Teljós Nú fer í hönd mikil kertatíð. En ef manni er annt um komandi kynslóðir er ekki alveg sama hvernig kerti maður kaupir. Uppruni kertanna er nefnilega ærið misjafn.

Almennt talað er um tvo valkosti að ræða varðandi hráefni til kertaframleiðslu, annars vegar hráolíuafurðir og hins vegar afurðir úr (nýlegri) dýra- og plöntufitu. Líklega er parafín langalgengasta hráefnið. Það telst alls ekki umhverfisvænt, enda í sama flokki og aðrar olíuafurðir, með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda, eyðingu óendurnýjanlegra auðlinda o.s.frv. Kerti úr hinum flokknum eru almennt mun ákjósanlegri frá umhverfislegu sjónarmiði, þó að uppruninn sé vissulega misjafn. Þar er algengasta hráefnið væntanlega stearín, sem er blanda af stearínsýru og palmitínsýru. Einnig er sojavax notað í einhverjum mæli, svo og býfluguvax, já og jafnvel tólg eða eitthvað enn annað.

Allur kertabruni getur haft einhver neikvæð áhrif á umhverfi og heilsu. Að olíutengdu atriðunum frátöldum (sjá framar), er þar einkum um að ræða áhrif á inniumhverfið, annars vegar vegna sótmengunar og hins vegar vegna aukaefna sem oft er að finna í kertum, einkum ilmefna og litarefna. Ilmefnin eru t.d. undantekningarlítið mögulegir ofnæmisvaldar.

Í lok ársins 2007 samþykkti Norræna umhverfismerkisnefndin (NMN) viðmiðunarreglur fyrir Svansmerkingu á kertum.Það þýðir að norrænir kertaframleiðendur geta sótt um að fá framleiðsluvörur sínar vottaðar með Norræna svaninum. Til þess að eiga möguleika á vottun þurfa a.m.k. 90% hráefnanna í kertin að vera endurnýjanleg, sem þýðir m.a. að kerti úr parafíni geta ekki fengið vottun. Ilmefni eru ekki leyfð í Svansmerktum kertum, þar sem þau geta verið ofnæmisvaldandi. Þá eru gerðar kröfur um hámarks sótmengun. Svonefnd teljós (oftast nefnd sprittkerti) geta fengið vottun ef þau uppfylla umrædd skilyrði, en þó því aðeins að þau séu seld án hulsturs. Þannig getur teljós í álbakka ekki fengið Svaninn. Áætlað hefur verið að ef allir sænskir neytendur myndu nota Svansmerkt kerti í stað þeirra sem þeir nota nú, myndi losun koltvísýrings minnka jafnmikið og ef 15.000 einkabílar væru teknir úr notkun!

Það sem af er hefur aðeins einn kertaframleiðandi fengið vottun Svansins, þ.e. Delsbo í Svíþjóð. Delsbo-kerti eru ekki fáanleg á Íslandi eftir því sem ég best veit. Engu að síður eiga íslenskir kertakaupendur ýmissra góða kosta völ, eins og rakið verður hér á eftir:

Besti kosturinn fyrir meðvitaða kertakaupendur er væntanlega að kaupa endurunnin kerti, t.d. frá Sólheimum í Grímsnesi eða Plastiðjunni Bjargi-Iðjulundi á Akureyri. Býst reyndar við að fleiri innlendir aðilar fáist við kertaframleiðslu úr kertaafgöngum. Einhverjir framleiða líka tólgarkerti. Þannig er hægt að fá útikerti úr tólg, bæði frá Bjarteyjarsandi í Hvalfirði og Stóruvöllum í Bárðardal, svo eitthvað sé nefnt.

Flest kerti í íslenskum verslunum eru sjálfsagt úr parafíni, „olíukerti“ sem sagt. Reyndar er sjaldnast hægt að fræðast neitt um uppruna og hráefni á kertaumbúðum. Mér er þó kunnugt um tvær góðar undantekningar frá parafínreglunni. Annars vegar veit ég að hjá Ditto eru framleidd og seld kerti úr sojavaxi. Svo komst ég líka að því um daginn, að í Rúmfatalagernum getur maður hvort sem er keypt teljós úr parafíni eða stearíni. Og þau eru meira að segja greinilega merkt og aðgreind! Þá velur maður náttúrulega stearínið.

Fyrst ég minnist aftur á teljósin, þá er auðvitað mikilvægt að koma álbökkunum undan þeim í endurvinnslu. Það þarf nefnilega 19 sinnum meiri orku til að framleiða eitthvað úr nýju áli en úr endurunni áli, auk þess sem gríðarlegt magn efna fer til spillis við frumvinnsluna. Og endurunna álið er alveg jafn gott. Málma er nefnilega hægt að endurvinna óendanlega oft án þess að gæðin rýrni! Annars eru teljósin reyndar bþsna góður valkostur, miðað við önnur kerti. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Grønn Hverdag í Noregi brenna þau nefnilega hægar en önnur kerti. Dæmigerð kerti í stjökum brenna hraðast, líklega um tvölfalt hraðar en kubbakerti. Samt brenna kubbakertin tvöfalt hraðar en teljósin.

Til að fara út í aðeins meiri smáatriði, þá skiptir kveikurinn í kertunum líka máli þegar rýnt er í umhverfisvænleika þeirra. Yfirleitt er kveikurinn úr bómull og erfitt að gefa einhverja forskrift að því hvaða kveikir séu bestir. Aðalatriðið er auðvitað að kveikurinn gefi eðlilegan loga og sem minnst sót. Áður fyrr voru stundum notaðir málmýræðir í kveiki til að halda þeim stífum. Held og vona að slíkt sé nokkurn veginn úr sögunni, því að málmýræðirnir auka væntanlega hin neikvæðu áhrif þessara fallegu ljósa á umhverfi og heilsu.

 

 

Birt:
2. desember 2014
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Kerti eru ekki bara kerti!“, Náttúran.is: 2. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2008/12/18/kerti-eru-ekki-bara-kerti/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 18. desember 2008
breytt: 2. desember 2014

Skilaboð: