Fyrir skömmu ræddi fréttamaður Ríkisútvarpsins við Áslaugu Helgadóttur, starfsmann Landbúnaðarháskóla Íslands, sem tjáði hlustendum þá grónu trú sína að erfðabreyttar plöntur séu landbúnaði heimsins hagfelldar. Í ljósi reynslunnar af ræktun slíkra plantna um heim allan er erfitt að átta sig á bjartsýni hennar.

Erfðatæknin bregst bændum í Norður-Ameríku

Líftæknifyrirtækin gáfu bandarískum bændum fyrirheit um aukna uppskeru og minni notkun eiturefna með ræktun erfðabreyttra plantna. Svonefndum Ht-plöntum var erfðabreytt til að þola eiturúðun sem eyðir öllum öðrum plöntum. Eftir 3-4 ár tekur „illgresið“ hins vegar að mynda þol gegn eitrinu, verður n.k. ofurillgresi sem ómögulegt er að farga án meiri, dýrari og eitraðri efna. Svonefndum Bt-plöntum var erfðabreytt þannig að þær framleiddu sjálfar eitur sem fargar ákveðnum skordýrum. En þegar 5 ár eru liðin taka skordýrin að mynda ónæmi gegn eitrinu og breytast í ofurskordýr sem ekkert ræðst við án þess að úðað sé sterkum og dýrum eiturefnum.

Bændur voru ennfremur fullvissaðir um að varnarbelti milli ræktunarskika myndu hindra að hefðbundin ræktun mengaðist af völdum erfðabreyttra plantna, en raunin er sú að erfðabreytt frjókorn og fræ hafa dreifst yfir í hefðbundna uppskeru og út í annað umhverfi og þannig valdið mengun matvæla- og fóðurbirgða. Í Bandaríkjunum eru stjórnir allmargra ríkja að undirbúa löggjöf sem gengur mun lengra en alríkislöggjöfin á þessu sviði og í þrígang hafa alríkisdómstólar fellt dóma á hendur ráðuneyti landbúnaðar fyrir ónóga stjórn á málefnum erfðabreyttra lífvera.

Vaxandi áhyggjur af heilsufarsáhættu frá erfðabreyttum matvælum hafa leitt til þess að allir helstu keppinautar um útnefningu Demókrata til forsetaframboðs hafa lýst stuðningi við merkingar erfðabreyttra matvæla. Ef litið er til Kanada, sem er eitt af stærstu ræktunarlöndum heims á erfðabreyttum plöntum, þá byggir framleiðsla þess á dýrum aðföngum og tækni og er þess vegna einkar óhagkvæm. Talið er að kanadískir bændur tapi 50-200 dollurum á ræktun hverrar ekru, sem endurspeglast í niðurgreiðslum og skuldastöðu.

Erfðabreytt bómull bregst Indverjum

Indversk stjórnvöld hafa hvatt fátæka bændur til kaupa á erfðabreyttu bómullarfræi, en sala á því var liður í samningum Indverja við Bush Bandaríkjaforseta, m.a. um þróun kjarnorku. Fræið er ríflega þrisvar sinnum dýrara en venjulegt fræ, en bændur voru fullvissaðir um að uppskera myndi aukast. Það brást hins vegar, margir urðu gjaldýrota af þeim sökum og sjálfsvíg þúsunda bænda eru rakin beint til þessa. Þá hafa stórir hópar búfjár drepist á Indlandi af völdum eitrunar sem rakin er til beitar á erfðabreyttum bómullarplöntum (Bt-plöntum) sem uxu eftir að uppskeru lauk. Nýlega sameinuðust 6½ milljón bænda úr öllum ríkjum Indlands um ákæru á hendur stjórnvöldum fyrir að valda óafturkræfu tjóni á landbúnaðarlandi og skerðingu líffræðilegs fjölbreytileika með því að heimila ræktun erfðabreyttra plantna. Nokkrir stjórnmálaflokkar hafa nú krafist þess að slík ræktun verði þegar í stað bönnuð.

Á ræktun erfðabreyttra plantna rétt á sér á Íslandi?

Allir hlutar erfðabreyttra plantna bera í sér erfðabreytt prótein (DNA). Rætur þeirra, stilkar, lauf, blóm og fræ dreifa með sér erfðabreyttum efnum, berist þessir plöntuhlutar á nærliggjandi nytjalönd eða út í umhverfið. Samkvæmt íslenskum lögum eru bændur (eða fyrirtæki) sem rækta erfðabreyttar plöntur bótaskyldir vegna tjóns sem mengun umhverfis af þeirra völdum orsakar. Af þeim sökum eru bændur nánast berskjaldaðir, komi upp skaðabótamál varðandi ræktun erfðabreyttra plantna.

Rannsókn Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO) árið 2007 sýndi að gen sem skotið hefur verið í erfðabreyttar plöntur sleppa út í umhverfið, sem er ógnun við líffræðilega fjölbreytni, fjárhag bænda og lþðheilsu, og mengunarslys geta því orðið með ýmsum hætti:

  1. Erfðabreyttar plöntur víxlfrjóvgast við skyldar nytjaplöntur á nærliggjandi jörðum eða við villtar plöntur. Varnarbelti hafa ekki hindrað slíkt, hversu breið
    sem þau eru
  2. Erfðabreytt fræ dreifast með vatni og vindum, uppskeru, flutningum, umsvifum manna, umferð búfjár og villtra dýra. Slík flökkufræ eiga það til að spíra – að sjálfsögðu – sem getur gerst hvar sem er, þ.e. á akrinum sjálfum, á nágrannajörðum eða annars staðar. Því verður helst haldið í skefjum með sterkum skömmtum af illgresiseitri að
    uppskeru lokinni, sem kostar aukavinnu og peninga og – það sem verst er af öllu – það eyðileggur heilbrigði jarðvegsins.
  3. Erfðabreytt prótein berast úr plöntum í jarðvegsörverur og grunnvatn. Í rannsókn sem kanadíska landbúnaðarráðuneytið lét gera á síðasta ári kom fram að gen höfðu borist úr erfðabreyttum plöntum allt að 82 km frá ræktunarsvæðunum, niður með Richelieu- og St. Lawrence-fljótunum.
  4. Erfðabreytt fræ og plöntur sem sleppa út í umhverfið reynast þola hörðustu veðurskilyrði. Fullyrðingar um að köld veðrátta Íslands grandi erfðabreyttu flökkuplöntum eru goðsögn en ekki vísindi.

Óráð fyrir íslenskt atvinnulíf

Það væri fjárhagslega óskynsamlegt fyrir Íslendinga að rækta erfðabreyttar matjurtir, því helstu útflutningsmarkaðir okkar – ESB, Japan og æ fleiri lönd – kæra sig ekki um
erfðabreytt matvæli. Helsti vaxtarsproti í landbúnaði Evrópu er lífræn framleiðsla, sem vex nú um tæpan þriðjung á ári, m.a. vegna þess að staðlar fyrir slíka framleiðslu banna notkun erfðabreyttra lífvera.

Erfðabreyttar plöntur verða ekki til með kynbótum, eins og oft er haldið fram af líftækniiðnaðinum, heldur eru þær afurðir róttækrar tækni sem gerir mögulegt að skjóta inn í plöntur genum úr framandi tegundum, t.d. svínum, fiskum e
jafnvel mönnum. Kapphlaupið um að koma erfðabreyttum plöntum á markað var svo mikið að hagnaðarvon varð vöruþróun yfirsterkari. Erfðabreyttar plöntur hafa ekki staðið undir fyrirheitum og munu ekki gera það fyrr en vísindamenn vita mun meira um starfsemi gena og þróuð hefur verið tækni semmeðhöndlar þau af nákvæmni og öryggi.

Sandra Bl. Jónsdóttir er sjálfstæður ráðgjafi. Grein úr Bændablaðinu 12.02.2008.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. 

Birt:
14. febrúar 2008
Uppruni:
Bændablaðið
Tilvitnun:
Sandra B. Jónsdóttir „Engin framtíð í erfðabreyttri ræktun á Íslandi“, Náttúran.is: 14. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/14/engin-framtio-i-erfoabreyttri-raektun-islandi/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: