Áform um álver í Helguvík ógna nú neðri Þjórsá. Það er lítil huggun að iðnaðarráðherrann segir engin áform um að virkja Þjórsá í tíð þessarar ríkisstjórnar. Líftími hennar telst í fáum dögum. Fjárfestingarsamningur um álver í Helguvík þýðir að mestöll orka suðvestanlands verði bundin við eina stórframkvæmd sem mikil óvissa er um.

Sól á Suðurlandi bendir á að ekki er sátt um línulagnir og með því að taka orku úr Búðarhálsvirkjun til álvers í Helguvík eru íbúar Suðurlands sviptir möguleikanum á nýtingu hennar. Barátta Sólar á Suðurlandi fyrir verndun Þjórsár hefur skilað þeim árangri að skuldasúpan eftir fjárfestingaæðið sem leiddi til hruns íslenska þjóðarbúsins er heldur minni en ella væri. Vinir Þjórsár treysta því að vinstri neyðarstjórn leyfi því ekki að gerast á sínum stutta líftíma, að vonlitlir stóriðjudraumar gömlu stjórnarinnar fái samþykki á Alþingi. Samtökin fagna því að iðnaðarnefnd Alþingis veiti nú Sól á Suðurlandi tækifæri til að gefa umsögn um áformin í Helguvík, sem varða þjóðina alla og sunnlendinga sérstaklega. Það gefur von um að hlustað verði á fleiri sjónarmið en þau sem hingað til hafa verið einráð í umræðu um stórframkvæmdir. Sólin veit að heimsmarkaðsverð á áli hefur hrapað, álverum um allan heim er lokað. Samtökin skora á ríkisstjórnina að sýna fram á með óyggjandi hætti að fjárfestingarsamningurinn færi Íslendingum þau störf sem látið er í veðri vaka að skapist. Við neðri hluta Þjórsár býr líka fólk og þar eru líka störf. Framtíð og lifibrauð fólksins við Þjórsá hefur verið í óvissu í átta ár, vegna áformaðra virkjana í byggð. Á sú óvissa að ríkja áfram?

Mynd: Ferðalangar við Þjórsá. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
20. mars 2009
Höfundur:
Sól á Suðurlandi
Tilvitnun:
Sól á Suðurlandi „Sjónhverfingar í Helguvík“, Náttúran.is: 20. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/20/sjonhverfingar-i-helguvik/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: