Samfélagsleg ábyrgð verður sífellt mikilvægari þáttur í starfsemi fyrirtækja. Samfélagsábyrgð fyrirtækja tekur til umhverfis-, efnahags- og samfélagsþátta og felst í því að starfshættir og auðlindir fyrirtækisins séu einnig nýttar til hagsældar fyrir samfélagið sem það starfar í.

GRI Index er alþjóðlegur staðall sjálfbærnivísa á vegum Global Reporting Initiative sem auðveldar fyrirtækjum að miðla upplýsingum um starf sitt á sviði samfélagslegrar ábyrgðar með trúverðugum hætti, þar sem skilgreint er hvaða atriði og áherslur skipta mestu máli í slíku starfi og æskilegt er að miðla. Auk þess eru GRI viðmiðin góður leiðarvísir til hliðsjónar við uppbyggingu sjálfbærnistarfs fyrirtækja. Lykiláherslur GRI eru gagnsæi, áreiðanleiki, kynning og sjálfbærni. Yfir 1000 fyrirtæki nota GRI-viðmiðin í dag, algengust eru stór og meðalstór fyrirtæki. Hægt er vinna með GRI viðmiðin í áföngum og ganga smám saman lengra varðandi miðlun upplýsinga. Hægt er að velja um nokkur stig varðandi umfang upplýsinga og mismunandi stig vottunar.

Mikilvægt er að líta á samfélagsábyrgð fyrirtækisins sem langferð sem smám saman skilar sér í bættri frammistöðu, trúverðugleika, ímynd og þar af leiðandi bættri samkeppnisstöðu. Mestum árangri er náð ef gefinn er góður tími, þá verður starfið vel skipulagt og árangursríkt.

Greina má ákveðna þróun í samfélaglegri ábyrgð fyrirtækja undanfarin misseri. Sé horft út fyrir landsteinana kemur í ljós að:

  • Fjárfestar gera auknar kröfur um frammistöðu fyrirtækja í sjálfbærnimálum
  • Fyrirtækjum fjölgar sem nýta sér GRI-viðmiðin
  • Tengsl og samræður við hagsmunaaðila hafa aukist
  • Umræðan um loftslagsbreytingar hefur haft áhrif á starf fyrirtækja. Til dæmis hafa 7 af hverjum 10 fyrirtækjum í Svíþjóð aukið umhverfisstarf sitt síðasta árið, sem rekja má til aukins þunga í umræðum um loftslagsmál.
  • Fleiri fyrirtæki gera grein fyrir sjálfbærnistarfi sínu sem hluta af ársskýrslum, til dæmis hefur sænska ríkisstjórnin skyldað allar ríkisstofnanir til að fylgja GRI-viðmiðum við ársuppgjör.
  • Gerð er krafa um að upplýsingar um samfélagsábyrgð sé á tungumáli viðskiptafræðinnar

Hér á Íslandi hefur umræða aukist um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Á vordögum var stofnuð miðstöð Íslands um samfélagsábyrgð fyrirtækja sem hþst er hjá HR. Mjög fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þessa málaflokks á Íslandi á næstunni.

Sjá nánar um GRI á www.globalreporting.org og um nýstofnaða miðstöð samfélagsábyrgðar fyrirtækja Eþíkos.
Alta veitir alhliða aðstoð við að greina tækifærin og innleiða samfélagslega ábyrgð í rekstur, sjá m.a. um þjónustu Alta hér.

Birt:
12. ágúst 2008
Höfundur:
Alta
Uppruni:
Alta
Tilvitnun:
Alta „Samfélagsleg ábyrgð og GRI sjálfbærnisvísar“, Náttúran.is: 12. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/12/samfelagsleg-abyrgo-og-gri-sjalfbaernisvisar/ [Skoðað:3. maí 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: