Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur ákveðið að hefja undirbúning að friðlýsingu Gjástykkis í Þingeyjarsveit. Ákvörðun þess efnis var tilkynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Umhverfisráðuneytið óskaði eftir því í ágúst síðastliðnum að Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands sendu ráðuneytinu álit á hugmyndum sem fram höfðu komið um friðlýsingu Gjástykkis, þar á meðal frá Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi. Í áliti Náttúrufræðistofnunar kemur meðal annars fram að Gjástykki sé hluti af eldstöðvakerfi Kröflu sem hafi verndargildi á heimsmælikvarða sem kennslubókardæmi um megineldstöð í rekbelti. Í úttekt stofnunarinnar á verndargildi háhitasvæða á Íslandi segir meðal annars að Leirhnjúkur og Gjástykki skuli njóta hámarks verndar vegna sérstöðu þeirra. Í áliti Umhverfisstofnunar kemur fram að svæðið hafi hátt verndargildi og sé einstakt þegar kemur að náttúruupplifun og tækifærum til fræðslu varðandi landrek og eldgos.

Á grundvelli þessara álita og ótvíræðs verndargildis svæðisins ákvað umhverfisráðherra að undirbúningur yrði hafinn að friðlýsingu Gjástykkis samkvæmt náttúruverndarlögum. Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun verður nú falið að gera formlega tillögu að friðlýsingunni að höfðu samráði við sveitarstjórnir og landeigendur.

Sjá álit Náttúrufræðistofnunar hér að neðan:

Friðlýsing, Gjástykki Þingeyjarsýsla

Vísað er til bréfs frá umhverfisráðuneytinu, dags 17. ágúst sl., þar sem óskað er eftir áliti Náttúrufræðistofnunar Íslands á tillögu SUNN um friðlýsingu á Gjástykki. Einnig er vísað til svarbréfs Náttúrufræðistofnunar Íslands, dags 20. ágúst sl., þar sem bent var á fyrirliggjandi álit stofnunarinnar um verndargildi Gjástykkis, sjá meðfylgjandi bréf stofnunarinnar tl Umhverfisstofnunar dags. 12. janúar sl., og vinnu Náttúrufræðistofnunar að verkefninu \342\200\236Verndargildi háhitasvæða\342\200\234 á vegum Rammaáætlunar.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur nú lokið vinnu við verkefnið \342\200\236Verndaráætlun háhitasvæða\342\200\234 og hefur afhent ráðuneytinu fjórar skýrslur um niðurstöður þess. Vísar stofnunin til þeirra hvað varðar yfirlit um náttúrufar í Gjástykki og mat á verndargildi þess, en þar kemur m.a. frma að Náttúrufræðistofnun telur ástæðu til að Leiruhnjúkar og Gjástykki skuli njóta hámarks verndar vegna sérstöðu þeirra.

Heild, stærð og upprunaleiki jarðminja getur skipt miklu máli ef vernda á sýnileika og samspil ólíkra þátta í jarðsögunni svo lesa megi hana úr landinu. Náttúrufræðistofnun vill vekja athygli á því að svæðið frá Leirhnjúk norður um Gjástykki í Kelduhverfi myndar ákveðna jarðfræðilega heild, þ.e. ummerki Kröfluelda (1975-1984). Þar má skoða gliðnun í sigdæld með sprungum og misgengjum ásamt hraunum og gosstöðvum. Til þess að varðveita þessa heild þarf að lágmarki að friða öll hraun sem runni í Kröflueldum, allt frá Leirhnjúki norður fyrir Hrútafjöll, ásamt sprungum og misgengjum sem afmarka sigdalinn. Á meðfylgjandi korti er sýnt það svæði sem Náttúrufræðistofnun telur að þurfi að friða að lágamarki. Í þessu sambandi vísast einnig til meðfygjandi korts Kristjáns Sæmundssonar (1991, mynd 1-28). Innan þessa svæðis er náttúruundrið Hvannstóð, tveri samvaxnir sprengigígjar sem mynduðust fyrir um 5000 árum. Inn í þá hefur runnið hraun í Mývatnseldum og eftir að það var hálfstorknað hefur runnið undan því þannig að eftir standa göng og hellar með súlum á milli. Þetta minnir á Dimmuborgir en er smærra að sniðum og mun heillegra. Í Kröflueldum rann einnig hrauntaumur inn Hvannastóð. Náttúrufræðistofnun vill benda á að yfirborð hrauna og annarra gosminja frá Kröflueldum er afar viðkvæmt fyrir raski og því er mikilvægt að stýra umferð ferðamanna með afmörkuðum gönguleiðum. Auk þess svæðis sem Náttúrufræðistofnun telur að þurfi að friða að lágmarki væri óskandi að..

Hér er hægt að nálgast álit Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar á hugmyndum um friðlýsingu Gjástykkis.

Mynd: Á ferð við Gjástykki, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra á ferð við Gjástykki haustið 2009 með Magnúsi Jóhannessyni, ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins, Árna Einarssyni, forstöðumanni Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og Bergþóru Kristjánsdóttur, starfsmanni Umhverfisstofnunar við Mývatn.
Birt:
9. mars 2010
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Friðlýsing Gjástykkis undirbúin“, Náttúran.is: 9. mars 2010 URL: http://nature.is/d/2010/03/09/friolysing-gjastykkis-undirbuin/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: