Vorið er seint á ferðinn hér á norðurslóðum og Páskarnir eru því oft það fyrsta sem að minnir okkur á að vorið sé að koma. Páskaundirbúningurinn er því kannski enn mikilvægari á Íslandi en t.d. í mið-Evrópu þar sem vorið er löngu farið að minna á sig hvort eð er.

Það er skemmtilegur siður að nota greinar af runnum, sem hvort eð er þarf að klippa um þetta leiti, taka þær inn í stofu og setja í vatn fyrir Páska. Ef þú hefur ekki garð til umráða er hægt að koma við hjá Sorpu og fá sér grein eða bara ganga um hverfið og líta eftir greinum sem eru brotnar eða liggja um á víðavangi.

Um Páskana ætti brumið á greinum sem nú eru settar í vatn að vera farið að opna sig og fyrstu laufblöðin að vera orðin sýnileg. Siðan er hægt að skreyta greinarnar með einhverju léttu og páskalegu eins og t.d. skreyttum eggjum. Egg, litlir ungar, greinar með nýjum laufblöðum og blóm eins og páskaliljur og túlipanar eru tákn um frjósemi Jarðar og minna um leið táknrænt á upprisuna fyrir kristna menn. Ýmsar aðferðir eru notaðar til að mála egg. Hægt er annað hvort að mála soðin egg, sem síðan eru borðuð á Páskadag, eða tóm egg sem blása þarf þá úr.

Að blása úr eggjum
Til að blása úr eggjum þarf títuprjón til að pota göt í eggin að ofan og neðan (aðeins stærra gat á breiðari enda eggsins). Götin þurfa ekki að vera stærri en 2-3 mm. Síðan er blásið úr grennri enda eggsins, yfir skál, þannig að eggjahvítan og eggjarauðan fái að seytla úr egginu í skálina. Þetta er erfitt og ekki á færi lítilla barna. Síðan eru eggin skoluð vel og lögð til þerris á klút þannig að allt fái að leka úr egginu. Að nokkrum klukkutímum liðnum er hægt að byrja að mála eggin eða þegar að eggið er örugglega orðið þurrt. Eggjarauðuna og eggjahvítuna úr eggjunum má svo nota í bakstur eða aðra matargerð.

Nokkrar aðferðir til að mála egg
Í raun er hægt að mála egg eða skreyta á alla mögulega vegu og láta hugmyndaflugið leiða sig áfram. Klassísk aðferð er að mála þau með vatnslitum eða tússi með pensli, teikna á þau með vaxlitum eða kertum og mála svo yfir lag eftir lag eða að dýfa þeim í vatnsleysanlega liti og leyfa þeim að renna saman. Aðalatriðið er að allir hafi gaman af og fjölskyldan undirbúi Páskana sína, bjóði vorið velkomið, í sameiningu.

Grafík: Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Birt:
21. mars 2016
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Páskagreinar og skreytt egg“, Náttúran.is: 21. mars 2016 URL: http://nature.is/d/2008/03/16/paskagreinar-og-skreytt-egg/ [Skoðað:8. maí 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2008
breytt: 21. mars 2016

Skilaboð: