Bláa tunnan sem Reykjavíkurborg hefur boðið upp á undir dagblöð, auglýsingapóst og tímarit ný tist frá 1. febrúar einnig undir fernur, umbúðapappír, prentpappír, sléttan pappa og karton. Nú má setja það sama í bláar tunnur og bláa grenndargáma. Sjá hvar bláa grenndargáma er að finna á höfuðborgarsvæðinu.

Reykjavíkurborg býður upp á tvær tunnur fyrir almennt sorp. Svarta sem losuð er vikulega, græna sem losuð er hálfsmánaðarlega. Bláa tunnan er hins vegar undir endurvinnanlegan pappa og pappír og er losuð er á þriggja vikna fresti.

Þessi breyting er í samræmi við breytinguna á grenndargámum á Höfuðborgarsvæðinu og má nú setja það sama í bláu tunnurnar og bláu gámana sem er að finna má á 80 stöðum, t.d. eggjabakka og pakkningar utan af matvælum.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar bendir á að bláa tunnan sé leið til sparnaðar og betri flokkunar fyrir heimili og samfélag í formi endurvinnslu. Nefna má sem dæmi að íbúar í fjölbýlishúsi með þremur íbúðum greiða samtals 48.900 kr. á ári ef þar eru þrjár svartar tunnur en 40.000 kr. fyrir tvær svartar og eina bláa. Gjald fyrir bláa tunnu er 7.400 kr. á ári, 16.300 fyrir svarta og 8.150 fyrir græna. Sorphirðugjöldum er skipt á íbúa eftir hlutfallstölu eignarhluta.
Birt:
24. janúar 2009
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Bláa tunnan í Reykjavík nýtist betur “, Náttúran.is: 24. janúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/24/blaa-tunnan-i-reykjavik-nytist-betur/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: