Umhverfisráðherra hefur ákveðið að fyrirkomulag rjúpnaveiða í haust verði með nokkuð breyttu sniði frá fyrra ári. Tveimur helgum verður bætt við tímabilið en á móti kemur að veiðihelgar verða styttar úr fjórum dögum í þrjá. Því verða veiðidagar átján eins og í fyrra. Nú verður veiði heimil á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og tímabilið hefst frá og með 27. október og stendur til og með 6. desember.

Sú ný breytni hefur orðið að nú er gert ráð fyrir að reglugerðin gildi til þriggja ára, nema að óvænt þróun verði í rjúpnastofninum á þeim tíma. Þess vegna er fyrsti veiðidagur í ár ekki fyrr en 30. október þrátt fyrir að veiðitímabilið hefjist 27. okóber samkvæmt reglugerð.

Ákvörðun umhverfisráðherra byggir á mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins og mati Umhverfisstofnunar á heildarveiði árið 2008.

Að mati Náttúrufræðistofnunar er fækkun í rjúpnastofninum sem hófst 2005 og 2006 afstaðin og vöxtur í stofninum sem vart varð um austanvert landið í fyrra nær nú til alls landsins. Sóknarskerðing sem ákveðin var haustin 2007 og 2008 kann að hafa haft þessi áhrif að mati stofnunarinnar, en veiðidögum var þá fækkað í átján. Stofnunin lagði því til að sóknargeta yrði ekki aukin umfram átján daga.

Í ljósi þessa og tillagna Umhverfisstofnunar, hefur umhverfisráðherra ákveðið að fyrirkomulag veiðanna verði sem hér segir:

  • Veiðidagar verða alls átján á tímabilinu 27. október til 6. desember.
  • Veiðar verða heimilaðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga.
  • Sölubann gildir áfram á rjúpu og öllum rjúpnaafurðum.
  • Áfram verði friðað fyrir veiði á ákveðnu svæði á Suðvesturlandi. (www.umhverfisraduneyti.is/media/frettir/kortRjupa.JPG)
  • Rjúpnaskyttur verða sem fyrr hvattar til að stunda hófsamar og ábyrgar veiðar.
  • Virkt eftirlit verður með veiðunum á landi og úr lofti eftir því sem kostur er.

Guðmundur Hörður Guðmundsson veitir nánari upplýsingar í síma 5458699 og 8680386.

Mynd: Rjúpur í vetrarbúning. ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Birt:
16. september 2009
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Breytingar á fyrirkomulagi rjúpnaveiða“, Náttúran.is: 16. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/16/breytingar-fyrirkomulagi-rjupnaveioa/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: