Hér á eftir fer erindi Ólafs Páls Jónssonar dósents í heimspeki við Menntavísindasvið HÍ, á málstofunni „Loftslagsbreytingar á mannamál - Hnattrænt samhengi og áhrif loftslagsbreytinga á búsetu, atvinnulíf og menningu“ þ. 10. apríl sl.

Í fornöld var erfitt að gera nokkuð á heimsmælikvarða, því heimurinn var ekki mælikvarði á það sem gert var. Egill Skallagrímsson orti ódauðleg kvæði, bæði á Íslandi, í Noregi og á Bretlandi, en þetta voru bara kvæði ort á ólíkum stöðum og heimurinn gat kært sig kollóttan um þennan kveðskap. Og þegar hann drap einhvern eða framdi eitthvert annað ódæði, þá voru það líka ósköp staðbundin illvirki. Svona hélst þetta meira og minna fram undir iðnbyltingu.

Nú er hins vegar svo komið að flest sem við gerum hefur víðtækar afleiðingar og það jafnvel þótt afrekin jafnist ekki á við kveðskap Egils Skallagrímssonar og siðleysið sé ekki jafn óheflað og hömlulaust og hjá honum. Okkar lítilsigldu athafnir eru margar hverjar beinlínis siðlausar – ekki vegna þess að einhver liggur dauður eftir, heldur vegna þess að í okkar hversdagslegu breytni leggjum við okkar að mörkum til að gjörvallt lífríki jarðar verði fyrir hrikalegu áfalli. Þess vegna eru okkar lítilsigldu athafnir ekki bara siðlausar, þær eru siðlausar á heimsmælikvarða.

Að vísu er ekki víst að þessar hörmungar eigi eftir að bitna sérlega illa á okkar prívatlífi en það er alveg víst að þær eiga eftir að koma mjög illa við mjög marga aðra. Sem varnarviðbragð gætum við tamið okkur skeytingarleysi – við gætum einbeitt okkur að einhverju jákvæðu og gleðilegra – og það getur svo sem vel verið að sumir geti fetað sinn stíg, frá vöggu til grafar, án þess að horfast í augu við siðferðilegar afleiðingar athafna sinna.

En er ekki dálítið langt gengið að segja að hversdagslegar athafnir okkar séu siðlausar á heimsmælikvarða þegar við gerum ekki annað en að taka þátt í því lífi sem viðtekið er hér á Íslandi. Hér skiptir tvennt máli. Annars vegar hverjar þessar athafnir okkar eru og hvaða afleiðingar þær hafa og hins vegar, ef í ljós kynni að koma að þær hafi alvarlegar afleiðingar, hvort það geti talist vörn í málinu að sambærilegar athafnir eru viðteknar, ekki bara á Íslandi heldur víða á Vesturlöndum.

I

Víkjum að fyrra atriðinu fyrst: Þessum hversdagslegu athöfnum og þeim afleiðingum sem þær kunna að hafa. Kjarni málsins – alltjent sá kjarni sem gerir það að siðferðilegu máli yfirleitt – er að hversdagslegar athafnir okkar reiða sig á aðgang að gæðum sem eru í senn (i) sameiginleg öllum jarðarbúum, (ii) af skornum skammti og (iii) ekki í eigu neins. Þessi gæði eru andrúmsloftið, eða öllu heldur geta lofthjúpsins til að taka við mengun án þess að vistkerfi jarðar verði fyrir verulegu tjóni (sjá t.d. Singer, bls. 418).

Nú er það svo að mannkynið hefur þegar gengið verulega á þessi gæði – bæði hefur miklu magni af koltvísýringi verið dælt út í andrúmsloftið síðan iðnbyltingin hófst og á sama tíma hefur vistkerfum jarðar hrakað mjög sem veldur því að geta lofthjúpsins til að taka við mengun hefur skerst verulega. Það flækir að vísu málið að lengi vel gerði fólk sér ekki grein fyrir því hvert ástandið væri – hvorki að þaný ol lofthjúpsins hefði verið minnkað né hversu alvarlegar afleiðingarnar af því kunna að verða. En nú eru a.m.k. 10 ár síðan nægjanleg gögn lágu fyrir til að sýna að ástand lofthjúpsins er ekki gott og að það eru lifnaðarhættir fólks – einkum Vesturlandabúa – sem valda þar mestu (sbr. Halldór Björnsson, bls. 55).

(1) Það er réttlætiskrafa að sameiginlegum gæðum, sem eru í senn mikilvæg og af skornum skammti, sé skipt jafnt. Með því að losa gróðurhúsalofttegundir reiðum við okkur á takmarkaða getu lofthjúpsins til að vinna úr mengun, og því meira magn slíkra lofttegunda sem við losum, því minna svigrúm er fyrir aðra til að losa gróðurhúsalofttegundir. Staðreyndin er sú, að ef þessi við erum fólk á Vesturlöndum, þá höfum við, í áranna rás, verið frekari á þessi gæði en hinar vaný róaðri þjóðir. Og enn þann dag í dag tökum við til okkar miklu meira en okkar skerf. Þegar við erum spurð, hvers vegna við gerum það, þá er svarið einfalt: „Við þurfum á þessu að halda til að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast á fullum hraða.“ George Bush orðaði þetta með einkar skýrum hætti þegar hann neitaði að taka þátt í Kyoto-samstarfinu. Hann sagði einfaldlega:

Við munum ekki gera neitt sem skaðar efnahagslífið því það sem kemur fyrst er fólkið sem býr í Bandaríkjunum (Bush, NewYork Times, 30. mars 2001, bls. A11).

Ef þessi við erum ekki fólk á Vesturlöndum heldur bara fólkið á Íslandi, þá er staðan ekki mikið skárri. Hér hefur sú rödd verið hávær, nú seinast fyrir loftslagsfundinn í

Kaupmannahöfn, að íslensk stjórnvöld ættu að sækja um undaný águr frá takmörkunum á losun gróðurhúsalofttegunda. Í fyrsta skipti stóðu íslensk stjórnvöld í lappirnar í loftslagsmálunum og tóku ábyrga afstöðu ásamt ýmsum öðrum ríkjum. Forsvarsmenn íslensks atvinnulífs virðast hins vegar ekki skilja þessa siðferðilegu hlið málsins því háværasta krafa þeirra er að byggja nýja stóriðju.

(2) Önnur hlið málsins er að nú virðist komið í óefni, og því þarf að grípa til aðgerða. Kannski er ekki rétt að spyrja hvernig ætti að skipta kökunni, heldur hverjir ættu að taka á sig þær byrðar sem augljóslega þarf að taka á sig til að forða stórslysi. Ýmis svör eru möguleg. (a) Við gætum t.d. einfaldlega leyft þeim sem geta mögulega losað sig við byrðarnar að velta þeim yfir á aðra. Þá er spilaður eins konar Svarti-Pétur, því á endanum sitja einhverjir uppi með ósómann. (b) Við getum látið þá sem eru veikastir fyrir taka á sig mestar byrðar. (c) Við getum látið þá sem standa best taka á sig mestar byrðar. Frá siðferðilegum sjónarhóli virðist svar (c) helst koma til greina. Frá pólitískum sjónarhóli virðast svör (a) og (b) vera viðtekin.

(3) Þriðja hlið málsins er sú, að afleiðingarnar af því að bregðast ekki við lenda með mjög misjöfnum hætti á íbúum jarðar. Ef hitastig lofthjúpsins hækkar frá því sem nú er má búast við því að nokkrar milljónir – eða nokkrir tugir milljóna – missi heimili sín og búsvæði í Bangladesh. Svo verða til nokkrar milljónir – eða tugir milljóna – flóttamanna í Afríku vegna þurrka. Svo munu nokkrar milljónir deyja eða hrekjast á flótta vegna aukinna stríðsátaka sem stafa m.a. af skorti á vatni. Hér uppi á Íslandi getum við horft á úr fjarlægð, með nóg vatn handa okkur og „fjarri heimsins vígaslóð“ eins og segir í kvæðinu. Við fáum kannski fréttir af þessu fólki endrum og sinnum, en við látum það ekki á okkur fá og krefjumst þess að hjól atvinnulífsins taki að snúast á ný – jafnvel þótt snúningur þeirra sé lóð á vogarskálar þessara hörmunga. Okkur finnst sjálfsagt að keyra hvert sem er, að ferðast til útlanda með flugvélum nokkrum sinnum á ári, að flytja inn vörur frá fjarlægum heimshornum af því við viljum dekra við okkur. Við byggjum stór íbúðarhús og dreifum byggðinni af því að við viljum hafa það notalegt, eiga garð og bískúr, og þar fram eftir götunum. Og sé keypt eldri íbúð þá er gjarnann byrjað á því að „hreinsa út úr henni“ af því að eldhúsinnréttingin var ekki alveg rétt. Allt er þetta í nafni lífsgæða og hagvaxtar hér heima, en í þriðja heiminum fær fólk að súpa seiðið af herlegheitunum.

Staðreyndin var sú, hér á árum og öldum áður, að gerði maður sig sekan um siðleysi þá beindist það að fólkinu í kringum mann. Áhrifin fjöruðu út eftir því sem fjær dró í tíma og rúmi. Loftslagsvandinn hefur snúið þessu við. Nú birtist siðleysið ekki í því sem maður gerir í samskiptum við fólkið í kringum mann, og það birtist ekki sem bein afleiðing tiltekinna athafna, heldur í því sem maður gerir á hlut fólks í fjarlægum heimshornum, jafnvel í tiltölulega fjarlægum tíma, og ekki vegna tiltekinna og nærtækra afleiðinga, heldur vegna þess að afleiðingarnar eru af tilteknu tagi. Athafnir okkar eru kannski ekki slæmar í sjálfum sér, en margt smátt gerir eitt stórt, og saman eru afleiðingar þessara athafna ekki bara slæmar, þær eru mögulega skelfilegar, og ekki bara fyrir einhverja tiltekna óheppna einstaklinga, heldur fyrir heilu þjóðirnar vítt og breitt um veröldina.

II


Ég hef nú rakið tiltekið siðleysi sem birtist í afleiðingum af hversdagslegum athöfnum sem sjálfar virðast oft ósköp saklausar. En siðleysi hinna vestrænu lifanaðarhátta er líka af öðru tagi og ekki bundið siðlausum afleiðingum sakleysislegra athafna.

Byrjum á dæmi sem tengist loftslagsmálunum ekki beint.

Maður rær til fiskjar, það koma óheppilega fiskar í netin, sumir heldur litlir, aðrir sem hann hefur ekki kvóta fyrir og loks fiskar sem eru verðlitlir og taka pláss í bátnum, pláss sem hann gæti annars notað fyrir verðmeiri fisk. Þess vegna hendir maðurinn slatta af fiski aftur í sjóinn.

Það er eitthvað siðlaust við að leggja net, veiða í þau fisk og henda honum svo aftur í sjóinn ýmist dauðum eða deyjandi. Og þetta háttalag er verra en ella ef um er að ræða hluta af takmarkaðri auðlind sem þegar er gengið of nærri. Af þessum sökum held ég að fáir hafi samúð með þeim sem róa til fiskjar og henda svo afla aftur í sjóinn.

Óhófleg neysla, bruðl, á vörum sem skilja eftir sig kolefnisspor á heiminum, er sambærileg við það að henda fiski aftur í sjóinn. Sérhver hlutur sem til okkar berst hefur í sér fólgið örlítið brot af lofthjúpi jarðar. Þegar við tökum slíkan hlut og hendum honum í ruslið, þá fer þetta litla brot af lofthjúpnum með hlutnum í ruslið. Ef hluturinn hefur verið gagnlegur og notaður vel, þá er ekkert rangt við að hann – og sneiðin af lofthjúpnum – endi sína daga í ruslinu. Ekki frekar en að fiskur, sem er veiddur og étinn, á eftir að umbreytast og enda aftur í sjónum.

En þegar við hendum í ruslið fullkomlega góðum hlutum – þegar við tökum meira en við þurfum á að halda og skeytum ekki um það sem út af stendur – þá erum við í raun í sömu stöðu og sjómaðurinn sem hendir afla fyrir borð. Við höfum tekið til okkar brot af sameiginlegum gæðum sem eru af skornum skammti, og gert ekkert með þetta brot. Við kærum okkur kollótt um það, þótt aðrir þurfi á þessu broti að halda – eða þurfi á því að halda að þetta brot hefði fengið að vera áfram í upphaflegu ástandi.

Í bruðli felst siðleysi óháð því hvaða afleiðingar bruðlið hefur. Það er siðleysi sem byggist á því að maður vanvirðir gildi hlutanna. Þegar bruðlað er með takmörkuð en mikilvæg gæði, felst einnig í því bruðli vanvirða við annað fólk. En hvað með þann sem hefur efni á að bruðla? Getur nokkur kvartað yfir því þótt ég bruðli með einhver gæði, kaupi til dæmis mat sem skemmist svo í ísskápnum og fer óétinn í ruslið, ef ég hef efni á því? Er það ekki mitt mál hvernig ég haga mínum innkaupum svo framarlega sem ég stend í skilum?

Kannski á enginn með að kvarta, enda er enginn sem hefur það hlutverk að taka við kvörtunum yfir því að bruðlað er með lofthjúpinn. Bruðlið er samt dæmi um siðleysi – það er löstur en ekki dygð – og það er jafn siðlaust hvort sem maður hefur efni á því eða ekki. Sá sem bruðlar og hefur efni á því hegðar sér kannski ekki eins heimskulega og hinn sem hefur ekki efni á sínu bruðli. Siðleysið er alveg það sama. Og þegar bruðlað er með þau sameiginlegu gæði jarðarbúa sem er geta lofthjúpsins til að taka við úrgangi – einkum gróðurhúsalofttegundum – þá er slíkt siðleysi ekki bara dapurlegur vitnisburður um lesti einhverrar manneskju heldur er það siðleysi á heimsmælikvarða.

III


Nú vil ég víkja að seinna atriðinu sem ég nefndi í upphafi erindis míns og sagðist ætla að fjalla um; nefnilega hvort það geti talist vörn eða afsökun fyrir okkur að athafnir sambærilegar okkar hversdagslegu athöfnum eru viðteknar, ekki bara á Íslandi heldur víða á Vesturlöndum. Velviljuðum Vesturlandabúum er nokkur vorkunn því það er erfitt að taka þátt í lífi samfélagsins án þess að leggja um leið lóð á vogarskálar hlýnandi loftslags. Hvað getur venjulegt fólk gert? Það getur vissulega flokkað ruslið, reynt að hjóla eða taka strætó í vinnuna, og keyrt lítinn bíl í staðinn fyrir stóran. Þetta er vissulega í áttina. En er þetta nóg? Er þetta kannski bara persónuleg friðþæging? Hvað stoðar það að hjóla í vinnuna þegar í bígerð er að reisa nýtt álver? Eða þegar allir flutningar innanlands fara fram á vegum landsins í stað þess að nota hafið?

Ef við hugsum um þennan vanda sem siðferðilega áskorun fyrir þjóð sem vill minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda, þá held ég að vistvænir lifnaðarhættir skipti vissulega máli. Þeir skipta máli vegna þess að þeir eru háttur íbúanna á að taka beinan þátt í verkefninu. En til þess að slík almenn þátttaka verði ekki beinlínis hjákátleg, þá verða stjórnvöld líka að marka sér stefnu – og fylgja henni eftir – þar sem stuðlað er að því að sambærilegum markmiðum verði náð á vettvangi þjóðlífsins. Til skamms tíma má segja að íslensk stjórnvöld hafi hæðst að öllum þeim sem vildu taka upp vistvæna lifnaðarhætti.

Hér er háðið í hnotskurn:

Heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi jókst um rúm 24% frá 1990 til 2006, eða úr 3,4 milljónum tonna árið 1990 í 4,3 milljónir tonna árið 2006. Árið 2005 var heildarútstreymið 3,7 milljónir tonna og nam aukningin milli áranna 2005 og 2006 því rúmum 14%. Stærsta hluta aukningarinnar má skýra með auknu útstreymi frá áliðnaði, sem jókst um 0,4 milljónir tonna milli 2005 og 2006, eða um 89%. ... Losun frá samgöngum jókst um 146.000 tonn milli áranna 2005 og 2006, eða um 17%, að langmestu leyti vegna vegasamgangna.
(Umhverfisstofnun (2008) Spá um losun gróðurhúsalofttegunda frá 2008–2012, bls. 1)

Almennum borgurum er vissulega vorkunn að taka alvarlega þau siðferðilegu afglöp, sem felast í því að spilla lofthjúpi jarðar og stefna fólki með því í voða, þegar ríkisvaldið gerir fólki nánast ómögulegt að setja sér raunhæf markmið um að draga úr losun. Með því að spilla möguleikum fólks á að setja sér siðferðileg markmið, þá gekk ríkisvaldið siðleysinu á hönd og gerði það að pólitískri stefnu sinni. Sem betur fer hefur aðeins rofað til hjá ríkisvaldinu í þessum efnum upp á síðkastið. En á sama tíma kalla forsvarsmenn atvinnulífsins á meiri mengun, meiri náttúruspjöll, og þar með skeytingarleysi um örlög þeirra sem verst eru settir.

Um leið og óveðursskýin hrannast upp er dregið niður í siðferðistírunni uns ljósið er svo lítið að það nær ekki að lýsa upp nokkurn hlut en býr í mesta lagi til flöktandi skuggamyndir sem hver getur túlkað á sinn hátt. Í slíku myrkri er auðvelt að segja: Ég sé enga hættu svo langt sem augað eygir.

Birt:
13. apríl 2010
Tilvitnun:
Ólafur Páll Jónsson „Siðleysi á heimsmælikvarða - Loftslagsbreytingar á mannamáli“, Náttúran.is: 13. apríl 2010 URL: http://nature.is/d/2010/04/13/sidleysi-heimsmaelikvarda-loftslagsbreytingar-mann/ [Skoðað:9. maí 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: