Efling græns hagkerfis á Íslandi
Niðurstöður vinnu nefndar Alþingis um eflingu Græns hagkerfis liggur nú fyrir í skýrslunni „Efling græns hagkerfis á Íslandi - sjálfbær hagsæld - samfélag til fyrirmyndar“ (sjá skýrsluna) en nefndin* hefur nú starfað í um eitt ár. Í skýrslunni er m.a. fjallað um skilgreiningar á grænu hagkerfi og grænum störfum og nefnd dæmi um atvinnugreinar sem annað hvort teljast grænar skv. fyrirliggjandi skilgreiningum eða búa yfir mikilvægum tækifærum til fjölgunar grænna starfa og eflingar græns hagkerfis. Fremst í skýrslunni er sett fram sérstök framtíðarsýn og stefna um grænt hagkerfi á Íslandi, en aðalefni skýrslunnar og þungamiðjan í afrakstrinum af starfi nefndarinnar felst í 48 tillögum um aðgerðir sem nefndin telur að geti ýtt undir þróun til græns hagkerfis á Íslandi.
Tillögurnar 48 eru þessar:
- Efling græns hagkerfis verði forgangsverkefni ií atvinnustefnu iíslenskra stjórnvalda.
Ábyrgð: Alþingi / Ríkisstjórn. Tímasetning: 2012. - Vinna við eflingu græns hagkerfis á Íslandi verði á forræði forsætisráðuneytis. Ráðuneytið sjái um að samþætta framkvæmd aðgerðáætlunar á grundvelli tillagna sem fram koma í þessu skjali, með þátttöku allra ráðuneyta Stjórnarráðsins. Jafnframt verði efnt til samráðs við sveitarélög um aðkomu þeirra að eflingu græna hagkerfisins.
Ábyrgð: Alþingi / Forsætisráðuneyti. Tímasetning: Frá og með samþykkt tillögunnar á Alþingi. - Heildarendurskoðun verði gerð á lögum sem gilda um opinberar stofnanir og hlutverk þeirra, með það fyrir augum að flétta áherslur sjálfbærrar þróunar og græns hagkerfis inn í skilgreind hlutverk og aðrar lagagreinar þar sem það á við.
Ábyrgð: Alþingi / Forsætisráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Atvinnugreinaflokkun og hagtölugerð Hagstofu Íslands verði endurskoðuð þannig að grænar atvinnugreinar og græn störf verði sýnilegri og auðvelt verði að kalla fram stöðu í einstökum skilgreindum vaxtargreinum.
Ábyrgð: Hagstofa Íslands. Tímasetning: 2012. - Greining verði gerð á umfangi græna hagkerfisins á Íslandi með tilliti til atvinnusköpunar og hlutdeildar Í þjóðarframleiðslu. Á grundvelli þeirrar greiningar verði mótuð áætlun um fjölgun grænna starfa.
Ábyrgð: Forsætisráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Framfarastuðull (GPI) fyrir Ísland verði reiknaður og birtur samhliða vergri landsframleiðslu (GDP).
Ábyrgð: Hagstofa Íslands. Tímasetning: Frá og með 2013. - Ákvæði um kostnaðar- og ábatagreiningu verði bætt inn í lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana og lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, þannig að tryggt sé að umhverfiskostnaður hafi alltaf verið metinn til fjár áður en ráðist er í framkvæmdir.
Ábyrgð: Alþingi / Umhverfisráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Öll ráðuneyti og ríkisstofnanir (A-hluta) innleiði vistvæn innkaup í samræmi við stefnu um vistvæn innkaup ríkisins.
Ábyrgð: Öll ráðuneyti. Tímasetning: Fyrir árslok 2012. - Stefna um vistvæn innkaup ríkisins (2009-2012) verði endurskoðuð. Ný stefna fyrir tímabilið 2013-2020 miði að þvíað hlutfall vistvænna útboða á vegum ríkisins verði 50% árið 2015 og 80% árið 2020.
Ábyrgð: Fjármálaráðuneyti / Umhverfisráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Allir nýir rammasamningar ríkisins um innkaup uppfylli viðmið í umhverfisskilyrðum í þeim vöruflokkum þar sem slík skilyrði hafa verið útbúin.
Ábyrgð: Ríkiskaup. Tímasetning: 2012. - Fjárveitingar til VINN-verkefnisins um vistvæn innkaup verði auknar.
Ábyrgð: Alþingi. Tímasetning: 2012. - Árlega sé gert ráð fyrir tiltekinni fjárhæð á fjárlögum til að endurgreiða opinberum stofnunum allt að 20% af kostnaðarverði vöru og þjónustu sem sannanlega uppfyllir skilyrði umhverfismerkja af gerð 1 (e. Environmental labels – Type 1).
Ábyrgð: Alþingi. Tímasetning: 2012 - Gerð verði úttekt á orkunotkun opinberra bygginga og sett upp orkustýring þar sem það er talið hagkvæmt.
Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti / Orkustofnun / Orkusetur. Tímasetning: 2012. - Allar stofnanir ráðuneyta og öll fyrirtæki í eigu ríkisins birti ársskýrslur í samræmi við leiðbeiningar Global Reporting Initiative (GRI).
Ábyrgð: Ráðuneyti, stofnanir, ríkisfyrirtæki. Tímasetning: 10% við skil ársskýrslu fyrir 2012 50% við skil ársskýrslu fyrir 2013 80% við skil ársskýrslu fyrir 2014. - Alþingi, öll ráðuneyti og allar stofnanir ráðuneyta taki upp markvisst umhverfisstarf til að bæta nýtingu og draga úr sóun og öðrum neikvæðum áhrifum á umhverfið, bæði beinum og óbeinum, með hliðsjón af staðlinum ISO 14001. Liður í þessu þarf að vera átak í sjálfbærnimennt innan ríkisstofnana, með sérstakri áherslu á forystuhlutverk slíkra stofnana á sviði sjálfbærrar þróunar og með hliðsjón af markmiðum Áratugar Sameinuðu þjóðanna um menntun til sjálfbærrar þróunar.
Ábyrgð: Alþingi, ráðuneyti, stofnanir. Tímasetning: 2012. - Úttekt verði gerð á eftirfylgni ríkis og sveitarfélaga með eigin áætlunum um sjálfbæra þróun (svo sem Staðardagskrá 21, Velferð til framtíðar og Sjálfbærniáætlun Norðurlandanna).
Ábyrgð: Ríkisendurskoðun Tímasetning: 2012. - Vistvæn orkunýting verði skilgreind sem sérstakt áherslusvið í eigendastefnu opinberra orkufyrirtækja, og verði þannig grundvallaratriði við val á orkukaupendum, að uppfylltum kröfum um arðsemi.
Ábyrgð: Fjármálaráðuneyti / Iðnaðarráðuneyti / Alþingi. Tímasetning: 2012 - Settur verði á fót Grænn samkeppnissjóður sem deild í Tækniþróunarsjóði, sem styrki verkefni á sviði umhverfisvænnar nýsköpunar með sérstöku tilliti til skilgreininga Sameinuðu þjóðanna og BLS á grænum störfum og grænu hagkerfi.
Ábyrgð: Alþingi / Tækniþróunarsjóður. Tímasetning: 2012. - Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins verði falið að vinna að stofnun og rekstri Græns fjárfestingarsjóðs í samstarfi við innlenda og erlenda fjárfesta. Hlutverk sjóðsins verði að fjárfesta í umhverfistækni og umhverfisvænni starfsemi.
Ábyrgð: Alþingi / Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins Tímasetning: 2012. - Efnt verði til fimm ára átaksverkefnis til að auka erlendar fjárfestingar í grænni atvinnustarfsemi, m.a. með því að nýta heimild í 15. gr. laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Við val á verkefnum verði skilgreiningar BLS á grænum störfum lagðar til grundvallar. Átakið feli m.a. í sér hagræna greiningu á grænu hagkerfi á Íslandi, val áherslusviða, kortlagningu vænlegra fjárfesta, kynningu og markaðssetningu.
Ábyrgð: Iðnaðarráðuneyti / Íslandsstofa / Utanríkisráðuneyti / Umhverfisráðuneyti. Tímasetning: 2012 - 2016. - Lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, verði breytt þannig að heimilt verði að víkja frá stærðarmörkum skv. grein 5e þegar um er að ræða verkefni sem falla að skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna og BLS á grænum störfum og grænu hagkerfi.
Ábyrgð: Alþingi / Iðnaðarráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Lögum nr. 106/1999, um Byggðastofnun, verði breytt þannig að stofnunin hafi sjálfbæra þróun að leiðarljósi og flétti áherslur græns hagkerfis inn í starfsemi sína, lánveitingar, vaxtarsamninga og annað samstarf við atvinnuþróunarfélög.
Ábyrgð: Alþingi / Iðnaðarráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Tryggt verði að hægt verði að sækja á einn stað upplýsingar og ráðgjöf um styrki til grænnar nýsköpunar, jafnt frá íslenskum, norrænum, evrópskum og alþjóðlegum sjóðum.
Ábyrgð: Iðnaðarráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Nýju ákvæði verði bætt í reglur Starfsorku þannig að heimilt verði að samþykkja Starfsorkusamninga vegna nýrra umhverfisverkefna.
Ábyrgð: Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Tímasetning: Fyrir árslok 2011. - Gerður verði langtímasamningur um stuðning við Grænfánaverkefnið, með það að markmiði að tryggja aðgengi skóla að verkefninu og að sjálfbærnimennt verði eðlilegur hluti af öllu skólastarfi.
Ábyrgð: Menntamálaráðuneyti / Umhverfisráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Námskrá fyrir almenn ökuréttindi (flokkur B) verði endurskoðuð með það fyrir augum að vistakstur verði grunnþáttur í verklegum hluta kennslunnar.
Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti / Umferðarstofa. Tímasetning: 2012. - Námsframboð í kennaranámi verði endurskoðað með áherslu á að flétta inní það menntun til sjálfbærrar þróunar, jafnt í hefðbundið kennaranám sem endurmenntun.
Ábyrgð: Menntamálaráðuneytið. Tímasetning: 2013. - Stofnaður verði sérstakur „Sjálfbærnifræðslusjóður“, sem veiti styrki til stofnana og verkefna í þágu menntunar til sjálfbærrar þróunar.
Ábyrgð: Menntamálaráðuneyti / Umhverfisráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Fjármálaráðuneytinu verði falið að útfæra mengunargjöld í anda mengunarbótareglunnar. Mengunargjöldin renni í grænan sjóð sem fjármagni endurgreiðslur á kostnaði við bættar mengunarvarnir í viðkomandi atvinnugreinum. Við útfærsluna verði m.a. horft til reynslu annarra Norðurlandaþjóða.
Ábyrgð: Fjármálaráðuneytið. Tímasetning: 2012. - Við endurskoðun laga um virðisaukaskatt verði vörur og þjónustu með vottuð umhverfismerki, svo og lífrænt vottaðar vörur, settar í lægra virðisaukaskattsþrep en aðrar vörur til sömu nota.
Ábyrgð: Alþingi / Fjármálaráðuneyti. Tímasetning: Við næstu endurskoðun laganna. - Lögum verði breytt þannig að mögulegt verði að endurgreiða 20% af kostnaði við innleiðingu vottaðra umhverfisstjórnunarkerfa (t.d. ISO 14001 eða EMAS), að hámarki allt að 1 milljón króna.
Ábyrgð: Alþingi / Fjármálaráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Reglugerð um grænt bókhald nr. 851/2002 verði endurskoðuð í ljósi reynslu undangengins áratugar. Sérstaklega verði hugað að eftirliti með framkvæmd bókhaldsins með tilliti til áreiðanleika, þannig að markmiðum um skýrar upplýsingar og umhverfisvernd sé fullnægt.
Ábyrgð: Umhverfisráðuneytið Tímasetning: 2012. - Stjórnvöld móti framkvæmdaáætlun um eflingu lífrænnar framleiðslu á Íslandi, með það að markmiði að lífrænt vottaðar vörur verði 15% af landbúnaðarframleiðslu á Íslandi árið 2020.
Ábyrgð: Alþingi / Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Stuðningur við aðlögun að lífrænni framleiðslu verði aukinn til að tryggja framkvæmd nýsamþykktra verklagsreglna um aðlögunarstuðning.
Ábyrgð: Alþingi / Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti Tímasetning: 2012. - Gerð verði kostnaðar- og ábatagreining á framleiðslu lífræns áburðar hérlendis.
Ábyrgð: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Tímasetning: Fyrir árslok 2012. - Lögum verði breytt þannig að mögulegt verði að endurgreiða allt að 20% af kostnaði upp að tilteknu hámarki við breytingar sem gera þarf á skipum til að skipta yfir í vistvænt eldsneyti eða bæta nýtingu eldsneytis.
Ábyrgð: Alþing / Fjármálaráðuneyt.i Tímasetning: 2012. - Staðfestingu Íslands á Viðauka VI við MARPOL-samninginn um varnir gegn mengun frá skipum verði hraðað og í framhaldinu verði efnahagslögsaga Íslands gerð að sérstöku mengunareftirlitssvæði (ECA- svæði (Emission Control Area)).
