Í smábænum Nol norður af Gautaborg er starfrækt fyrirtækið ETC-Battery and FuelCells Sweden AB. Það er ásamt sænskum orkufyrirtækjum, orkumálayfirvöldum og bílaframleiðendunum Volvo og Saab þátttakandi í samstarfsverkefni um þróun tengiltvinnbílatækni og innviða fyrir árangursríka markaðssetningu slíkra bíla í stórum stíl í Svíþjóð.

Robert Aronsson, aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, segist aðspurður vera sannfærður um að liþíumrafhlöður verði sú gerð rafhlaðna sem notaðar verði að minnsta kosti í fyrstu kynslóð fjöldaframleiddra tengiltvinnbíla.

Að vísu verða nikkel-málm-hþdríð-rafhlöður í fyrsta fjöldaframleidda tengiltvinnbílnum sem væntanlegur er á markað í lok næsta árs, en það er tengilútgáfa af uppfærðum Toyota Prius. Ástæðan er sú að Toyota hefur nú safnað yfir tíu ára reynslu af fjöldaframleiðslu tvinnbíla og selt samtals yfir milljón slíkra, flesta á Bandaríkjamarkaði. Í þeim öllum eru nikkel-málm-hþdríð-rafhlöður, en þær hafa reynzt gegna hlutverki sínu vel þrátt fyrir að viðurkennt sé að liþíumrafhlöður séu skrefi framar og henti betur til fjöldaframleiðslu. Því telur Aronsson að Toyota muni ætla að hámarka arðsemina af því forskoti sem þessi reynsla skapar fyrirtækinu á keppinauta með því að skipta nikkelrafhlöðunum að sinni ekki út fyrir hinar fullkomnari, en óreyndari, liþíumrafhlöður.

Toyota veðjar á tengiltvinntækni
Í þeim Prius-bílum sem hefur verið breytt í tengiltvinnbíla og er nú verið að gera tilraunir með í París, Lundúnum og Stokkhólmi eru aukarafhlöðurnar, sem hægt er að hlaða úr innstungu, liþíumrafhlöður. Piet Steel, aðstoðarforstjóri Evrópudeildar Toyota, staðfesti þetta á ráðstefnunni Driving Sustainability 08 í Reykjavík á dögunum. Katsuaki Watanabe, aðalforstjóri Toyota, tjáði blaðamönnum í lok ágúst að Toyota myndi veðja stórt á tvinn- og tengiltvinntæknina. Toyota á eitt stærsta rafgeymafyrirtæki Japans, Panasonic EV Energy, og hefur fest mikið fé í rannsóknir á vænlegustu tækninni fyrir tvinn-, tengiltvinn- og hreinræktaða rafbíla. Watanabe gaf reyndar til kynna að hans menn væru að vinna að enn betri lausn en liþíum-jóna-rafhlöðunum sem nú þykja lofa beztu.

Austurasíulönd með forskot
Þau fyrirtæki sem hafa mesta forskotið í þróun og framleiðslu rafhlaðna sem hentað geta í raf- og tengiltvinnbíla eru í Japan og öðrum Austurasíulöndum; Suður-Kóreu, Taívan og Kína. Þó eru nokkur fyrirtæki og rannsóknastofnanir í Evrópu og Bandaríkjunum líka framarlega á þessu sviði. Einna þekktast er A123Systems, sem varð til sem sprotafyrirtæki út úr rafhlöðurannsóknum hjá MIT-háskóla í Bandaríkjunum. Liþíumrafgeymarnir í Chevrolet Volt- tengiltvinnbílnum, sem bílarisinn GM bindur miklar vonir við og ætlar að setja á markað árið 2010, munu væntanlega verða framleiddir af A123Systems.

Framleiðslugeta mikilvægust
Robert Aronsson bendir á að þegar fjöldaframleiðsla tengiltvinn- og rafbíla fari í gang fyrir alvöru þá verði það ekki aðalatriði hver eigi einkaleyfin að hönnun bestu rafhlaðnanna, heldur hver hafi getu til að framleiða þessa hátæknivöru á skilvirkan og hagkvæman hátt. Sprotafyrirtæki sem stofnað var út úr ETC í Svíþjóð, Åle Lion Batteries AB, ætlar að koma sér upp getu til að sjá bílaiðnaðinum fyrir slíkum rafhlöðum. Fjárfestarnir í fyrirtækinu líta svo á að slík framleiðslugeta sé liður í því að tryggja að að bílaiðnaður eigi sér framtíð í Svíþjóð.

Nægt hráefni til
En er til nóg af liþíumi til að sjá fjöldaframleiðslu á liþíumrafhlöðum fyrir hráefni á samkeppnishæfu verði? Aronsson segir svo vera. Mjög lítið liþíum þurfi í liþíum-jóna-rafhlöðu eða um 0,14 kg á hverja kílówattstund orkugeymslugetu.

Til samanburðar þurfi í hefðbundinn blýsýrurafgeymi 14 kíló á kWh. Gizkað sé á að auðaðgengilegar birgðir af liþíumi í heiminum séu um sjö milljónir tonna, en það magn nægi til að framleiða rafgeyma sem dygði 33 milljörðum tengiltvinnbíla. Til samanburðar má nefna að ársbílaframleiðsla heimsins er nú um 70 milljónir bíla.

Aronsson bendir líka á að eins og er kosti hver kílówattstund af orkugeymslugetu í liþíumrafhlöðu um 1000 Bandaríkjadali en aðeins um 150 dali í blýsýrurafgeymi. Hann spái því hins vegar að með fjöldaframleiðslu muni verðið á kílówattstund í liþíumrafhlöðum verða komið niður í sambærilegt verð við blýsýrurafgeyma á innan við fimm árum.

Birt:
4. október 2008
Höfundur:
Fréttablaðið
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Veðjað á liþíum til fjöldaframleiðslu í bíla“, Náttúran.is: 4. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/04/veojao-lithium-til-fjoldaframleioslu-i-bila/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: