Mjólkin hituð í potti. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Sparnaður er töfraorðið á mínu heimili og hefur verið um langa hríð. Hvort sem er til að spara í peninga eða minnka aðra sóun. Ég þarf alltaf að vera að láta mér detta eitthvað í hug til að hafa nóg að bíta og brenna nú á síðustu og verstu tímum dýrtíðar og allavega.

Stundum föllum við í þá gryfju að halda að eitthvað sé nauðsynlegt eða óhjákvæmilegt, sem er það svo alls ekki.

T.d. að kaupa dýra jógúrt í litlum umbúðum úti í búð. Hér einu sinni átti ég jógúrtgerðarvél, sem var einfaldlega einskonar bakki til að setja 6 lítil glerglös með plastloki í, loka og setja í samband. Í glerglösin hellti ég mjólk og hrærði einni eða tveim teskeiðar af jógúrt sem ég keypti úti í búð út í. Tækið hitaði mjólkina í 39 °C og voilà, jógúrtið var tilbúið næsta morgun. Þetta notaði ég mikið á námsárum mínum í París og München en síðan gleymdi ég þessu hreinlega og tækið dagaði uppi einhversstaðar á lífsleiðinni.

Jógúrt komið í dallinn. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.En vinkona mín, Charlotte Clausen, bóndi í Hvammi í Ölfusi, minnti mig aftur á að það sé auðvelt að gera sína eigin jógúrt .

Uppskrift af jógúrt:

  • Mjólk
  • Hrein jógúrt og/eða grísk jógúrt (helst lífræn)
  • Mjólkin er hituð í potti í ca. 40 gráður (sumir hita enn meira og láta kólna aftur niður)
  • Jógúrt sett í mjólkina og hrært í. Magn fer eftir mjólkurmagninu, bara prófa sig áfram.
  • Hella í lokað ílát.
  • Setja í hjónarúmið (má líka vera einstaklingsrúm eða sófi með góðri sæng ;)
  • Leyfa að vera í friði í ca. 12 klst. Ef maður útbýr þetta um kvöldmatarleitið er það tilbúið næsta morgun.
  • Tilbúið til kælingar og átu.Dallurinn kominn í hjónarúmið. Ljósm. Guðrún Tryggvdóttir.

Dallurinn pakkaður inn í sæng. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Geyma síðan svolítið af jógúrtinni fyrir næstu jógúrtgerð því jógúrtgerlarnir halda áfram að lifna við við væga hitun og því er óþarfi að kaupa aftur jógúrt úti í búð.

 

Birt:
27. mars 2015
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Að gera sína eigin jógúrt“, Náttúran.is: 27. mars 2015 URL: http://nature.is/d/2014/10/18/ad-gera-sina-eigin-jogurt/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 18. október 2014
breytt: 27. mars 2015

Skilaboð: