Matarílát

Matarafgangar í ísskáp. Ljósmynd af lifeline.de.Sjálfsagt hefur eitthvað af matarafgöngum fallið til á heimilum landsmanna yfir jól og áramót. Og þó að sjálfsagt sé búið að sporðrenna þessu öllu núna, er ekki úr vegi að minna á mikilvægi þess að afangur breytist ekki í úrgang. Allt var þetta keypt fyrir peninga, og auðvitað nær það ekki nokkurri átt að fjórðungur eða þriðjungur allra þeirra matvæla sem koma inn á heimilin fari beint í ruslið.

Einhvern tímann benti ég á einfalda leið til að koma í veg fyrir að matvælum væri hent eftir að þau eru komin inn á heimilin. Það mætti t.d. gera með því að setja upp svonefndar fjórðapartstunnur í öllum matvöruverslunum, þar sem fólk gæti strax hent fjórða hverjum innkaupapoka með öllu því sem í honum er, áður en það ber hina þrjá pokana heim og nýtir innihald þeirra upp til agna. Ég viðurkenni reyndar að þessi lausn er ekki raunhæf, enda er henni eingöngu slegið fram til að benda á fáranleika þess að henda fjórðungi eða jafnvel þriðjungi af því sem maður kaupir, alveg ónotuðu. En þessi pistill fjallar ekki um fjórðapartstunnur, heldur um ílát fyrir afganga. Það skiptir nefnilega máli í hvernig ílátum afgangar eru geymdir. Við val á þessum ílátum þarf einkum að taka tillit til þriggja þátta, þ.e.a.s. gæða, heilsu og umhverfis. Í fyrsta lagi þurfa ílátin að vera þannig að afgangarnir haldi gæðum sínum sem lengst, í öðru lagi þarf að tryggja að engin skaðleg efni berist úr ílátunum í matinn og í þriðja lagi þarf að huga að umhverfisþættinum. Oft er sagt að hver sé sjálfum sér næstur, og því liggur beinast við að ræða fyrst um heilsufarsþáttinn. Regla númer 1 er þó frekar af umhverfislegum toga, þ.e.a.s. að nota alltaf margnota umbúðir frekar en einnota, sé þess nokkur kostur.

Hvað heilsuna varðar, er mikilvægasta reglan líklega sú að nota bara ílát sem eru ætluð fyrir matvæli. Þessi ílát eru yfirleitt auðkennd með litlu merki sem sýnir glas og gaffal hlið við hlið, eða þá með áletrun sem gefur skýrt til kynna að umbúðirnar séu öruggar til þessara nota. En jafnvel slík ílát á ekki nota hvernig sem er. Til dæmis ætti ekki setja plastílát í örbylgjuofninn, nema þau séu merkt sem „örugg í örbylgjuofna“. Þetta er stundum gefið til kynna með mynd af diski og bylgjum. Á sama hátt ætti ekki að setja heit matvæli eða drykki í plastumbúðir, nema þær sem eru ætlaðar fyrir heita vöru. Hitinn getur nefnilega leyst úr læðingi efni sem annars eru bundin í plastinu.

Oft er hægt að endurnýta plastumbúðir utan af matvörum, þó að þær séu framleiddar sem einnota umbúðir. Þar ætti meginreglan að vera sú að nota umbúðirnar eingöngu utan um svipaða vöru og þær voru upphaflega gerðar fyrir. Framleiðendur verða nefnilega að sjá til þess að umbúðirnar séu öruggar fyrir matvælin sem í þeim eru. Það tryggir hins vegar ekki að þær séu öruggar fyrir aðrar vörur með annað efnainnihald, annað sýrustig o.s.frv. Skyrdós verður að vera örugg fyrir skyr, en það er ekki sjálfgefið að hún henti jafnvel t.d. fyrir matarolíu, ávaxtasafa eða heitt kaffi.

Ef við þurfum af einhverjum ástæðum að setja matarafganga í plastílát sem eru ekki kyrfilega merkt sem „örugg fyrir matvæli“, þá ættum við að leita að plastmerkingum á ílátinu. Öll plastílát eiga að vera merkt með tiltekinni tölu á bilinu 1-7 innan í þar til gerðum þríhyrningi*. Ef ætlunin er að nota plastið utan um matarafganga, ætti helst að nota plast sem er merkt með 1, 2, 4 eða 5, þ.e.a.s. pólýetýlen- eða polýprópýlenplast, en ekki ómerkt plast eða plast með númerin 3, 6 eða 7, þ.e.a.s. PVC, pólýstýren og aðrar plasttegundir. Síðarnefndu flokkarnir geta svo sem verið í góðu lagi í sumum tilvikum, en það á ekki endilega við ef matvælin eru heit, feit eða súr. Þá skiptir líka máli hvort umbúðirnar komist í beina snertingu við matvælin.

Plastfilmur eru einnota og því alla jafna ekki ákjósanlegar frá umhverfislegu sjónarmiði. Ef við viljum samt nota plastfilmu utan um afgangana, þá ættum við að hafa það fyrir reglu að láta filmuna aldrei komast í beina snertingu við matinn. Þetta á sérstaklega við um PVC-filmu, þ.e.a.s. filmu með plastnúmer 3. Svoleiðis filma inniheldur mjög líklega mýkingarefni sem geta verið skaðleg fyrir heilsuna. Bein snerting við matvælin er þá sérstaklega varasöm þegar um er að ræða feitan mat, t.d. ost eða laxaflök svo dæmi séu tekin, því að mýkingarefnin leysast best upp í fitu. Plastfilma af hvaða tagi sem er getur hins vegar hentað vel sem bráðabirgðalok á skálar með matarafgöngum, að því gefnu að afgangarnir og filman snertist ekki. Þegar maður kaupir plastfilmu er gott ráð að kaupa frekar filmu úr polýetýleni en PVC, þ.e.a.s. filmu með plastnúmer 4 en ekki 3. Þetta gildir jafnt, hvort sem maður er að hugsa um umhverfið eða heilsuna. Í matvöruversluninni sem ég heimsæki oftast fæst reyndar engin PVC-filma, þannig að líklega er ég bara í góðum málum hvað þetta varðar.

Plastílát eru ekki einu margnota ílátin sem koma til greina þegar geyma á afganga. Það má til dæmis ganga út frá því að matarföt úr gleri eða postulíni séu örugg til þessara nota í öllum tilvikum. Þar þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af efnum sem gætu lekið út í matvælin, hvort sem þau eru feit, heit, sæt eða súr, með þeim fyrirvara að glerílát eiga það til að  springa ef þau hitna mjög snögglega. Almennt henta ílát úr gleri eða postulíni því betur fyrir afgangana en plastílát. Þess konar umbúðir ættu líka að þola vel að vera settar í örbylgjuofninn. Tómar niðursuðudósir ætti hins vegar aldrei að endurnýta undir matvæli, hvorki við geymslu né matseld!

Við þetta allt má svo bæta að innkaupapokar og sorppokar henta ekki sem matarílát og að aldrei ætti að nota mjúk eða lituð plastílát undir feitan eða heitan mat. Þá má líka nefna að álpappír hentar í sjálfu sér ágætlega utan um afganga, en þó alls ekki ef um er að ræða súran mat, t.d. súrmat eða sítrónur. Sýran veldur nefnilega tæringu í álinu með tilheyrandi mengun viðkomandi matvæla.

Ef ég reyni nú að draga saman 10 helstu heilræðin úr þessum pistli um ílát fyrir matarafganga, þá gæti listinn hljómað einhvern veginn svona:

  1. Notum margnota umbúðir frekar en einnota.
  2. Notum bara umbúðir sem eru ætlaðar fyrir matvæli.
  3. Setjum ekki plastílát í örbylgjuofninn nema þau séu til þess ætluð.
  4. Endurnýtum matarumbúðir bara fyrir svipaða vöru og var í þeim upphaflega.
  5. Notum ílát úr plasti nr. 1, 2, 4 eða 5, en ekki 3, 6 eða 7.
  6. Notum polýetýlenfilmu frekar en PVC-filmu.
  7. Látum ekki plastfilmu snerta feit matvæli, sérstaklega ekki PVC-filmu.
  8. Notum frekar ílát úr gleri eða postulíni en plastílát.
  9. Endurnýtum aldrei tómar niðursuðudósir undir matvæli.
  10. Pökkum súrum mat ekki inn í álpappír.

Sjá nánar um plastmerkingarnar hér.

Birt:
15. janúar 2015
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Geymsla matvæla - frágangur mataríláta“, Náttúran.is: 15. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2014/01/10/geymsla-matvaela-fragangur-matarilata/ [Skoðað:5. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 10. janúar 2014
breytt: 15. janúar 2015

Skilaboð: