Aðeins rúmt eitt prósent af bílum í eigu ríkisins og ríkisfyrirtækja er knúið vistvænum orkugjöfum, þrátt fyrir rúmlega árs gömul markmið um að tíundi hver bíll í eigu ríkisins verði vistvænn fyrir lok árs 2008.

Ríkið og fyrirtæki í eigu ríkisins eiga eða eru með á rekstrarleigu samtals um 1.500 bíla. Af þeim eru aðeins 22 annað hvort knúnir af vistvænum orkugjöfum eða eru svokallaðir tvinnbílar. Hlutfallið er um 1,5 prósent.

Í mars 2007 setti ríkisstjórnin þau markmið að í lok árs 2008 yrðu tíu prósent af bifreiðum í eigu ríkisins knúin vistvænum orkugjöfum, tuttugu prósent í lok árs 2010 og 35 prósent í lok árs 2012.

Pósturinn, fyrirtæki í eigu ríkisins, sker sig frá stofnunum og öðrum ríkisfyrirtækjum. Af 126 bílum Póstsins eru tíu vistvænir, eða um átta prósent.

Miðað við tölur um endurnýjun bílaflotans þurfa allir bílar sem ríkisstofnanir kaupa það sem eftir er árs að vera knúnir vistvænum orkugjöfum, eigi markmið ársins 2008 að nást. Augljóst er að það mun ekki gerast.

"Það er því miður allt of algengt að ríkisstjórnin leggi upp með háleit markmið, ekki síst í loftslagsmálum, en svo reynist lítil innistæða þegar til aðgerða kemur," segir Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

"Það þarf mikið að breytast ef stjórnvöldum á að takast að standa við boðaða stefnu sína um að draga saman losun sína um 25 til fjörutíu prósent fyrir 2020," segir hann, og lýsir eftir aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.

"Hér benda allar línur í þveröfuga átt, þannig jókst til dæmis losun vegna samgangna um sautján prósent á milli áranna 2005 og 2006. Stjórnvöld þurfa að taka sér tak, það er komið nóg af hátíðarræðum, nú þarf aðgerðir," segir Bergur.

"Eitt er að setja sér markmið og annað er að ná þeim," segir Júlíus S. Ólafsson, forstjóri Ríkiskaupa. Hann segir margt spila inn í við kaup ríkisins á bílum. Stærsta hindrunin sé þó sú að bílar knúnir vistvænu eldsneyti séu svo gott sem bundnir við höfuðborgarsvæðið þar sem aðeins sé hægt að fá eldsneyti á þá í Reykjavík.

"Þó svo að vilji manna kunni að standa til þess að kaupa þessa vöru er ekki þar með sagt að það sé praktískt enn sem komið er," segir Júlíus.

Grafík: „Mengun í Reykjavík“ Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.

Birt:
13. maí 2008
Höfundur:
bj
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
bj „Langt í land að vistvæn markmið náist“, Náttúran.is: 13. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/14/langt-i-land-ao-vistvaen-markmio-naist/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 14. maí 2008

Skilaboð: