umhverfissamtökum þau mál sem efst eru á baugi í ráðuneytinu.
Markmið þessa samstarfs er að efla lýðræðislega umræðu um umhverfis- og náttúruvernd og auka samráð um stefnumörkun og framkvæmd umhverfisverndar. Að mati umhverfisráðuneytisins er framlag félagasamtaka við að upplýsa almenning, stjórnvöld og fjölmiðla er mikilvægur þáttur í sjálfbærri þróun íslensks samfélags.
Félög sem eru þátttakendur í samstarfi við Umhverfisráðuneytið eru:
Náttúruverndarsamtök Íslands.
Landvernd.
Fuglavernd.
Hið íslenska náttúrufræðifélag.
Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs.
Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi.
Náttúruverndarsamtök Austurlands.
Náttúruverndarsamtök Suðurlands.
Náttúruvaktin.
Garðyrkjufélag Íslands.
Skógræktarfélag Íslands.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Rekstrar- og verkefnastyrkir til félagasamtaka hækka í 12 milljónir króna“, Náttúran.is: 11. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/20/rekstrar-og-verkefnastyrkir-til-felagasamtaka-haek/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. janúar 2008