Haukur Jóhannesson mun halda fyrirlestur í Orkugarði 24. febrúar kl. 13:00, sem ber heitið: Dreifing jarðhitans og tengsl hans við berggrunninn í ljósi nýrrar túlkunnar á jarðfræði Íslands.

Jarðhiti er ein mesta auðlind sem finnst á Íslandi og nýting hans og stærð skiptir þjóðarbúið mjög miklu máli. Því er mikilvægt að hafa staðgóða þekkingu á eðli, uppruna og stærð jarðhitakerfa. Jarðhitasvæðum er skipt í háhita- og lághitasvæði og eru þau mjög ólík að gerð.

Höfundur hefir nýlega sett fram nýja túlkun á jarðfræði Íslands og er hér leitast við að útskýra dreifingu og eðli jarðhitans í því nýja ljósi.

Lághiti er bundin við svæði utan hinna virku gosbelta en þó mjög misdreifður um landið. Lághitinn er mun algengari á vesturflekanum en þeim eystri. Sýnt er fram á að lághitinn er allur tengdur tiltölulega ungum sprungukerfum sem ýmist eru hluti af virkum sprungureinum eldstöðvakerfa í núverandi gosbeltum eða endurlífguðum fornum brotakerfum. Eldri brotakerfi orsaka veilur í berggrunninn sem auðveldlega geta brotnað upp og leitt vatn. Slík forn brotakerfi eru mjög algeng á vesturflekanum en lítt áberandi á þeim eystri. Kynnt er flokkun á þessum brotakerfum. Varmagjafi flestra lághitasvæða er hitastreymi innan úr jörðinni en nokkur svæði eru það öflug að þar hlýtur að vera grunnstæður, staðbundinn varmagjafi s.s. í Reykholtsdal og Mosfellsbæ.

Háhitinn er bundinn við virkar megineldstöðvar. Höfundur veltir fyrir sér hvernig skilgreina skuli gosbelti en það má gera á ýmsan máta. Grunneiningar gosbeltanna eru eldstöðvakerfi. Eldstöðvakerfi er megineldstöð og tengd sprungurein. Í ljós kemur að margar sprungureinar stefna út úr sjálfum gosbeltunum og þau geta stjórnað streymi lághita utan þeirra.

Leidd eru rök að því að háhita sé ekki að finna í sprungureinunum heldur aðeins í tengslum við sjálfar megineldstöðvarnar og tekin dæmi af aðstæðum í djúpt rofnum megineldstöðvum. Hitagjafi háhitasvæða er vafalítið grunnstæð kvikuhólf eða heit innskot. Bent er á að viðteknar skoðanir á nokkrum sprungugosum bendi til að kvika komi upp undir megineldstöðvunum og hlaupi út eftir sprungureinunum. Gangar í eldri stafla eru að jafnaði um einn metri á þykkt og sýnt er fram á að þeir kólni á fáum árum. Því er ólíklegt að háhitakerfa sé að leita í sprungureinunum. Einnig er bent á að í rofnum stafla bendi fátt til að háhiti sé virkur milli aðliggjandi megineldstöðva og því ekki á vísan að róa með háhita í gosbeltunum utan megineldstöðva.

Ljósmynd: Leirlækur í Hveragerði, Guðrún Tryggvdóttir.

Birt:
17. febrúar 2010
Höfundur:
Orkustofnun
Tilvitnun:
Orkustofnun „Dreifing jarðhitans og tengsl hans við berggrunninn“, Náttúran.is: 17. febrúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/02/17/dreifing-jarohitans-og-tengsl-hans-vio-berggrunnin/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: