Kvikasilfur
Kvikasilfur (Hg) er eitt af hættulegustu eiturefnunum í umhverfinu þar sem það eyðist aldrei úr náttúrunni. Bakteríur eða örverur í jarðvegi eða vatni geta breytt kvikasilfri í enn hættulegri efnasamband, metyl–kvikasilfur sem er bæði lífrænt og þrávirkt og safnast þar af leiðandi í fituvef dýra eftir því sem ofar dregur í næringarkeðjunni. Hafi kvikasilfur einu sinni komist í náttúruna er það hættulegt mönnum og dýrum um langa framtíð Kvikasilfur er rokgjarnt og getur ferðast yfir stór svæði með loftstraumum. Kvikasilfur virðir því engin landamæri. Að það er rokgjarnt þýðir að það gufar upp á heitari landsvæðum og berst með loftstraumum til kaldari landsvæða þar sem það rignir niður með úrkomu. Það þýðir að kvikasilfrið berst frá miðbaug til t.d norðurlandanna og Íslands. Fyrir Íslendinga er því mikilvægt að hvorki vörur innihaldi né séu framleiddar með framleiðsluferlum sem innihalda kvikasilfur.
Heilsuáhrif
Kvikasilfur getur verið bæði lífrænt og ólífrænt. Hreint kvikasilfur er ólífrænt. Þekktasta lífræna formið er metyl-kvikasilfur. Ólífrænt kvikasilfur getur valdið persónuleikatruflunum sem lýsa sér í óróleika, svefntruflunum, þunglyndi, erfiðleikum að einbeita sér og skaðað ný run. Persónuleikatruflanirnar geta gengið til baka sé fólk ekki útsatt fyrir ólífrænu kvikasilfri. Ólífrænt kvikasilfur getur einnig valdið húðexemi Lífrænt kvikasilfur getur safnast saman í fituvef og hefur önnur, langvarandi áhrif og jafnvel dregið fólk til dauða. Það getur haft áhrif á miðtaugakerfið, sjón og heyrn, veikt ónæmiskerfi líkamans og haft áhrif á frjósemi dýra og manna. Fleiri rannsóknir sýna að kvikasilfur hefur neikvæð áhrif á þroska barna og fóstra (hér á ég ekki við starfstéttina fóstrur heldur ófætt börn). Þetta getur lýst sér í seinum málþroska, einbeitingarerfiðleikum, minnisleysi með meiru. Á norðurlöndunum er til dæmis óléttum konum eða konum með barn á brjósti ráðlagt að ekki borða feitan fisk vegna hættu á að þeir innihaldi kvikasilfur og önnur eiturefni. Heilbrigðu fólki er ráðlagt að borða feitan fisk ekki oftar en einu sinni í viku. Það eru þekkt tvö mjög alvarleg slys þar sem fjöldi fólks hefur látist vegna neyslu matar sem innihélt metyl-kvikasilfur. Annað var í Minimata í Japan á sjötta áratugnum þar sem fólk hafði borðað kvikasilfurmengaðan fisk. Hitt var í byrjun áttunda áratugarins þegar yfir 10 000 manns urðu alvarlega veik af að borða brauð sem var bakað úr korni sem hafði verið sprautað með eiturefni sem innihélt metyl-kvikasilfur. Fleiri þúsund dóu.
Viðmiðunarmörk
FAO/WHO hefur sagt að hæsta ráðlaga magn metyl-kvikasilfurs sé 3,3 µg* /kg líkamsþyngd á viku. Þetta er byggt á áhrifum á fullorðið fólk og kemur að öllum líkindum til með að lækka. Samsvarandi viðmið hjá Umhverfisstofnun Bandaríkjanna (EPA) er 0,1 µg/kg líkamsþyngd á dag og er þar reynt að taka tillit til hugsanlegra áhrifa á fóstur. Sum Norðurlandanna hafa sett sér sem markmið að hætta allri notkun kvikasilfurs í samfélaginu. Kvikasilfur í samfélaginu Kvikasilfur getur fundist í fjölda vara sem við notum daglega eins og í straumbreytum, rafmagnstenglum, ljósaperum, rafhlöðum, klukkum, myndavélum og heyrnartækjum. Einnig er það að finna í ýmsum gömlum tækjum og tólum, vatnslásum í vöskum osfrv. Kvikasilfur er einnig mjög algengt í tannfyllingum (amalgam) Vissar orkusparandi ljósaperur innihalda kvikasilfur. Það hefur hins vegar verið talið að hingað til að hin jákvæðu umhverfisáhrif vegna orkusparnaðar séu meiri en umhverfisálagið vegna kvikasilfursins.
* µg er míkrógramm
Birt:
Tilvitnun:
NA „Kvikasilfur“, Náttúran.is: 28. mars 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/28// [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. apríl 2007