Á vordögum 2007 skipaði umhverfisráðherra sérfræðinganefnd til að fjalla um tæknilega möguleika á að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda í mismunandi geirum samfélagsins: orkuframleiðslu; samgöngum; iðnaðarferlum; sjávarútvegi; landbúnaði; og meðferð úrgangs. Einnig skyldi nefndin kanna möguleika á að beita öðrum mótvægisaðgerðum þ.e. bindingu kolefnis og notkun sveigjanleikaákvæða Kyoto bókunarinnar til að minnka nettóútstreymi. Þessi skýrsla er heildstæð samantekt á þeirri vinnu sem átt hefur sér stað á vegum sérfræðinganefndarinnar.

Nefndin hefur nú skilað skýrslu með niðurstöðum sínum til umhverfisráðherra. Sjá Pdf útgáfu af skýrslunni.  Hér á eftir er samantekt hennar en skýrslan er gríðarlega umfangsmikil eða 232 blaðsíður.

Útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi nam 4.482 þúsund tonnum árið 2007 (m.v. CO2-ígildi). Það er 1.082 þúsund tonnum, eða um 32% meira en árið 1990. Útstreymi jókst í öllum atvinnugreinum nema í fiskveiðum, fiskimjölsvinnslu og landbúnaði. Mest dróst útstreymið saman í fiskveiðum (18%) og landbúnaði (7%), en mest jókst útstreymi frá járnblendiframleiðslu (91% hækkun) og álframleiðslu (72% hækkun). Dregið hefur þó úr útstreymi á hvert framleitt áltonn, en álframleiðsla jókst um nærri 420% á tímabilinu.

Auk þess sem talið er hér að ofan var útstreymi vegna landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar um 1.824 þúsund tonn og heildarbinding um 642 þúsund tonn. Nettóútstreymið frá þessum geira var því 1.212 þúsund tonn árið 2007 og jafngildir það um 27% af því útstreymi sem fellur undir Kyoto-bókunina. Þetta útstreymi er framtalskylt til loftslagssamningsins en reiknast ekki með í bókhald Kyotobókunarinnar. Binding vegna skógræktar og landgræðslu eftir 1990 reiknast hins vegar inn í bókhald vegna Kyoto bókunarinnar, þar sem sérstökum útstreymisheimildum er úthlutað vegna slíkrar bindingar. Sú binding var 279 þúsund tonn CO2 árið 2007.

Spá um útstreymi gróðurhúsalofttegunda til 2050, miðað við afskiptalausa þróun, svokölluð grunnspá, var fengin frá Umhverfisstofnun. Í skýrslunni er fjallað um tvö tilvik. Í tilviki 1, þar sem gert er ráð fyrir að framleiðsla í orkufrekum iðnaði samsvari framleiðslugetu starfandi fyrirtækja í árslok 2008, gæti heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda orðið um 4.644 þúsund tonn árið 2020, sem er 4% meira útstreymi en árið 2007 og 37% meira en 1990. Heildarútstreymi er skilgreint sem útstreymi án bindingar og er miðað við afskiptalausa þróun. Í tilviki 2 er gert ráð fyrir að framleiðsla í orkufrekum iðnaði verði jafnmikil og heimilt var samkvæmt útgefnum starfsleyfum í lok árs 2008. Samkvæmt því má gera ráð fyrir að árið 2020 geti útstreymi gróðurhúsalofttegunda orðið samtals um 6 milljón tonn eða 33% meira en 2007 og 76% meira en 1990.

Mótvægisaðgerðir lýsa möguleikum á að draga úr útstreymi umfram grunnspár í tilvikum 1 og 2, án þess að valda samdrætti í starfsemi og eru þær metnar með tilliti til kostnaðar, ábata og hversu mikið þær draga úr útstreymi. Túlka ber niðurstöðurnar sem mat á tæknilegum möguleikum til að draga úr útstreymi, en hvort af þeim aðgerðum verður fer m.a. eftir kostnaði, hagþróun, innleiðingu tækninnar auk stjórnvaldsaðgerða. Því getur verið mikill munur á þeim tæknilegum möguleikum sem settir eru fram og þeim samdrætti sem síðar verður. Ljóst er að miklir möguleikar eru á að draga úr nettóútstreymi og unnt að velja saman ýmsar aðgerðir til að ná þeim markmiðum sem stjórnvöld vilja stefna að.

Niðurstöður nefndarinnar sýna að mögulegt er að draga umtalsvert úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Ef miðað er við losunarspá tilviks 1 og að allar fyrirsjáanlegar mótvægisaðgerðir verði innleiddar, er talið mögulegt að draga úr útstreymi ársins 2020 um 52% miðað við grunnspá. Þetta samsvarar 34% samdrætti í útstreymi miðað við árið 1990 og 50% miðað við 2007. Ef samdráttur í útstreymi vegna endurheimts votlendis er ekki talin til mótvægisaðgerða gæti mögulegur samdráttur í nettóútstreymi árið 2020 orðið 22% miðað við árið 1990 og 40% miðað við 2007.

Ef miðað er við losunarspá tilviks 2 og að av fyrirsjáanlegar mótvægisaðgerðir verði innleiddar, er talið að hægt sé að draga úr útstreymi ársins 2020 um rúm 40% miðað við grunnspá (afskiptalausa þróun). Nettóútstreymi árið 2020 væri þá 3% hærra en það var árið 1990 en 21% lægra en útstreymi ársins 2007. Ef minnkun í útstreymi vegna endurheimts votlendis er ekki talið til mótvægisaðgerða má ætla að nettóútstreymi árið 2020 verði 15% hærra en 1990 en 12% lægra en árið 2007.

Mótvægisaðgerðir lýsa möguleikum á að draga úr útstreymi umfram grunnspár í tilvikum 1 og 2, án þess að valda samdrætti í starfsemi og eru þær metnar með tilliti til kostnaðar, ábata og hversu mikið þær draga úr útstreymi. Túlka ber niðurstöðurnar sem mat á tæknilegum möguleikum til að draga úr útstreymi, en hvort af þeim aðgerðum verður fer m.a. eftir kostnaði, hagþróun, innleiðingu tækninnar auk stjórnvaldsaðgerða. Því getur verið mikill munur á þeim tæknilegum möguleikum sem settir eru fram og þeim samdrætti sem síðar verður. Ljóst er að miklir möguleikar eru á að draga úr nettóútstreymi og unnt að velja saman ýmsar aðgerðir til að ná þeim markmiðum sem stjórnvöld vilja stefna að.

Niðurstöður nefndarinnar sýna að mögulegt er að draga umtalsvert úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Ef miðað er við losunarspá tilviks 1 og að allar fyrirsjáanlegar mótvægisaðgerðir verði innleiddar, er talið mögulegt að draga úr útstreymi ársins 2020 um 52% miðað við grunnspá. Þetta samsvarar 34% samdrætti í útstreymi miðað við árið 1990 og 50% miðað við 2007. Ef samdráttur í útstreymi vegna endurheimts votlendis er ekki talin til mótvægisaðgerða gæti mögulegur samdráttur í nettóútstreymi árið 2020 orðið 22% miðað við árið 1990 og 40% miðað við 2007.

Ef miðað er við losunarspá tilviks 2 og að av fyrirsjáanlegar mótvægisaðgerðir verði innleiddar, er talið að hægt sé að draga úr útstreymi ársins 2020 um rúm 40% miðað við grunnspá (afskiptalausa þróun). Nettóútstreymi árið 2020 væri þá 3% hærra en það var árið 1990 en 21% lægra en útstreymi ársins 2007. Ef minnkun í útstreymi vegna endurheimts votlendis er ekki talið til mótvægisaðgerða má ætla að nettóútstreymi árið 2020 verði 15% hærra en 1990 en 12% lægra en árið 2007.

Mótvægisaðgerðir sem tæknilega er unnt að ráðast í fyrir 2020 dreifast misjafnt milli geira. Mestir möguleikar virðast vera fyrir hendi í sjávarútvegi ef ekki er tillit til kostnaðar, bæði í fiskimjölsframleiðslu og fiskveiðum, en talið er að tæknilega sé hægt að draga úr útstreymi vegna fiskimjölsframleiðslu nánast um 100% með rafvæðingu og fiskveiðum um 75% með aukinni notkun lífeldsneytis og orkusparnaði. Tæknilega er talið unnt að draga úr losun í orkuframleiðslu um 50%, og landbúnaði um 12,4%. Margvíslegar mótvægisaðgerðir eru mögulegar í samgöngum, svo sem frá göngu og hjólreiðum, til bættra almenningssamgangna, sem og aukinnar notkunar lífeldsneytis og aukinnar rafvæðingar. Ekki er talið líklegt að mótvægisaðgerðir í iðnaði svo sem notkun eðalrafskauta í áliðnaði hafi veruleg áhrif á útstreymi gróðurhúsalofttegunda fyrr en eftir árið 2020, en þó er talið að hægt sé að draga úr útstreymi vegna sementsframleiðslu um 25%, álframleiðslu um 6% og vegna járnblendiframleiðslu um 4,6% miðað við tilvik 1. Með aðgerðum í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis má draga verulega úr nettóútstreymi árið 2020, eða um 32% miðað við tilvik 1 en 25% miðað við tilvik 2.

Kostnaður við mótvægisaðgerðir er mismikill en ljóst er að ódýrar aðgerðir geta skilað umtalsverðum árangri. Kostnaðurinn spannar allt frá aðgerðum sem gefa hreinan fjárhagslegan ávinning svo sem aukin áhersla á göngu og hjólreiðar, eða aukin notkun sparneytnari bifreiða, til mótvægisaðgerða sem eru fremur dýrar, t.d. raf- eða vetnisvæðing samgangna. Þó ber að hafa í huga að við tækniframfarir er líklegt að kostnaður dýrari aðgerða geti lækkað umtalsvert þegar til lengri tíma er litið. Niðurstöður gefa til kynna að aðgerðir sem fela í sér hreinan fjárhagslegan ábata geti dregið úr útstreymi um 4% árið 2020 og að mótvægisaðgerðir sem kosta frá 0-20 evrum á tonnið geti dregið úr útstreymi um 19% það sama ár.

Ef draga á úr útstreymi um 40% árið 2020, miðað við árið 1990, má nettóútstreymi árið 2020 ekki fara uppfyrir 2.040 þúsund tonn. Því þyrfti að draga úr nettólosun um 2.550 þúsund tonn árið 2020 miðað við spátilvik 1. Ef miðað er við spátilvik 2 yrði munurinn meiri eða 3.960 þúsund tonn. Þetta bil mætti til dæmis brúa á eftirfarandi hátt:

  • Í fyrsta lagi gæti óbreytt umfang aðgerða á sviði landnotkunar skilað bindingu upp á 770 þúsund tonn.
  • Í öðru lagi gætu aðgerðir sem kosta minna en 30 evrur tonnið skilað 1.050 þúsund tonnum í tilviki 1, og 1.120 þúsund tonnum í tilviki 2. Samtals gætu því þessir tveir liðir dregið úr útstreymi um 1.820 þúsund tonn í tilviki 1 og 1.890 þúsund tonn í tilviki 2.
  • Í þriðja lagi mætti kaupa 730 þúsund tonn af losunarheimildum í tilviki 1, en um 2.070 þúsund tonn af losunarheimildum í tilviki 2.

Mögulegt er því að brúa þetta bil í báðum tilvikum með fjölþættum aðgerðum í mörgum geirum þar með talið aukinni bindingu koldíoxíðs, annarra mótvægisaðgerða og beitingar sveigjanleikaákvæða. Þó ber að hafa í huga að sveigjanleikaákvæðin eru aðeins hugsuð sem viðbót við innlenda minnkun á nettóútstreymi.

Hafa ber í huga að fjárfestingar, hvort sem er í iðnaði, sjávarútvegi eða einfaldlega í fjölskyldubílnum hafa langan líftíma. Því hafa fjárfestingar áhrif á útstreymi gróðurhúsalofttegunda langt til framtíðar. Því fyrr sem fjárfestingum er beint til loftslagsvænni tækni því fyrr skila þær árangri.

Grafík. Grænir bílar á leið út á land að planta trjám. spúandi á leiðinni. Guðrún  Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.

Birt:
20. júní 2009
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Miklir möguleikar á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda“, Náttúran.is: 20. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/20/miklir-moguleikar-ao-draga-ur-losun-groourhusaloft/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: