Græn málefni verða í brennidepli á opnum fundi umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar í  Ráðhússinu kl. 16.00 þriðjudaginn 12. apríl: Leiksvæðastefna fyrir Reykjavík, 50. ára afmæli Grasagarðs Reykjavíkur og gott mannlíf í miðborginni.
Stólum verður raðað upp í Tjarnarsal Ráðhússins fyrir gesti og geta borgarbúar varpað fram spurningum um efni á dagskrá fundar. „Þetta verður skemmtilegur fundur með flottum kynningum á málum sem allir ættu að hafa gaman af að fræðast um,“ segir Karl Sigurðsson formaður ráðsins og hvetur fólk til að koma á fundinn.

Grasagarður Reykjavíkur var stofnaður 18. ágúst 1961 en þann dag gáfu hjónin Jón Sigurðsson skólastjóri Laugarnesskóla og Katrín Viðar píanókennari safn sitt með 200 íslenskum plöntum sem þau höfðu safnað víðs vegar um landið. Í garðinum eru nú varðveittar um 5000 tegundir plantna í átta safndeildum.

Á fundinum verður einnig sagt frá áherslum við mótun nýrrar leiksvæðastefnu fyrir borgina, þar sem horft er til fjölbreytileika og heildarmyndar í hverfum borgarinnar. Loks verður greint frá áherslum borgarinnar á göngugötur, torg og mannlíf í miðborginni og hvað gert verði í þeim efnum í sumar. Allir velkomnir!

Dagskrá 79. fundar umhverfis- og samgönguráðs

Fulltrúar í umhverfis- og samgönguráði.

Birt:
11. apríl 2011
Tilvitnun:
Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkur „Borgarbúar velkomnir á opinn fund umhverfis- og samgönguráðs “, Náttúran.is: 11. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/11/borgarbuar-velkomnir-opinn-fund-umhverfis-og-samgo/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: