Grein sem birtist í tímaritinu Útiveru nr.5, 4. árgang, 2006:

Ég var áþreifanlegar vör við þörf mína fyrir „íslensku lyktina“ þegar að ég bjó erlendis.
Í fríum hér heima undirbjó ég heimförina aftur út, með því að pakka vænum poka af mosa og steinum í ferðatöskuna, smá sýnishorn af ættjörðina skyldi fylgja mér út. Í eldhúsinu mínu hafði ég síðan „litla Ísland“ í körfu, sem ég þefaði upp úr þegar þörf var á.

Dvalarár mín erlendis einkenndust þó ekki af neinni heimýrá í klassískum skilningi, ég vildi vera þar sem ég var í það og það skiptið. Aftur á móti var íslenskt landslag og flóra alltaf með mér innst í sálu minni, stolt mitt átti rætur sínar að rekja til landsins sem ég fæddist í og til fjallanna og fjarlægðanna sem voru eins og kóróna á höfði mér allt frá barnæsku.

Á Íslandi er maður alltaf nafli alheimsins, það gerir víðáttan, hún skapar ekki aðeins rými heldur staðsetur mann í innsta punkti, á réttan stað í tilverunni. Á stað hins auðmjúka þjóns þess dýrlega afls sem umkringir mann. Maður sér svo langt og svo mikið að það er ekki hægt annað en falla fram í lotningu. Árin mín erlendis telja átján, fór út um tvítugt í framhaldsnám. En að lokum var það þráin eftir lyktinni af mosanum, fjöllin og íslensk náttúra sem varð öllu öðru yfirsterkari. Og að sjálfsögðu innbyggð þörf til að leyfa börnunum mínum að verða íslendingar líka.

Eftir heimkomuna árið 2000 fór ég oft með börnin í sumarbústað foreldra minna í Öndverðarnesi, marga daga í senn. Þar fann ég ró og tengingu við landið og gróðurinn sem þróaðist í það að verða ástarsamband við villtu plöntuflóruna okkar. Um þetta leiti var ég að vinna að myndskreytingum bókar um furðudýr í þjóðsögunum (Furðudýr í íslenskum þjóðsögum) og þurfti því að skoða vel í kringum mig og setja mig inn í náttúruna, skipulega og með vísindalegri athygli. Ég ásetti mér einnig að læra það sem ég gat um jurtirnar sem vaxa í nágrenni bústaðarins, því mér fannst ég ekkert vita og ég þoldi ekki þessa fáfræði því ég sá í plöntunum álíka stórkostleika og ég sé í börnunum mínum. Nýtt laufblað og ný útsprungið blóm er þvílíkt undur og minnir á húðina á ný fæddu barni, hárugt, mjúkt, hálfgagnsætt og síbreytilegt.

Ég byrjaði stefnumót mitt við plöntuheiminn á því að tína, þurrka og greina og fór svo að viða að mér lesefni. Á öðru sumri hér heima rogaðist ég með bunka af bókum í hverja sumarbústaðaferð til að fá einhvern botn í þetta flókna viðfangsefni. Ég fór að taka eftir því að vissar jurtir áttu sér bólstað í hjarta mínu, ég fann sting eins og þegar maður er skotin í einhverjum, eða það fór um mig hlýja og mér fannst ég þurfa að tala við plöntuna eða strjúka henni. Því meir sem ég las og uppgötvaði, því merkilegra fannst mér þetta allt saman vera og virðing mín fyrir lífinu og tilverunni jókst dag frá degi.

Samband manns við náttúruna hefur alltaf verið órjúfanlegt. Maðurinn náði þroska með því að lesa í það hvernig náttúran hagar sér, sem aftur þjálfaði heilann smátt og smátt til að draga ályktanir og læra af reynslunni. Það aftur gerði heilann að því ólíkindatóli sem hann er í dag. Heili okkar er því mótaður af náttúrulögmálum í bak og fyrir og býr í raun ekki yfir miklum möguleikum umfram þá sem mótaði hann, þ.e. umhverfinu í þess víðasta skilningi.
Við hljótum því að búa yfir djúpri tengingu við allt líf og hafa skilning á náttúrunnar virkni langt umfram það sem að við gerum okkur meðvitaða grein fyrir. Náttúran togar í okkur á mismunandi hátt meðvitað og ómeðvitað, eilíf spenna heldur öllu saman.

Einhver staðar heyrði ég að í kringum okkur vaxi þær jurtir sem að við þurfum á að halda. Eins og til að koma á jafnvægi þar sem því er ábótavant. Mig rak í rogastans er ég heyrði þetta í fyrst sinn því mín reynsla er einmitt sú að það togar í mann, sem maður þarf á að halda.

Eitt sumarið varð ég sólgin í hvönnina [Angelica archangelica] sem vex allt í kringum bústaðinn, ég bjó til seyði og sauð í mat og gerði allar mögulegar tilraunir með hvannarstöngla, fræ og rætur. Seinna komst ég svo að því að hvönn virki vel gegn bronkítis og alls kyns öndunarörðugleikum. Ég hef oft astmakenndan hósta og á það til að fá hóstaköst, var það tilviljun að ég var sólgin í hvönnina?

Svo ég fór að skoða hvort að þetta gæti átt við rök að styðjast í mínu tilfelli. Hvönnin var þarna á undan mér. Aftur á móti hefur fjölskylda mín átt þetta land kynslóð fram af kynslóð, langafi minn og amma keyptu það á stríðsárunum til að eiga athvarf í. Ætli þau hafi líka verið með astma og þess vegna keypt þetta land? Leyfðu þau hvönnina kannski að vera eða komu henni jafnvel til þess vegna. Eða býr í erfðaefnum mínum minning um hvönn, frá forfeðrum og formæðrum, langt aftur í aldir.

Önnur jurt sem tælir mig til sín er mjaðurt [Filipendula ulmaria], hún vex líka við sumarbústaðinn. Í mjaðurt er náttúrulegt magný l og hún er góð gegn magakveisu og lyktar yndislega, enda notuð frá öndverðu til að fá gott loft í hús og lina verki. Hver planta hefur ákveðna eiginleika sem getur jafnað út eða bætt úr ójafnvægi hjá okkur mönnunum og hafa verið notaðar frá aldaöðli, löngu áður en hægt var að sanna „vísindalega“ að þær virki. Fjalldalafífill [Geum rivale] er hávaxinn og drúpir höfði eins og sorgmædd rauðlituð sóley. Af honum gerði ég te sem gerði mér gott, enda er hann einnig góður gegn þrálátu kvefi.

Í framhaldi af grúski mínu ákvað ég að taka saman allt það mynd- og textaefni sem fyrirfinnst og safna meiru til, í gagnagrunn eða „Grasaskjóðu“ sem allir hafa aðgang að á netinu. Efnið verður bráðlega aðgengilegt á vefnum náttúran.is. Ég er sannfærð um að það sem maður sjálfur finnur og safnar geri manni gott, af þeirri einföldu ástæðu að eitthvað leiddi mann og plöntu saman og með því að treysta á eigið innsæi og innbyrða plöntuna í einhverju formi fer fram athöfn sem tengir mann við náttúruna á upprunalegan og eðlilegan hátt.

Fallegustu elllidagar sem ég get hugsað mér væru að búa úti í sveit, helst í moldarkofa (eða til að vera raunsæ, í einhverju þægilegra húsnæði) og tína, teikna og mála jurtir, umkringd hinu fullkomnasta fjöllistaverki sem til er, náttúrunni.

Myndin er af Guðrúnu Tryggvadóttur í þjóðgarðinum í suðurhlíðum undir Snæfellsjökli 2005. Ljósmynd: Einar Bergmundur.

Birt:
30. júní 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sjónarhorn Guðrúnar Tryggvadóttur “, Náttúran.is: 30. júní 2006 URL: http://nature.is/d/2007/05/01/sjnarhorn-gurnar-tryggadttur/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 1. maí 2007
breytt: 16. júlí 2008

Skilaboð: