Það er víst í eðli okkar manna, að trúa helst því, sem við viljum að sé satt, enda þótt okkur sé ljóst, að það þurfi alls ekki að vera satt, og gæti allt eins verið uppspuni. Þetta er oft tengt hagsmunum okkar eða heimsmynd eða kannski einhverri óljósri hugmynd, sem okkur finnst líklegri til að vera sönn en aðrar, eða kannski bara vegna þess að einhver góður og gegn vinur hefur staðhæft þetta. Við stöndum samt föst fyrir. Og það þarf heldur ekki að vera nein illgirni eða hatur að baki, þegar við erum tilbúin til að verja staðhæfinguna með kjafti og klóm og leggja heiður okkar að veði.

Fyrir meir en ári síðan var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi um að takmarka útiræktun erfðabreyttra lifvera (EBL). Tillagan vakti afar hörð viðbrögð hagsmunaaðila að ræktun erfðabreytts byggs utandyra, sem sendu tafarlaust frá sér hortugt skammarbréf til Alþingis, þar sem mjög var hneykslast yfir kunnáttuleysi Alþingismanna og séfræðinga þeirra, og því haldið fram, að erfðabreytt bygg væri með öllu hættulaust íslensku lífríki og gæti með engu móti smitað frá sér.

Í bréfinu voru ýmsar rökvillur og rangfærslur, og virtist það helst til þess ætlað að hræða Alþingismenn til hlýðni! Þetta virtist bera árangur, því lítið bar á umræðu um málið. Og þegar auk þess varð ljóst, að Háskóli Íslands var hagsmunaaðili, með umfangsmikla samvinnu við aðra hagsmunaaðila málsins í nýsköpun og rannsóknum, og talsmenn þessarar stofnunar lögðust á sveif með gagnrýnendum Alþingismannanna, var málið greinilega útkljáð. Síðan hefur ekki verið ymprað á því á þingi. Hálfu ári síðar afhenti hinsvegar sjálfur forsætisráðherra rektor Háskóla Íslands fjórtán hundruð miljónir króna, eyrnamerktar nýsköpun og rannsóknum.

Það korn, sem var kjarni málsins, er byggtegundin Golden Promise (ísl: Gullið loforð), sem er einkum fræg fyrir það, að fyrir meir en hálfri öld síðan varð hún ein sú fyrsta allra lífvera til þess að vera erfðabreytt og nýsköpuð á tilraunastofu með gammageislun. Frægð þessarar EBL hefur verið haldið á lofti af viskýframleiðendum, sem þykir hún einkar vel til þeirrar gerðar fallin. Hérlendis, þar sem viskýframleiðsla er engin, hefur ágæti hennar verið tíundað til kornræktar á Suðurlandi, en þaðan hefur hún farið beint í byggbrauðið okkar góða. Ekki fara sögur af því, hvort neinum hafi orðið meint af neyslu brauðsins, en það er gjörólíkt því, sem fregnast hefur af neyslu erfðabreytts maís í Mexíkó, BNA og fleiri stöðum, þar sem alvarleg heilsuvandamál hafa verið rakin til neyslu slíks korns.

Vandamálið hérlendis er, að nýskaparar hafa nú potað inn í þetta bygg varanlegu mannlegu erfðaefni, sem undir eðlilegum aðstæðum stjórnar sérstakri hormónaframleiðslu hjá okkur. Þetta gerir það að verkum, að byggplantan fer að framleiða hormónið upp á eigin spýtur, og safnast það þá upp í plöntunni, en er svo sogið út úr henni og sett í fegrunarlyf, sem smurt er á húð kvenna. Sala þannig smyrlsa gefur góðan hagnað.

Þetta bygg (tvíbreytt EBL) lítur nákvæmlega eins út og annað bygg af tegundinni Golden Promise (einbreytt EBL), en engar sögur fara af bragðbreytingum og mögulegum slæmum heilsuverkunum á neytendur. Ástæðan er líklega, að nýskapararnir telja það fyrir utan sinn verkahring að rannsaka slíkt, enda kostar það peninga og tíma og smættar gróða, og gæti það auk þess komið slæmu orði á afurðina, ef óæskilegar niðurstöður fengjust. Þessi möguleiki er e.t.v. skýringin á skömmum og ólátum nýskapara, sem við þurfum þá í sjálfu sér ekki að furða okkur á. Þöggun Alþingismanna er hinsvegar mun ískyggilegra vandamál.

Nýskapararnir hafa gert það heyrum kunnugt, að engin hætta stafi af útiræktun EBL fyrir lífríki Íslands og heislu almennings, en þeir þegja um niðurstöður rannsókna og senda frá sér vafasamar yfirlýsingar. Þeir hafa tilkynnt opinberlega, að þótt heilu gróðurhúsin með EBL splundrist í ofviðri og efniviðurinn dreifist út um allt, þá húki EBL þægt og hljótt á sínum stað og dreifist ekki. Getur það verið að yfirvöld trúi þessu? Þeir þegja um niðurstöður erlendra rannsókna, sem hafa sýnt fram á að EBL dreifist með vindi, vatni, fuglum og öðrum dýrum, og að erfðaefni úr EB plöntum hafi t.d. borist með lækjum og áveituskurðum marga kílómetra frá þeim ökrum, sem þeim var ætlað að halda sig á. Oft eru EBL akrarnir við hlið óbreyttra akra. Og svo má lengi telja. En ekkert er rætt og ekkert gerist í þessum málum fyrir tilstuðlan yfirvalda.

Það er ekki nóg með það, að umræða um takmörkun útiræktunar EBL hafi þagnað á Alþingi, heldur hefur líka reglum um merkingu matvæla með tilliti til erfðabreytinga, eiturefna o.s.frv., sem þó hafa verið samþykktar á Alþingi, ekki verið framfylgt, heldur seinkað um óákveðinn tíma af tillitssemi við frumkvöðla. Þar með er hægt að lauma hvaða óþverra sem er í matinn okkar án þess að við vitum um það, en upp hefur komist um fjölmörg þannig tilfelli hér á landi nýlega (t.d. PCB úr sorpi í lofti og á jörð, kadmíum á beitarlandi dýra og iðnaðarsalt í mat manna). Nýjar erlendar niðursöður benda til þess, að plöntueituraeitur (Roundup), sem einnig er notað við matvælarækt hérlendis, geti valdið göllum og afmyndun á börnum barnshafandi mæðra, sem neyta þannig matvæla. Yfirvöld láta hinsvegar öll mótmæli sem vind um eyrum þjóta: Kannski er það ekki þöggun, sem við erum vitni að hér, heldur heyrnarleysi valdamanna? Er þetta þá meðfæddur galli, eða er hann áunninn?

Grafík: Guðrún A. Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.

Birt:
16. maí 2012
Tilvitnun:
Valdimar Briem, dr. phil. „Gullin loforð - glæstar vonir“, Náttúran.is: 16. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/04/20// [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. apríl 2012
breytt: 16. maí 2012

Skilaboð: