Evrópusambandið og umhverfismálin
Löggjöf Evrópusambandsins hefur átt stóran þátt í því að flýta fyrir framförum á ýmsum sviðum umhverfismála hér á landi. Megnið af löggjöf Evrópusambandsins á sviði umhverfismála hefur verið tekið upp í íslenska löggjöf vegna EES samningsins og ýmis íslensk lög á þessu sviði eru nær einvörðungu byggð á reglugerðum og tilskipunum Evrópusambandsins. Má þar m.a. nefna lög um mengunarvarnir, lög um sorphirðu, lög um fráveitur, lög um mat á umhverfisáhrifum og lög um meðhöndlun úrgangs. Sum þessara laga eru meðal helstu framfaraskrefa sem Íslendingar hafa stigið á sviði umhverfismála.
Unnið að veigamiklum málum
Með aðild að EES-samningnum er Ísland í raun aðili að sameiginlegri stefnumörkun Evrópusambandsins á sviði umhverfismála, að náttúruvernd undanskilinni. Það skiptir þess vegna miklu máli að íslensk stjórnvöld taki sem virkastan þátt í mótun löggjafar Evrópusambandsins á þessu sviði. Mörg veigamikil verkefni á sviði umhverfismála sem nú eru í undirbúningi eða hefur þegar verið lokið hjá ESB munu senn verða tekin inn í löggjöf hér á landi. Má t.d. nefna tilskipanir um verslun með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, um rammalöggjöf um vatnsvernd og tilskipun um efni- og efnavörur. Öll þessi mál munu hafa víðtæk áhrif hér á landi og treysta stoðir samfélagsins þegar til lengri tíma er litið.
Loftslag, vatn og efnavörur
Ísland vinnur nú að því að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir, sem felur í sér að þak verður sett á losun gróðurhúsalofttegunda frá tilteknum geirum iðnaðar og að heimildir til losunar verða með tímanum settar á opið uppboð þannig að fyrirtæki þurfi að greiða fyrir losun sína. Tilskipunin hefur takmörkuð áhrif hér á landi til að byrja með en losun gróðurhúsalofttegunda frá flugstarfsemi mun falla undir tilskipunina frá og með janúar 2012. En nái nýjar tillögur framkvæmdastjórnar ESB fram að ganga mun áliðnaður, framleiðsla járnblendis o.fl. einnig falla undir hana frá og með árinu 2013. Markmið tilskipunarinnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu á sem hagkvæmastan hátt.
Á liðnu ári samþykkti Alþingi lög til að innleiða REACH, reglugerð Evrópusambandsins um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir efna. Hinum nýju lögum er ætlað að tryggja að meðferð á efnum og efnablöndum valdi ekki tjóni á heilsu eða umhverfi og að sjá til þess að ný efni séu skráð og möguleg skaðsemi þeirra metin áður en þau koma á markað.
Vatnatilskipun ESB setur lagaramma um vernd yfirborðsvatns, grunnvatns og strandsjávar, með það að markmiði að bæta vatnsgæði og ástand vistkerfa. Tilskipunin kveður m.a. á um að draga skuli úr eða stöðva losun hættulegra efna til þess að bæta ástand vatns og sjávar. Mikil vinna hefur verið lögð í að fara yfir efni tilskipunarinnar og undirbúa lögleiðingu hennar hér á landi. Með innleiðingu vatnatilskipunarinnar þarf m.a. að bæta vöktun á ástandi og gæðum vatns.
Náin tengsl við ESB
Fleiri veigamikil umhverfismál eru nú í deiglunni hjá ESB. Meðal annars er unnið að gerð og breytingu reglna um málefni hafsins, úrgang, ósoneyðandi efni, vernd jarðvegs og umhverfisábyrgð. Í þessu ljósi þarf enginn að efast um að vægi umhverfismála í EES samstarfinu mun vaxa á næstu árum. Íslendingar hafa notið þess að Evrópusambandið hefur verið í fararbroddi í umhverfismálum í heiminum á undanförnum árum. Það er mikilvægt að hafa í huga nú þegar samskipti okkar og tengsl við Evrópusambandið eru svo mjög í umræðunni.
Birt:
Tilvitnun:
Þórunn Sveinbjarnardóttir „Evrópusambandið og umhverfismálin“, Náttúran.is: 10. janúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/09/evropusambandio-og-umhverfismalin/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. janúar 2009
breytt: 10. janúar 2009