Birki er ekki notað til matar en það er frábær tejurt. Birkinu á að safna snemma eða fyrir Jónsmessu. Límkenndu litlu blöðin þykja best í te. Á þessu stigi er þó erfitt að tína laufin. Auðveldast er að finna birkikjarr sem þarf að grisja, klippa greinar og koma þeim fyrir inni á gestarúmi eða uppi í sumarbústað, þar sem þær mega þorna í friði. Strjúka svo blöðin af greinunum niður á lak þegar maður á næst leið um og þau eru orðin þurr. Þegar birkigreinar eru notaðar til að hýða sig með í gufubaði til að auka hreinsunarmátt gufunnar og opna húðina, þá er talið að birkið gefi frá sér heilnæmar og sótthreinsandi gufur. Birki á að hreinsa blóðið og vera góð vörn gegn gigtarsjúkdómum.

Brenninetla er helst notuð til matar á vorin þegar laufin eru ung. Það þarf að hlúa svolítið að henni til þess að hún vaxi en þó er hún ekki farin að gera sig það heimakomna að hún breiði verulega úr sér. "Af netlu má fá hör, og það hefi ég reynt á netlu þeirri, sem ég hef fengið hingað úr Steingrímsfirði," segir Björn í Grasnytjum. Hann segir brenninetlu einnig vaxa í Flatey á Breiðafirði. Ég fékk mína netlu frá Vallanesi á Fljótsdalshéraði. Þó Björn orði það eins og hann hafi spunnið netluna sjálfur finnst mér einsýnt að það hafi Rannveig kona hans gert en hún var mikilhæf hannyrðakona.

Netludúkar þykja fágæti og netla var notuð líkt og hör. Á stríðsárunum voru gerðar töluverðar tilraunir með ræktun netlu í Danmörku með spuna í huga. Því miður mun það hafa fallið niður eftir að markaðir opnuðust aftur og ódýrara vefjarefni varð aðgengilegt á ný . Björn bendir á að líka megi nota netlu til pappírsgerðar. Í te er brenninetla afbragð og þykir mjög blóðhreinsandi og góð fyrir nýrun. Það má skera ofan af henni til að fá ný blöð fram eftir sumri en mér finnst ég hafa heyrt að það megi ekki ganga of nærri henni. Stundum verði hún að fá að þroska fræ, eða að minnsta kosti hluti hennar, en hún vex í breiðum.
Netlu er auðvelt að þurrka annaðhvort flata eða hengja stilkana upp í litlum búntum. En ekki bíða of lengi fram eftir vorinu með það, því þá verður hún grófgerðari. Stilkarnir eru stinnir og þægilegt að hafa þá með mýkri jurtum, þegar verið er að kurla fyrir safnhauginn.

Brenninetlusúpa

Ung blöð af brenninetlu má nota í stöppur og súpur. Sé gerð súpa eru blöðin söxuð fínt, sett út í grænmetis- eða kjötsoð og soðin í nokkrar mínútur. Súpuna þarf ekki að þykkja fremur en aðrar soðsúpur. Úðun gegn lús og öðrum kvikindum
Til að sporna við blaðlús og öðrum smáum skorkvikindum, sem sjúga næringu úr plöntum, er mælt með því að hella sjóðandi vatni á brenninetlu í hlutfallinu 1:10 (sumir segja 1 bolla af netlu í 4 lítra af vatni) og láta standa minnst 5 daga eða upp undir mánuð. Af leginum kemur megn fýla og þarf að hræra í daglega. Sþktu plönturnar eru síðan úðaðar með honum en líka gagnast hann til að vökva með plöntur vegna kísilsambanda netlunnar sem nota má ferska eða þurrkaða. Stafar mismunurinn á magninu líklega af því en meira þarf ævinlega af ferskum jurtum.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Grafík: Brenninetla, Hildur Hákonardóttir.

 

Birt:
6. maí 2014
Uppruni:

Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Birki og Brenninetla“, Náttúran.is: 6. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/06/birki-brenninetla/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. nóvember 2007
breytt: 12. maí 2014

Skilaboð: