Grænt Íslandskort en samvinnuverkefni Náttúran.is og alþjóðlega verkefnisins Green Map® System og Land- og ferðamálafræðistofu Háskóla Íslands. Græna Íslandskortið byggist á flokkunarkerfi Green Map og umfangsmikilli forvinnu Náttúran.is við skráningar aðila á Grænar síður™ en verkefnið snýst um að finna og kortleggja vistæna kosti í viðskiptum og ferðamennsku á Íslandi. Kortið birtist á íslensku á Náttúran.is, á ensku á Nature.is og á þýsku á Natur.is í samhengi við það gríðarlega magn af umhverfisupplýsingum, vottunartengingum og efnisgreinum sem tengjast viðkomandi á einn eða annan hátt. Um 3.000 skráningar eru nú þegar á kortinu undir 100 skilgreindum flokkum. Fyrsta prentútgáfan Grænt Reykjavíkurkort var gefið út haustið 2010 og önnur útgáfa kom út í júlí 2011.  Tilgangur kortsins er að gefa yfirsýn yfir þá fjölmörgu umhverfisvænu kosti sem fyrir eru í landinu og hvetja fjólk til að nýta sér þá og styðja frekar þau fyrirtæki sem vinna á umhverfismeðvitaðan hátt. Þeir sem vilja skrá sig á græna kortið láti vita af sér á nature@nature.is. Grunnskráning er ókeypis!

Skoða Græna Íslandskortið (á íslensku), Green Map Iceland (á íslensku) og Green Map Island (á þýsku)

Á myndinnni hér að ofan sjást nokkrir af flokkum græna kortsins. Talið frá vinstri (með skilgreiningum):

Vernduð svæði - Náttúruvætti, þjóðgarðar, friðlönd og svæði sem njóta verndar út frá jarðfræðilegum sérkennum.

Barnvænn staður - Svæði sem hefur athyglisvert umhverfi og er öruggt og opið fyrir börn.

Grasþak - Grasþök eru aftur að verða algengari í mörgum löndum. Bæði á háhýsum og sveitabýlum eða frístundahúsum. Á Íslandi er sterk hefð fyrir grasþökum enda hluti af byggingarhefð torfbæjanna. Grasþök eru umhverfisvæn m.a. að því leyti að þau kæla og hreinsa loftið, eru ágætis eldvörn í húsum og endurvinna regnvatn. Grasþök í borgum auka lífsgæði og yndisauka á mölinni.

Menningarsetur - Staðir sem á ýmsan hátt eiga snaran þátt í umhverfi, menningu og ímynd borga og sveita. Slíkir staðir þurfa ekki endilega að vera stofnvæddir og geta verið í formi minnismerkja eða jafnvel tímabundinna atburða )svo sem mánaðarlegir útimarkaðir eða árlegar umhverfis hátíðir).

Orkusparnaður - Vettvangur, þjónusta, verkefni eða vörur sem lágmarka orkunotkun.

Lífrænn landbúnaður - Lífræn bújörð eða framleiðandi með lífræna vottun frá Vottunarstofunni Tún. Einnig þær verslanir sem sérhæfa sig í sölu á lífrænum vörum.

Vefmiðlun um umhverfismál - Vefslóðir (eða krækjur) á síður með góðar staðbundnar upplýsingar um ýmiskonar umhverfismál. Síðurnar eru tengdar fleiri grænum síðum sem tengjast vistvænu líferni og umhverfisvernd.

Heilsusamlegur matsölustaður- Áhersla er lögð á hollan og ferskan mat. Hráefni eru gjarnan lífrænt ræktuð og grænmetisréttir eru í boði. Kjötafurðir koma af dýrum sem hafa verið ræktuð frjáls (free range) við kjöraðstæður. Innan þessa flokks hafa sumar borgir flokkað sameignar kaffihús og ýmis konar þjóðlega matarmenningu.

Umhverfisfræðsla - Allt frá skipulögðu námi á öllum skólastigum til einstakra námskeiða og fyrirlestra ætluðum almenningi.

Leiga og skipti - Staður þar sem hægt er að leigja hjól eða umhverfisvæn farartæki eða vefur þar sem hægt er mæla sér mót og verða samferða í bíl með öðrum á forsendum þess að tekið sé þátt í kostnaði.

Umhverfisstýrt fyrirtæki - Fyrirtæki sem hafa ISO 14001 vottun.

Birt:
15. mars 2012
Uppruni:

Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Finndu grænu leiðina með aðstoð Græna Íslandskortsins“, Náttúran.is: 15. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2008/08/23/finndu-graenu-leioina-meo-graena-islandskortinu/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 23. ágúst 2008
breytt: 15. mars 2012

Skilaboð: