Þegar raunhæfi virkjunarkosta álvers í Helguvík er skoðað kemur í ljós að óraunhæft er fyrir Norðurál að fá mikið meira en 100 – 150 MW af þeim 435 MW sem til þarf. Þau 285 – 335 sem standa út af borðinu verða torsótt sökum umdeildra orkuflutninga, stefnu sveitarfélaganna sem ráða yfir jarðhitaauðlindunum og breyttrar stefnu Orkuveitu Reykjavíkur.

Fyrirvarar forsætisráðherra
Í Morgunblaðinu þann 25. þ.m. er Geir H. Haarde, forsætisráðherra, spurður að því hvort álver sé að fara að rísa í Helguvík. Í svari sínu vísar hann til þriggja megin atriða og segir að framkvæmdin verði að: „uppfylla skilyrði sveitarfélaga í skipulagsmálum, standast umhverfismat og svo þarf að vera búið að tryggja orku til starfseminnar frá orkuseljendum“  
Óumdeilt er að tvö þessara skilyrða eru óuppfyllt þar sem framkvæmdin er í bága við skipulagsáætlanir níu sveitarfélaga og ekki er búið að tryggja nema hluta orkunnar. Vafi leikur á um hvort þriðja atriðið, umhverfismat, hafi verið uppfyllt en umhverfisráðherra mun skera úr um það á næstu dögum. Gangi ráðherra að kröfum Landverndar verður að fara fram heildstætt umhverfismat fyrir álver, orkuflutninga og virkjanir. Umhverfisstofnun, Vogar og Hveragerði hafa tekið undir sjónarmið um að framkvæmdina beri að meta með heildstæðum hætti.

Breytt stefna OR – (þar tapar Norðurál 75 MW)
Í áformum Norðuráls um álver í Helguvík er gert ráð fyrir 175 MW frá OR en aðeins hefur verið samið um 100 MW. Á forsíðu fréttablaðsins 22. þ.m. er haft eftir forstjóra OR að fyrirtækið selji ansi mikið af orku til álvera, ekki sé heppilegt að hafa öll eggin í einni körfu og að áhugi sé á að skoða aðra kosti. Áður hefur Landsvirkjun lýst því yfir að fyrirtækið muni ekki selja nýjum álverum á Suður- og Suðvesturlandi orku.

Suðurlindir og orkan í Krþsuvík – (þar tapar Norðurál um 115 MW)
Markmið Suðurlinda er: „að standa vörð um sameiginlega hagsmuni sveitarfélaganna og íbúa þeirra varðandi náttúruauðlindir í landi sveitarfélaganna við Trölladyngju, Sandfell og í Krísuvík m.a. mögulega nýtingu jarðvarma og eignar- og nýtingarrétt hvers sveitarfélags fyrir sig.“  Sjá heimild.
Áætlanir Norðuráls ganga út frá því að u.þ.b. 115 MW fáist úr landi Suðurlinda. Rannsóknir í Trölladyngju og Sandfelli benda til þess að orkuvinnslugeta svæðanna sé undir væntingum og yrði svigrúm til anarrar uppbyggingar mjög takmarkað gangi áformin eftir.
Við stofnun félagsins sagði Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík m.a: „Við erum ekki að leggja stein í götu álvers í Helguvík [...] en í ljósi þessara breyttu aðstæðna þá segjum við: Orkan verður nýtt í Grindavík. Ég reikna með því að Hitaveitan geti fengið orku annarsstaðar til þess að selja í álver.“ Sjá heimild.
Við sama tilefni svarar Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum, því játandi að Vogar hafi í hyggju að bjóða Keilisnesið til frekari atvinnuuppbyggingar, svæðið sé frábærlega vel staðsett. Sjá heimild.

Skilyrði sveitarfélaga í skipulagsmálum – þar tapar Norðurál
Til þess að áform Norðuráls um orkuflutninga geti náð fram að ganga þurfa níu sveitarfélög að breyta skipulagsáætlunum sínum. Víða er rík andstaða við þá háspennulínuvæðingu sem til þarf og ljóst að skipulagsbreytingarnar verða torsóttar. Hæpið er að öll þessi sveitarfélög muni láta undan þrýstingi gegn vilja fjölmargra íbúa.
Birt:
26. febrúar 2008
Höfundur:
Bergur Sigurðsson
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Bergur Sigurðsson „Norðurál stenst ekki fyrirvara forsætisráðherra“, Náttúran.is: 26. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/26/noroural-stenst-ekki-fyrirvara-forsaetisraoherra/ [Skoðað:27. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: