Varnarlaus gegn mengunarslysum
Fjölmenni ræddi kosti og galla olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum á Bíldudal í gærdag. Sérfræðingar reifuðu þar sjónarmið atvinnusköpunar og umhverfisverndar. Fjórðungssamband Vestfjarða stóð að málþinginu í félagsheimilinu á Bíldudal. Samskonar málþing verður á Ísafirði í dag.
Olíuhreinsunarstöð þyrfti gríðarmikla orku eða sem nemur nærri því heilli Kárahnjúkavirkjun. Hana má annað hvort framleiða með vatns- eða gufuafli, eða með olíu sem brennd yrði á staðnum. Evrópu eru um eitt hundrað olíuhreinsistöðvar, tvær þeirra í Noregi. Sú stærri, Mongstad, er norðan við Bergen, og þar eru unnin um 20 milljón tonn af hráolíu á ári.
Við þá vinnslu verða til um tvær milljónir tonna af koltvísýringi. Sú minni er við Óslóarfjörð og þar eru unnin 5,8 milljón tonn af olíu árlega, koltvísýringslosunin er um 380 þúsund tonn á ári. Forsvarsmenn Íslensks Hátækniiðnaðar , sem stendur á bak við áform um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, ætla að vinna þar árlega um átta milljónir tonna af hráolíu. Þeir telja að koltvísýringslosunin þar verði um 560 þúsund tonn á ári. Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur telur losunina hins vegar verða nærri tvöfalt meiri. Heildarlosun landsmanna á koltvísýringi á þessu ári, að meðtaldri losun álversins á Reyðarfirði, verður líklega rúmar fjórar milljónir tonna.
Fram kom í máli Ragnars Baldurssonar hjá utanríkisráðuneytinu á málþinginu í dag að illa sé hægt að bregðast við verði meiriháttar olíuslys verða hér við land. Í lok júlí 2006 steytti rússneskt olíuskip á ísjaka fyrir norðan landið. Íslendingar eru varnarlausir gegn meiriháttar mengunarslysum segir embættismaður í utanríkisráðuneytinu.
Birt:
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Varnarlaus gegn mengunarslysum“, Náttúran.is: 24. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/24/varnarlaus-gegn-mengunarslysum/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. febrúar 2008