3. kafli - Skipulagning fyrir þig og fánuna
Láttu þer ekki detta í hug að til þurfi fleiri hektara lands áður en þú getur hafist handa við að skipuleggja “villigarð”. Jafnvel blómakassi getur verið áningarstaður fyrir fiðrildi sem eiga leið um ef þú ert rétt blóm í kassanum. Maður nokkur í Hollandi er með á nokkurra fermetra svölum, fjörustubb, kalkríkt graslendi og súra mýri, hvert um sig fullt af viðeigandi plöntum. Þetta hefur hann útbúið með réttum jarðvegi og viðeigandi rakaskilyrðum fyrir hvert samfélag fyrir sig. Allt er þetta í steypukeröldum og á hverju sumri sér hann fram á óhemju vinnu við heyskapinn á enginu með eldhússkærunum.
Þegar þú byrjar á “villigarði” þarftu að skipuleggja garðinn þinn frá a til ö. Það gerirðu með því að teikna hann upp og ákveða hvað þú vilt hafa hvar. Besta ráðið er að fá sér millimetrapappír og teikna inn á hann útlínur lóðar og húss. Hægt er að fá hjá bygginarfulltrúa teikningu af lóðarmörkum og yfirfæra á millimetrapappírinn.
Þá staðseturðu húsið og annað sem ekki kemur garðinum og lífinu þar beinlínis við. Þessar útlínur skaltu teikna með sverum svörtum tússpenna. Ofan á millimetrapappírinn leggurðu síðan gegnsæjan pappír eða glæru og getur nú rissað upp hverja skissuna af annarri þar til þú ert ánægður. Ef þú ert góður teiknari geturðu jafnvel gert fjarvíddarteikningar af einstökum hlutum garðsins og færð þá enn betri mynd af því hvernig garðurinn á eftir að verða. Þú getur litað pappírinn til þess að sjá betur hvernig plöntusamfélögin koma til með að lita út. Rautt fyrir rauðblómstrandi plöntur, gult fyrir gulblómstrandi og svo framvegis.
Hugsaðu garðinn sem herbergi.
Veggirnir eru trén og runnarnir og vel mætti hugsa sér blómin sem húsgögn og skrautmuni. Flötin er þá gólfið. Þú getur líka farið til landslagsarkitekts og lýst fyrir honum hugmyndum þínum og fengið hann til að teikna fyrir þig. Áður en þú ákveður að láta landslagshönnuð teikna fyrir þig skaltu biðja hann um að sýna þér teikningar af því sem hann hefur gert. Ef hann skilur hvað þú átt við og þér líst vel á teikningarnar hans skaltu ráða hann, annars ferðu til einhvers annars. Athugaðu það að hann er að vinna fyrir þig svo það eru þínar hugmyndir sem hann á að útfæra. Það þýðir þó ekki að þa sé ekki allt í lagi að hlusta á hann og í flestum tilfellum getur hann komið með hugmyndir sem spara þér vinnu og fjármuni, enda hefur hann sérþekkingu.
Þegar teikningar eru tilbúnar geturðu hafist handa. Ég get ekki lagt nógu ríka áherslu á að byrja ekki á neinu fyrr en teikningar og/eða skissur liggja fyrir.
Mistök eru dýr og það er leiðinlegt að vera búinn að leggja vinnu í eitthvað og svo kemur í ljós að það er slæmt eða ónýtt. Það kostar lítið að pæla og skissa og það geturðu gert á veturna
Þá er líka óþarfi að halda að ekki sé hægt að byrja að rækta villigarð nema á ósnertu landi. Það er hægt að gera villigarð úr elstu görðum. Fyrir nokkrum árum keypti ég íbúð í Hlíðunum með gömlum og grónum garði. Tilhlökkunin var geysileg. Flutt skylsi úr blokkaríbúð með 6 fermetra svölum sem snéru í norðaustur. Særokið gekk yfir þær í norðanáttinni á vetrum og ekkert vildi vaxa á þeim. Í Barmahlíðinni var fyrrverandi verðlaunagarður. Nú skyldi tekið til hendinni og gerðar ýmsar tilraunir í trjárækt og öðru sem ekki var hægt á svölunum. Flutt var inn 4. Júní og garðurinn að byrja að taka við sér eftir vetrarhvíldina.
Þegar líka tók á sumarið kom ýmislegt í ljós sem ekki var eins gott og virst hafði í fyrstu. Trén voru allt of stór og allt of þétt. Birtan í garðinum var sáralítil og aðeins á einangruðum bletti. Gamlar og blómstrandi bóndarósir byrgðu fyrir eina opnanlega gluggann í stofunni í kjallaranum svo ekki var hægt að lofta út nema með tilfæringum. Þá var ekkert ætilegt í garðingum nema einn graslaukstoppur sem þar að auk var á vitlausum stað. Það var lítið gert fyrsta sumarið annað en að velta vöngum og spá í hlutina.
Næsta vor, eftir miklar bollalenginar, margar skissur og miklar pælingar í gegnum bækur og doðranta, var haft samband við garðyrkjusérfræðing og hann fenginn til þess að líta á dýrðina og gefa góð ráð. Þetta var Ólafur Njálsson og hann er í einu orði sagt snillingur. Það var gaman að fylgjast með honum þarna í garðinum um vorið áður en sást í nokkuð grænt. Hann gekk um og sagði okkur hvað allt hét og virtist vera honum nóg að sjá börk eða rótarháls.
Ráðin voru einföld. Fá skuggþolnar plöntur og grisja heil ósköp. Grisja runna og fella tré. Svo væri athugandi að koma upp matjurtagarði í einu horninu og e.t.v. setja berjarunna í kring.
Það var drifið í þessu og ástandið skánaði en vinnan jókst um allan helming og næstum hver einasta frístund fór í garðinn. Bannsettur arfinn bar enga virðingu fyrir fínu beðunum og spánarkerfillinn og skriðsóleyin úr næsta garði stunduðu hryðjuverkastarfsemi bæði í beðum og á grasflöt sem skánaði nokkuð við að fá meiri birtu. Sett var upp runnabeð við húshornið og svona eins konar “hálf-steinhæð” fyrir framan drellifínan sólbaðpall úr viði sem settur var á sólríkasta staðinn í garðinum.
Plöntuúrvalið jókst stöðugt og settir voru niður mörg hundruð haustlaujar af ýmsum tegundum, flestir fjölærir og sem fjölga sér. Alltaf jókst vinnan. Þá var það að ég átti leið í garð einn merkilegan sem stendur sunnan við á, eins og sagt er í London. Þetta var Kew grasagarðurinn og nú fóru að leita ýmsar hugsanir á mig og virtist mér eins og það mætti spara sér vinnu á ýmsan hátt með því að standa rétt að hlutunum. Það næsta sem gerist er að á gönguferð um unaðsreitinn Öskjuhlíð fer undirritaður að dást að þessu gullna samræmi í gróðurfari á staðnum. Grjót, móar, lyng, skógarbotnsgróður, tré og allt í þessu fína samræmi. Hvert tekur við að öðru, engin brún og ljót beð sem þarf að halda hreinum og allt svo til vandamálafrítt.
Lagsmaður Grósa, þetta væri nú athugandi í Barmó!
Svo ákveðið var að gera örlitla tilraun og sjá hvernig hún heppnaðist. Í hluta grasflatarinnar voru settir niður haustlaukar, krókusar, vepjuliljur og fleira. Þá var sáð ýmsum grastegundum, silkibyggi, hjartaaxi o.fl. Einnig var sáð ýmsum íslenskum engjaplöntum og nokkur valmúafræ fluttu með. Með þessu öllu voru settir steinar af ýmsum lengdum og breiddum og gerðum sem tíndir voru á víðavangi hist og her eins og danskurinn segir. Þessi hluti grasflatarinnar var svo ekki sleginn fyrr en í september og þetta virkaði vel. Þarna hafði maður ósnerta náttúruna fyrir framan sig allt sumarið og þurfti ekki að hafa stórar áhyggjur af arfa eða öðru. Annað sem gaman var að fylgjast með þarna á 10 fermetra enginu var dýralífið. Úr Öskjuhlíðinni komu villibýflugur og alls konar skorkvikindi fann maður á “enginu” sem enginn hafði haft hugmynd að yxu þar því alltaf hafði það verið slegið niður með rót. Nú skutu þær upp kollinum. Þarna voru fjólur, tvær tegundir fífla, klukkur, súrur og meira að segja grasvíðir, sóleyjar og ýmsar tegundir grasa. Allt setti þetta svip sinn á “engið”.
Veturinn eftir rakst ég svo á bók í verslun í London og þarf ekki að lýsa hrifningu minni þegar ég fór að fletta bókinni og sá að höfundurinn hafði um svipaðar skoðanir og ykkar einlægur á garðrækt. Hann var bara kominn töluvert miklu lengra og hafði úr talsvert fleiri dýrum að moða fyrir náttúruskoðun í bakgarðinum. Hér áður og fyrr voru skoðanirnar ekki beysnari en svo hjá undirrituðum að honum datt ekkert annað í hug til að létta sér vinnuna í garðinum en grjót. Það hefur nokkra kosti í görðum. Það þarf ekki að slá það. Því er nokkuð sama um birtuskilyrði, Frost og umhleypingar hafa sáralítil áhrif á það og það hlífir plöntum sem vaxa í skjóli við það. En fleira er matur en feitt kjöt og það er fleira hægt að nota en grjót í villigarðinn. Greinar sem sagaðar eru af stórum trjám og trjábolir sem felldir eru má búta niður og nota í hleðslur og kanta eða þá að þessu er hrúgað upp, mold mokað yfir og síðan sópað ofan af og plantað. Þetta er ákjósanlegur staður fyrir ýmsan sveppagróður og ánamaðka ekki síður en plöntur.
Síðast en ekki síst var búin til lítil tjörn sem reyndar var ekki stærri en gott vaskafat. Svo ótrúlegt sem það kann að hljóma voru komnir í hana fuglar til þess að baða sig, aðeins tveimur tímum eftir að lokið var við hana og sett í hana vatn.
En áfram með smjörið. Hugsum okkur nú að lóðin þín sé ný , þ.e. húsið þitt sé ný byggt og það eigi að fara að slétta lóðina. Það fyrsta sem þú gerir er að spara þér þtuna eða gröfuna. Ekki láta slétta alla lóðina. Notfærðu þér mishæðirnar og gróðurinn sem enný á lifir af byggingaframkvæmdirnar og gröftinn. Það sem er mest áríðandi við garðhönnun og skipulagningu er að fá garðinn réttan fyrir þig og þína fjölskyldu. Afmarkaðu svæðin sem á þarf að halda. Þegar málin eru skoðuð kemstu að því að þú þarft að slá á fimm til tíu daga fresti. Auðvitað gætirðu viljað hafa slétta grasflöt. Það er ekkert athugavert við það. En það er kannski ekki nauðsynlegt að hún nái yfir allan garðinn, eða hvað ? Þú gætir viljað hafa tvær eða þrjár litlar grasflatir samtengdar með göngustígum.
Kannski viltu hafa tjörn í garðinum og hafa runna og tré öðrum megin og grasflöt hinum megin. Og þá komum við aftur að því að hugsa um garðinn sem herbergi. Að þessu sinni fleiri en eitt því það er alveg handónýtt að hugsa ekki um hann í þrívídd. Eitt herbergið viltu hafa sem verönd þar sem þú getur sólað þig og e.t.v. grillað og snætt á góðum dögum. Það sbæði ættirðu að hafa svipað að stærð og eldhúsið og borðstofuna. Ef það er stærra er hætta á trekki og það verður ekki notalegt. Í kringum þetta svæði sem þú hefur að sjálfsögðu nálægt húsinu, er gott að planta ýmsum blómstrandi runnum eins og t.d. rósum og/eða kvistum.
Þú vilt sennilega fá skjól í garðinn þinn og það gerðirðu með því að planta trjám í kringum hann. Það verður þó að gæta þess að halda stórvöxnum trjám sem lengst í burtu frá húsinu ef á annað borð á að setja niður stórvaxin tré. Það skyldi fara varlega í það að planta niður plássfrekum trjám því það er alltaf leiðinlegt að þurfa að fella stór og gróskumikil tré þegar þau eru farin að skyggja of mikið á.
Mót suðri skyldi ekki planta neinu sem verður hærra en svona þrír til fjórir metrar, annars er farið að skyggja á sólina. Þar eru runnarnir bestir. Til dæmid yllir (Sambucus), eða sýrenur (Syringa). Þær geta þó orðið nokkuð fyrirferðarmiklar og háar og eru kannski betri mót austri eða vestri, jafnvel norðri. Sumir toppar (Lonicera) og ýmsar víðitegundir ættu að henta líka. Til norðurs er aftur á móti í lagi að setja niður stór tré eins og t.d. hlyn (Acer), álm (Ulmus), silfurreyni (Sorbus intermedia) og sitkagreni (Pivea sitchensis) svo að einhver séu nefnd. Þá eru suðaustur og suðvestur hornin kjörin fyrir stærri tré. Hlynur og silfurreynir mynda þó mjög þétta og stórar krónur sem varpa miklum skugga og álmurinn er ákaflega gráðugur og stelur næringa frá því sem í kringum hann vex. Þá er hann geysilega lússælinn. Það er svo sem allt í lagi, þær gera manni ekkert og þurfa að éta líka. Sitkagrenið er reyndar ekki mjög heppilegt í garða, enda er það skógartré, stórt og grófgert. Rætur þess liggja mjög grunnt og víða, meirihlutinn sennilega í garði eða görðum nágrannanna. Elri (Alnus), til dæmis gráeldri (A. Incana), ilmbjörk (Betula pubescens), vörtubirki/hengibirki (B. verrucosa), reyniviður (Sorbus) og ýmsar furutegundir (Pinus) gætu gefist vel. Varastu þó stafafuru (P. Contorta) þótt hraðvöxnust flestra fura sé. Hún er skógartré og verður alltaf stór.
Ef verulega heitt veður í veðri og þú þarft á forsælu að halda gæti verið gott fyrir þig að eiga stað í garðinum þar sem þú getur setið í hálfskugga og logni. Þetta svæði þarf ekki að vera stórt, pláss fyrir einn bekk og/eða lítið borð. Þetta svæði er best sett undir stórum runnum eða trjám og ný tist þá einnig sem athugunarstöð fyrir dýralífið í garðinum.
Ef þú sest á svona stað og situr kyrr, líða ekki margar mínútur þar til fuglarnir í garðinum hafa gleymt þér. Maður er ekki mjög áberandi í hálfskugganum þar sem ljós og skuggi skiptast á.
Þegar þú hefur valið réttu staðina til að sitja á og ákveðið hversu stórir, eða réttara sagt litlir, þeir eiga að vera geturðu farið að hugsa fyrir stærri “herbergjum”. Í litlum garði getur verið að þú hafir ekki pláss fyrir nema eitt annað opið herbergi eða svæði. Eftir að hafa sett verönd í sólríkasta horn garðsins upp við húsið og bekk sem sný r í vestur undir runnana langar þig kannski að koma upp rjóðri sem þú getur horft inn í. Ef garðurinn er stór gætirðu viljað hafa tvö eða fleiri svæði og hvort sem sitt hlutverkið.
Svæðið næst húsinu gæti verið slegin og vel hirt grasflöt sem ný tis þér í samkvæmum. Flöt sem gaman er að horfa á vegna þess hve snyrtileg hún er. Þá gætirðu viljað hafa annað svæði þar sem börnin geta leikið sér. Þar mætti setja sandkassa e.t.v. rólur og þar gætu þar farið í boltaleiki. Þar mundir þú setja grófara gras og leyfa fíflunum að vaxa í friði á flötinni. Svona flöt gæti líka ný st hrossaflugunum. Þriðja svæðið gæti verið tekið undir matjurtagarð. Í kringum hann væri hægt að hafa berjarunna. Fjórða svæðið gætirðu skipulagt sem villisvæði. Flötin gæti verið eins og skógarbotn með viðeigandi blómum. Í þetta svæði mætti setja tjörn. Athugaðu bara að þú sjáir til hennar út um glugga.
Ef þú hugsar garðinn þinn sem “herbergi” afgirt grænum veggjum runna og trjáa, ætti að vera auðvelt að breyta til eftir því sem þarfir fjölskyldunnar breytast. Þegar börnin vaxa upp úr því að leika fótbolta í garðinum og færa sig yfir á alvöru velli er auðvelt að breyta litla knattspyrnuvellinum í rjóður með því að planta og sá í hann skógarbotnsplöntum.
Nú skulum við aðeins athuga fjórða svæðið nánar. Ef þú hefur jafnmikinn áhuga á villtu lífi og ég, er nauðsynlegt að setja niður tjörn. Í kringum hana er líf allan ársins hring nema í mestu frosthörkum. Þegar þú ákveður að setja niður tjörn er best að kaupa eða búa til jtörn sem er frekar hrunn og með aflíðandi botni. Á bökkunum geturðu komið þér upp ýmsum votlendis- og mýrarplöntum, eins og stör, fífu o.fl. Ef þú staðsetur tjörnina þannig að þú sjáir hana frá húsinu þínu kemstu að því að næstum því í hvert sinn sem þú lítur út um allan gluggann sérðu eitthvað skemmtilegt sem er þar að gerast.
Annað sem þú gætir sett niður í garðinn þinn, sem nauðsynlegt er að geta séð frá húsinu, er fuglaborð. Það þarf hvort eð er að vera á bersvæði því annars er of auðvelt fyrir ketti hverfisins að ná sér í aukabita. Ef þú gefur fuglunum reglulega á veturna hefurðu “ skemmtiþátt “ nokkra metra fyrir utan gluggannn þinn.
Það er nú einu sinni svo að það sem vex einna best hér á landi eru ýmis konar grös. Fjölbreytni þeirra er með ólíkindum. Þau eru misjöfn að stærð og útliti. Öll þessi grös geta komið vel út á tilbúnu engi með ýmsum blómplöntum. Í grasinu leynast lífverur eins og bjöllur og maðkar. Í grasflatirnar er upplagt að setja niður haustlauka eins og krókusa, vepjuliljur, perluliljur, vetrargosa og skógaranimónur. Það má slá flötina upp úr miðjum júlí en þá missir maður af því að sjá grösin blómstra. Ef þú setur flöt hjá þér er ekki verra að slá stíga í gegnum hana svo að þú getir virt fyrir þér það sem er að gerast á flötinni án þess að stífa niður viðkvæm blóm. Falleg og skörp skil engisins og sleginnar grasflatar róa líka vini og nágranna. Þeir eru líklegri til að meðtaka rök þín fyrir því að “þetta eigi að vera svona” en hafi ekki bara gleymst í slætti.
Matjurtagarðurinn, ef þú vilt á annað borð hafa slíkan, ætti að vera nálægt skóginum og eins og fyrr sagði er upplagt að setja berjarunna kringum hann. Það gætu verið rifs og blóðrifs, sólber og stiklilsber. Þeim fer fjölgandi rifstegundunum sem hægt er að fá. Hélurifs, væturifs, alparifs, magdalenurifs, klettastikill, blárifs og fleiri tegundir. Ég er líka með í garðinum hjá mér amerískan bláberjarunna og brómberjarunna. Það verður þó að segjast eins og er að ekki er nú uppskeran af þessum runnum mikil þar sem sumarið er of stutt og kalt. Því get ég ekki samviskunnar vegna mælt með þeim og hindberjarunnar geta orðið að mögnuðu illgresi og uppskeran er ákaflega rþr nema í bestu sumrum. Þá er ég með bæði krækiberjalyng, bláberjalyng, hrútaberjalyng og er að reyna við aðalbláberjalyng. Reynslan á eftir að skera úr um hvort ég fæ á það ber. Fyrir nokkru fékk ég í gegnum um G.Í fræ af bláberjarunnum frá Tékklandi og Shakalíneyjum. Þessi fræ eru nú spíruð og það verður gaman að fylgjast með hvað verður úr þeim í framtíðinni þótt ekki séu plönturnar stærri núna en títuprjónshausar.
Þá ættu jarðarber að geta plumað sig vel í skjólinu frá berjarunnunum.
Sérstaklega íslensk villijarðaber, (Fragaria vesca). Ber þeirra eru lítil en bragðgóð og þau geta gefið mjög mikla uppskeru. Þá er jurtin góð sem þekjuplanta. Matjurtagarðurinn þarf að vera vel opinn til suðurs og austurs en það þýðir að á þá vegu ætti að setja lágvaxna runna. Á þann hátt geturðu tryggt þér sól og góða birtu inn á svæðið. Einhvers staðar í “skógarjarðrinum” nálægt matjurtagarðinum ættirðu að setja niður safnhauginn. Reyndu að staðsetja hann þannig að ríkjandi vindátt blási af honum frá svæðum þar sem þú ætlar að sitja á sólríkum dögum þar sem nokkur lykt getur komið frá honum á heitustu dögum sumarsins.
Þegar þú flytur í nýtt húsnæði er stundum ekki búið að ganga frá lóðinni og ekki búið að keyra í hana mold og jafna hana út. Ef það er raunin skaltu fara þér hægt áður en þú lætur keyra bílhlass eftir bílhlass af gróðurmold á lóðina. Á flestum stöðum er ekki alveg nauðsynlegt að keyra mikla mold í garðinn. Flest tré og runnar þrífast alveg jafnvel í þeim jarðvegi sem fyrir er og stundum betur.
Það sannar skógræktarbyltingin mikla þar sem verið er að planta trjám út um allt land í svörð sem ekkert hefur verið undirbúinn. Hvað slegna grasflöt varðar er nóg að slétta svæðið og setja kannski fimm til tíu sentimetra lag af gróðri gróðurmold ofan á ásamt húsdýraáburði. Þar sem engi á að vera þarf mest lítið að gera annað en að sá í það og planta niður laukum. Hugsanlega gæti verið gott að búa til gryfjur á stöku stað sem fylltar eru með góðri gróðurmold, t.d. þar sem rósir eiga að vaxa og ef einhvers staðar eiga að vera skrautplöntubeð. Það er nefnilega þannig með flest af því sem kallast illgresi í görðum að því betri sem gróðurmoldin er þeim mun betri vaxtarskilyrði hefur það.
Þeir eru æði margir sem í gegnum tíðina hafa þurft að taka burt góðu frjóu moldina og setja grús og möl í staðinn til þess að geta ræktað plöntur sem ekki þrífast í gróðurmoldinni, eins og t.d. ýmsar holtaplöntur og steinhæðarplöntur. Ef engið þitt er á gróðri gróðurold kemur grasið til með að vaxa eins og það sé á uppmælingartaxta og kæfa allar fallegu blómplönturnar. Besti jarðvegurinn fyrir rjóðrið þitt er gljúpur, grófur og sendinn. Þannig safnast ekki fyrir í honum vatn.
Ef þú hefur tök á því skaltu fara varlega í að slétta út lóðina þína. Til þess að fá fjölbreytni í dýralífið þarf fjölbreytni í landslagið og gróðurinn þarf að vera lagskiptur. Það er auðvelt ef lóðin er með hallandi “ásum”, rökum lautum og þurrum “sléttum”.
Þetta er nú allt gott og blessað gæti nú einhver sagt. En hvað á þá að gera ef maður flytur kannski inn í fjörutíu ára gamlan og vel gróinn garð? Ef það er tilfellið og vilt auka fjölbreytni dýralífsins í garðinum er besta ráðið að slappa af. Ég reikna með að fæstir séu tilbúnir til þess að fara að umbylta garðinum sínum enda væri það brjálæðisleg vinna. Það eru margar auðveldar aðferðir sem þú getur notað til þess að breyta garðinum þínum svo að hann gagnist betur dýralífinu.
Hækkuðu blöðin á sláttuvélinni um svona tvo sentimetra og grasflötin breytist til hins betra. Bæði hvað varðar skríðandi smádýr, sem fuglar sækja í, og lágvaxin blóm sem nú gætu blómstrað. Safnaðu í hrúfu dauðum trjábolum. Safnaðu í hrúgu dauðum trjábolum, afklippum af greinum og föllnu laufi. Hentu smá mold yfir og sáðu í þetta. Þú verður undrandi á því sem gerist. Þarna koma til með að vaxa blómin sem þú sáðir, sveppir og allt verður þetta fullt af ýmsum kvikindum sem gaman er að fylgjast með. Leyfðu blómunum að þroska fræ og þau sem ekki sá sér strax sjá fuglum fyrir æti fram eftir vetri. Hafðu trú á jafnvægi náttúrunnar og á skömmum tíma verður komið á jafnvægi og þú þarft ekki að láta úða garðinn þinn á hverju ári.
Hlutverk þitt sem garðeigandi er hvorki að taka eða gefa, heldur að planta!
Með því er ég ekki að segja að þú eigir að henda skóflum, hrífum og klórum. Skoðaðu jarðveginn og mældu sýrustigið. Það geturðu gert á auðveldan hátt með litmúsapappír. Hann færðu í apóteki. Plantaðu svo þeim plöntum sem henta þeim jarðvegi sem þú finnur. Mundu að hver einasta planta er vön skjólinu ofan á moldinni sem hennar eigið lauf og gefur og sama gildir um rotnunargerlana sem fæða hana. Hafðu hugfast að fallin lauf, dauðir stilkar og illgresi, sem þú hefur reytt, er betur komið þar sem það er. Þar gefur það stöðuga og betri næringu en áburðargjöf einu sinni á ári.
Áburðurinn ný tist aðeins vel ef þétt er plantað þar sem þú setur hann. Því fleiri plöntur, því fleiri tegundir, því fleiri lífverur geta þrifist og því betri verður endurvinnslan og geymsluhæfni gróðursins.
Það er annað sem gerist ef þú tekur til hendinni á haustin og klippit niður stöngla sem þú hendir eða setur í safnkassann. Laufið sem fþkur um í vetrarnæðingunum stansar ekki á stönglunum þar sem það veitir rótarhálsinum skjól, heldur fþkur út í veður og vind og tapast. Það er nefnilega þannig að á haustin má eiginlega segja að búið sé að leggja á borð fyrir nægtabrunn sumarsins og ef maturinn fþkur út í veður og vind verður lítið fyrir gestina að nærast á þegar sólin hringir til borðs að vori.
Við eigum að virða lífið í garðinum. Bæði vegna verðmætanna sem það geymir og verðmætanna sem það gefur. Við eigum að virða og treysta jarðveginum sem lífkerfi er þrífst best við sem minnst afskipti af okkar hálfu því hlutverk okkar sem garðeiganda er hvorki að taka né gefa. Það er að planta!
Þegar þú hefur tileinkað þér rétt og afslappað hugarfar og lært að meta svolitla óreiðu, geturðu farið að byggja upp “villi”-hlutann af garðinum. Þetta geturðu gert rólega og ódýrt. Settu upp fuglaborð og gefðu fuglunum reglulega. Settu upp fáeina hreiðurskassa fyrir smáfugla eins og auðnatittlinga og maríuerlur. Settu niður fleiri blómtegundir sem hafa mikið af frjódufti, hunangi og fræjum handa býflugunum, fiðrildunum og fuglunum. Ræktaðu klifurplöntur eins og bergfléttu (Hedera), humal (Humulus), vaftopp (Lonicera) og ýmsar sóleyjar (clematis). Leyfðu þeim runnum sem fyrir eru að vaxa án þess að klippa þá og mynda skjól fyrir það sem neðar vex.
Hægt og rólega verður dýralífið fjölbreyttara eftir því sem skjóldið eykst.
Frá mínum bæjardýrum séð er vatn það sem mest spennandi sem hægt er að setja í garðinn. Það er vegna þess að árangurinn kemur í ljós næstum samstundis. Ef þú ert með lítil nörm finnst þér kannski að tjörn gæti verið nokkuð varasöm, eða a.m.k. aukið þér erfiði vegna þess að þú þurfir alltaf vera að láta börnin í þurr föt. Það er þó sagt að til þess að öðlast virðingu fyrir einhverju þurfi maður að kynnast því.
Maður nokkur setti niður tjörn í garði sínum. Hann átti tveggja ára son. Að sjálfsögðu hljóp óvitinn beint út í vatnið í fyrstu könnun sinni á tjörninni meðan maðurinn stóð í rólegheitunum og horfði á. Strákgreyið rennblotnaði í köldu vatninu og faðir hans bjargaði honum snarlega úr grunnri tjörninni. Hann fer mjög varlega nálægt vatni síðan. Ef þú ert ekki mikið fyrir svona leikmanns barnasálfræði geturðu gert annað. Búðu til tjörn, fylltu hana af jarðvegi og gerðu mýri. Þar geturðu ræktað fífu, stör og ýmsar mýrarplöntur sem sjaldséðar eru í görðum. Þegar fjölskyldan er svo tilbúin fyrir raunverulega tjörn er þér í lófa lagið að grafa holu í miðja mýrina.
Þegar þú ert einu sinni komin af stað eru ótal hlutir sem þú getur gert. Þú verður þó að hafa í huga að til þess að árangri verður að útbúa rétt skilyrði fyrir það sem þú plantar eða sáir í garðinn. Svo dæmi sé tekið af melasól eða fjólum þá þrífast þessar tegundir verulega illa í rökum og þéttum jarðvegi. Þær þurfa möl. Sama gildir um krækilyng, eyrarrós og ýmsar holtaplöntur. Þetta þýðir að það hefur ákaflega lítinn tilgang að planta þessum tegundum í gamla og gróna grasflöt, auk þess sem grasið myndi kæfa þær.
Það er eitt enn sem þú skalt athuga ef þú ferð út í “villi”-garðyrkju. Það er umhverfið í kringum garðinn. Ef svo vill til að þú býrð nálægt villtu svæði eru möguleikar þínir á heimsóknum meiri en ef þú býrð fjarri slíku svæði. Mér koma í hug svæði kringum Öskjuhlíðina, Elliðaárdalinn, Fossvogsdalinn, Grafarholtið, Smárahvammslandið og Rjúpnahæð á Reykjavíkursvæðinu svo fátt eitt sé nefnt. Úti á landi eru íbúar í miklu nánari tengslun við villta og ómengaða náttúruna hvað lífríkið varðar en við hér í steypuskóginum. En annað höfum við í staðinn. Ef grannt er skoðað má segja að götur í borgum og kaupstöðum séu eins og gil. Í skjólinu í giljunum þrífst ýmislegt sem kannski á ekki eins auðvelt uppdráttar á bersvæði. Það sýna allar þær nýju tegundir sem vaxa í görðum í borgum og bæjum og ekki þrífast utan “giljanna”.
Að sjálfsögðu gætirðu viljað byggja upp vistkerfi sem er gjörólíkt umhverfinu í þeirri trú að það auki fjölbreytileikann í nágrenninu. Það er ekkert sem hindrar þig í að búa til súra fúamýri eða basíska fjöru ef þig langar til. En að þurfa að vökva fjöruna með sjó á tveggja daga fresti verður ákaflega þreytandi til lengdar. Ekki kannski leiðinlegt en afskaplega þreytandi. Þá verður dýralífið í mýrinni aldrei í samræmi við dýralífið í raunverulegri mýri nema raunveruleg mýri sé í næsta nágrenni við þig. Þú gætir kannski farið og veitt nokkrar brunnklukkur. Mþrin verður þóo aldrei annað en samansafn af mýrarplöntum og við erum að sækjast eftir villtu náttúrulegu dýralífi, ekki safngripum. Ég held a það sé miklu skynsamlegra og auðveldara að skapa vistkerfi sem er í samræmi við nánast umhverfi en að fara að reyna að gera eitthvað framandi. Það er svo miklu meiri vinna. Mundu að takmarkið er að minnka vinnuna, ekki auka hana.
Að lokum þetta. Hugsanlegt er að eftir fáein ár verði garðurinn þinn eina athvarf ýmissa dýrategunda á stóru svæði sem misst hafa upphafleg heimkynni sín undir malbik eða steypu.
Varúð plöntur!
Ýmsar þær jurtir sem fólk hefur í görðum sínum eru hættulegar mönnum. Ein sú vinsælasta í görðum er Venusvagn eða Bláhjálmur Aconitum napellus en hún inniheldur eitrið aconititin sem er baneitrað. Ekki ætti að handfjalla þessa ætt með opin sár á höndum hanskalaus. En fleiri plöntur eru varasamar. Ýviður/Barrlind (Taxus baccata) inniheldur hið bráðdrepandi taxicatin.
Munkahetta (Arum maculatum) inniheldur aroin og coniin. Vepjulilja (Fritillaria melagris) og F. Imperialis innihalda imperalin. Haustlilja (Colchicum aumumnale) inniheldur colchicin. Dalalilja (Convallaria majalis) inniheldur convallamarin, convalatoxin og convallosid. Brennisóley (Ranunculus acris) inniheldur anemonol. Riddaraspori (Delphinium consolida) inniheldur calcatrippin, acotininsýru, delsolin og delcosin. Jólarós (helleborus niger) inniheldur helleborin og helleborein. Draumsól (papver somniferum) inniheldur ópíum, morfín, kódín og fleiri efni. Mjólkurjurtir (Euphorbia) innihalda euphorbon. Töfratré (Daphne mezerum) inniheldur mezerin. Heggur (prunus padus),allt tréð inniheldur sama og heggur. Fjallagullregn (laburnum) hefur hátt hlutfall efnisins cyticin sem er mjög hættulegt. Garðagullregn og Blendingsgull-regn eru ekki eitruð. Lyngrósir (Rhododendron= innihalda margar hverjar andromedotoxin og er R. Catawbiense sérstaklega nefnd. Gaddepli (datura stramonium) inniheldur hyosciamin, scopolamin og atropin.
Flagðjurt (scopolia carniolica) innihalda sma og undanfarandi tegund. Fingurbjargarblóm (digitalis purpurea) inniheldur digitoxin, gitoxin og gitalin. Dúntoppur (Lonicera xylosteum) og rauðtoppur (L. Tatarica) innihalda xylostein. Úlfaber (viburnum opulus) inniheldur viburnin sem er stórvarasamt.
Þessi listi er langt frá því að vera tæmandi því ýmsar fleiri jurtir mætti nefna sem valda ertingu þótt ekki séu þær beinlínis lífshættulegar. Margar varasamar plöntur aðvara þó með sterku og/eða beisku bragði og áberandi lit.
Birt:
Tilvitnun:
Þorsteinn Úlfar Björnsson „3. kafli - Skipulagning fyrir þig og fánuna“, Náttúran.is: 10. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/3-kafli-skipulagning-fyrir-ig-og-fnuna/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. mars 2014