Aska frá svæðinu í kringum Eyjafjallajökul berst um þessar mundir yfir höfuðborgarsvæðið en hvöss suðaustlæg átt er ríkjandi á Suðurlandi. Gildi svifryks hafa hækkað hratt síðustu klukkustundir og er líklegt að hálftímagildi geti verið yfir mörkum af og til. 

Líklegt er að svifryksgildin sveiflist til frá einni klukkustund til annarar en ekki er öruggt að sólarhringsheilsuverndarmörkin fari yfir 50 míkrógrömm á rúmmetra í dag. Á hádegi í dag 3. september, var hálftímagildi svifryks í mælistöðinni á Grensásvegi 110 míkrógrömm á rúmmetra.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til.  Heilbrigðiseftirlitinu þykir ástæða til að benda þeim á sem eru með viðkvæm öndunarfæri s.s. lungnasjúkdóma eða astma að vera innandyra og bendir á leiðbeiningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar um hvernig bregðast skuli við menguna af völdum öskufoks.

Áhugasamir geta fylgst með styrk svifryks á vefmæli á heimasíðu borgarinnar reykjavik.is en hann sýnir styrkinn á mælistöðinni við Grensásveg. Heilsuverndarmörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra

Grafík: Mengun í Reykjavík, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttura.is.

Birt:
3. september 2010
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Aska dregur úr loftgæðum á höfuðborgarsvæðinu“, Náttúran.is: 3. september 2010 URL: http://nature.is/d/2010/09/03/aska-dregur-ur-loftgaedum-hofudborgarsvaedinu/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: