Ljósmynd: Flugeld skotið upp, Guðrún A. Tryggvadóttir.Nafn hans er stytting úr þrettándi dagur jóla 6. janúar. Eins og áður er um getið var hann talinn fæðingardagur Jesú á undan 25. desember. En þegar sú tign var af honum tekin, hlaut hann í staðinn virðingarheitið ephiphania, sem merkir opinberun, og var þá svo látið heita, að Kristur hefði á þeim degi opinberast með þreföldum hætti hér á jörðu: tilbeiðslu vitringanna, skírninni í Jórdan og brúðkaupinu í Kana. Fyrsta opinberunin hefur einkum verið talin honum til gildis, enda heitir hann á sumum málum dagur hinna þriggja heilögu konunga. Hallgrímur Pétursson kveður svo: Opinberunarhátíð heitir þrettándi þá komu vitringar úr austurlandi.

Þrettándanóttin hefur líka átt sér heitið draumnóttin mikla, því að þá átti Austurvegskonunga að hafa dreymt fyrir fæðingu Jesú. Þá hefur það sannanlega veirð til sumstaðar á landinu a.m.k. að kalla þrettándann gömlu jólin eða jólanóttina gömlu. Ekki er ljóst, hvort þarna liggja að baki einhver munnmæli um, að hannhefði verið jóladagur á undan 25. desember, en það mætti furðulegt heita. Hitt kann vera, að þegar allt tímatalið færðist til um 1 daga við breytingun aúr gamla í nýja stíl árið 1700, þá hafi sumt fólk átt bágt með að botna í þeirri röskun og þrettándinn fengið þetta nafn, þótt þar skakki 1-2 dögum, sem er heldur lítilvægt, þegar menn hafa ekki dagatal hangandi uppi á vegg hjá sér.

Hvað þjóðtrú varðar, má segja að allt hið sama geti gilt um þrettándanótt og áður var sagt um nýársnótt. Þó er það allt í minna mæli. Ennfremur komu þrettándabrennur stundum í stað áramótabrennu, en það var einkum ef ekki viðraði nógu vel á gamlárskvöld. Þar sem þrettándinn var síðasti dagur jólanna, var oftast nokkuð um dýrðir á honum, vel haldið til í mat og drykk og mikið spilað. Var það stundum kallað að rota jólin. Og nú er hringur ársins fullur og byrjar nýja veltu.


    Tengdir viðburðir

  • Þrettándi dagur jóla

    Staðsetning
    Óstaðsett
    Hefst
    Þriðjudagur 06. janúar 2015 00:00
    Lýkur
    Miðvikudagur 07. janúar 2015 00:00
Birt:
6. janúar 2015
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Þrettándinn“, Náttúran.is: 6. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/rettndinn/ [Skoðað:5. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 6. janúar 2015

Skilaboð: