Endurvinnsla sorps er ein mikilvægasa leiðin til að minnka ágang á gæði jarðar og ætti að vera sjálfsagður þáttur í hverju fyrirtæki og á hverju heimili. Um 1/7 hluti alls úrgangs fellur frá heimilum en 6/7 frá fyrirtækjum heimsins. Með endurvinnslu eykst meðvitund um hvað við sóum miklu og verðmæt efni komast aftur í umferð og hættuleg efni fá þá meðhöndlun sem þarf til að gera þau minna skaðlega umhverfinu. Reynslan sýnir að endurvinnsla hvetur til minni sóunar og gerir fólk meðvitaðara um ábyrgð sína gagnvart umhverfinu. Skynsamlegast er auðvitað að velja frekar náttúrulegri efni og umbúðaminni vörur og flokka til endurvinnslu það sem endurvinnanlegt er, en alltaf fellur eitthvað til af sorpi, það er óhjákvæmilegt í nútíma þjóðfélagi.

Til þess að einfalda endurvinnsluna og hvetja fólk til að taka þátt í því að minnka magn sorps sem fer óflokkað í heimilistunnuna engum til gagns né gleði hefur Náttúran gert Endurvinnslukort en það er kort hér á vefnum sem sýnir þér alltaf hvar næsti grenndargámur eða endurvinnslustöð í þínu næsta nágrenni er að finna og segir þér einnig hverju er tekið á móti þar. Nú þegar er búið að kortleggja stærstan hluta landsins en unnið er að því að safna upplýsingum um hvern einasta stað á landinu þannig að Endurvinnslukortið nýtist öllum alltaf. Til að staðsetja grenndargáma og aðra móttökustaði fyrir endurvinnanlegt sorp er smellt á heimilisfang í því póstnúmeri sem við á eða næsta aðliggjandi. Til að sjá hvað hver stöð tekur á móti er rennt lauslega yfir Fenúrmerkin og gámatáknin.

Birt:
21. nóvember 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hver tekur við hverju til endurvinnslu?“, Náttúran.is: 21. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2009/11/10/hver-tekur-vio-hverju-til-endurvinnslu/ [Skoðað:19. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 10. nóvember 2009
breytt: 22. nóvember 2013

Skilaboð: