Í frétt frá Náttúruverndarsamtökum Íslands segir:

Ekki verður annað séð en að yfirlýsingar forustumanna stjórnarflokkana um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum stangist á. Annars vegar sagði formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, í Kastljósi s.l. miðvikudagskvöld: „Það er algjörlega skýrt í mínum huga að það er ekki hægt að fara í Norðlingölduveitu.” Með þessum orðum skýrði hún þá stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að„Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna.”

Geir Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hins vegar í fréttum RÚV í gærkvöld að það væri „... ekkert í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem kveður sérstaklega á um að stöðva þessi áform (Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu). Ennfremur sagði forsætisráðherra, að „Flokkarnir hafa haft ólíka stefnu í þessu máli. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki viljað slá þetta mál endanlega af, að svo komnu máli, þó að það sé ekki á dagskrá alveg á næstu árum. Samfylkingin hefur viljað fara aðra leið í því og stefnuyfirlýsingin ber vott um að fólk hefur verið að reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu.”

Samkvæmt þessu blasir við að ekki sé samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um stækka friðland Þjórsárvera til suðurs þannig að Norðlingaölduveita verði úr sögunni. Þetta hlýtur óhjákvæmilega að draga verulega úr trúverðugleika ríkisstjórnarinnar í náttúruverndarmálum. Af þessu leiðir að Landsvirkjun mun enn hafa kverkatak á Þjórsárverum í umboði Sjálfstæðisflokksins.
Birt:
25. maí 2007
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Norðlingaölduveita fyrsta þrætueplið“, Náttúran.is: 25. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/25/norlingalduveita-fyrsta-rtuml-dagskr/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. maí 2007

Skilaboð: