Tjaldar Landsvirkjun til einnar nætur með Kárahnjúkastíflu? - Fréttatilkynning
-
Nátturuvaktin skorar á stjórnvöld að efna tafarlaust til úttektar af hópi óháðra sérfræðinga á Kárahnjúkasvæðinu. Nú liggur fyrir að fjöldi sérfræðinga hafa lýst yfir áhyggjum sínum af jarðfræðihættum tengdum botni Hálslóns og virkni á Kárahnjúkasvæðinu. Svo virðist sem þær rannsóknir á vegum Landsvirkjunar sem lagðar voru til grundvallar framkvæmdum við Hálslón hafi verið verulega ábótavant og ekki tekið tillit til ástands bergs og aðstæðna á svæðinu. Frá því að framkvæmdir hófust hefur ítrekað komið í ljós að grunur þeirra jarðvísindamanna sem gerðu alvarlegar athugasemdir við matskýrslu framkvæmdaaðila, varðandi jarðfræðilegar aðstæður á framkvæmdasvæði, hefur reynst á rökum reistur. Því ber að kalla til óháða nefnd sérfræðinga sem fari yfir stöðuna áður en tekið verður til við að safna vatni í Hálslón með óafturkræfum afleiðingum fyrir náttúru svæðisins, jafnt friðlýst svæði við Kringilsárrana sem lífríki Lagarfljóts og Héraðsflóa.
Gífurleg áhætta tekin
Náttúruvaktin telur fullnægjandi rök komin fram til að stöðva beri framkvæmdir á meðan að óháð úttekt á jarðfræðilegum aðstæðum fer fram nema það sé ætlun stjórnvalda að tjalda til einnar nætur við Kárahnjúka og taka gífurlega áhættu á að stífla og lónsstæðið haldi ekki vatni.
Þá lýsir Náttúruvaktin yfir áhyggjum sínum af trausti stíflunnar á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram eru komnar um ástand bergs við stífluna og telur að ef vatni verður hleypt á lónið sé mögulega verið að stofna lífi, limum og eignum íbúa í næsta nágrenni í verulega hættu. Ekki þurfi að fara til Brasilíu til að finna leka í og við stíflur, nóg sé að ryfja upp vandamál sem upp komu við Sigöldu á 9. áratug síðustu aldar.
Stjórn Náttúruvaktarinnar
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Tjaldar Landsvirkjun til einnar nætur með Kárahnjúkastíflu? - Fréttatilkynning“, Náttúran.is: 17. ágúst 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/20/tjaldar_landsvir/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. mars 2007
breytt: 15. maí 2007