Ábyrgð: Umhverfisráðuneyti / Umhverfisstofnun / Siglingastofnun. Tímasetning: 2012. - Orkunýting íslenskra heimila og fyrirtækja verði metin sérstaklega og niðurstöðurnar kynntar opinberlega, með það fyrir augum að draga úr sóun.
Ábyrgð: Orkustofnun / Orkusetur. Tímasetning: 2012. - Ráðist verði í heildarendurskoðun á löggjöf um úrgangsmál, m.a. með það að markmiði að fjarlægja hindranir í vegi endurvinnsluiðnaðar á Íslandi.
Ábyrgð: Alþingi / Umhverfisráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Komi til stofnunar Auðlindasjóðs verði tekjum af auðlindagjaldi m.a. varið til umhverfisvænnar atvinnusköpunar og eflingar græns hagkerfis.
Ábyrgð: Ríkisstjórn. Tímasetning: 2012. - Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði falið að móta aðferðafræði sem felur í sér grænkun íslenskra fyrirtækja í öllum atvinnugreinum á grundvelli nýsköpunar og þróunar tæknilausna sem draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfseminnar og lágmarka kolefnisfótspor fyrirtækja.
Ábyrgð: Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Tímasetning: 2012. - Gildandi heimild til endurgreiðslu vörugjalda til þeirra sem láta breyta bílum í vistvæn ökutæki verði framlengd, þannig að heimilt verði að endurgreiða vörugjöld vegna breytinga á fleiri ökutækjum en 1.000.
Ábyrgð: Alþingi / Fjármálaráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Kolefnisgjald á eldsneyti verði hækkað um þriðjung og tekjum af hækkuninni ráðstafað til verkefna sem stuðla að orkuskiptum í samgöngum.
Ábyrgð: Alþingi / Fjármálaráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Endurnýjanleg orka til samgangna verði ekki skattlögð fyrr en hlutdeild hennar er orðin 20% af heildarorkunotkun í samgöngum.
Ábyrgð: Alþingi / Fjármálaráðuneyti. Tímasetning: Ótímasett. - Felldir verði niður tollar á reiðhjól og tengdar vörur, s.s. barnastóla, bögglabera, hjólavagna, ljós, lása og annan slíkan búnað til samræmis við tollfríðindi annarra farartækja með enga koltvísýringslosun.
Ábyrgð: Alþingi / Fjármálaráðuneyti. Tímasetning: 2012. - Samkomulag verði gert við samtök opinberra starfsmanna um að innleiða samgöngustyrki fyrir annan ferðamáta en akstur í samningum ríkisstarfsmanna og ríkisstofnana. Þá verði fyrirtækjum sem setja sér og fara eftir grænni samgöngustefnu umbunað með skattalegum hvata. Í þeim efnum verði horft til sambærilegra aðgerða sem gefið hafa góða raun í öðrum löndum.
Ábyrgð: Ferðakostnaðarnefnd. Tímasetning: 2012. - Ráðist verði í sérstakt fræðsluátak fyrir almenning og atvinnulífið um raunkostnað við mismunandi samgöngumáta og tengsl samgöngumáta og heilsu.
Ábyrgð: Menntamálaráðuneyti / Innanríkisráðuneyti / Umhverfisráðuneyti / Velferðarráðuneyti / Landlæknisembættið / Lýðheilsustöð / Endurmenntunarstofnanir. Tímasetning: Fyrir árslok 2012. - Ísland verði kynnt sem grænt hagkerfi fyrir kaupendum vöru og þjónustu, fjárfestum og ferðamönnum. Þessi markaðssetning byggi á ímynd og styrkleikum Íslands og fari saman við markaðssetningu Íslands á sviði ferðaþjónustu, vöruútflutnings og menningar.
Ábyrgð: Íslandsstofa. Tímasetning: 2012 – 2013.
*Nefnd um eflingu græns hagkerfis skipa þau: Skúli Helgason, formaður, Salvör Jónsdóttir, varaformaður, Arna Lára Jónsdóttir, Bergur Sigurðsson, Dofri Hermannsson, Guðmundur Ragnar Guðmundsson, Guðmundur Steingrímsson, Guðný Káradóttir og Illugi Gunnarsson.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Efling græns hagkerfis á Íslandi “, Náttúran.is: 30. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/30/efling-graens-hagkerfis-islandi/ [Skoðað:10. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.