Álver í Helguvík mun losa mörg hundruð þúsund tonn af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið á ári hverju. Ekki er hægt að hreinsa gróðurhúsalofttegundir úr útblæstrinum og mun þessi losun því verða staðreynd um ókomin ár. Þannig mun álverið hafa gífurleg áhrif á andrúmsloft jarðarinnar og vera ein af þeim stóru punktuppsprettum sem hafa áhrif á mengun lofthjúpsins.

Dr. James Hansen yfiraaður NASA Goddard Space Institute og einn fremsti loftslagsvísindamaður heims segir að vísindamenn heimsins hafi haft tilhneigingu til að gera alltof lítið úr loftslagsbreytingum til þessa vegna þess að þeir fái frekar fjármagn til rannsókna ef þeir séu hófsamir í yfirlýsingum sínum. Hansen telur að spár Loftslagsnefndar Sameinuðu Þjóðanna IPCC, séu alltof varfærnar, en nefndin gerir ráð fyrir því að sjávarstaða hækki um mest 59 cm á 21.öldinni vegna hlýnunar jarðar og bráðnunar m.a. Grænlandsjökuls.

Hansen bendir hins vegar á að á plíó-pleistósen tímabilinu hafi jörðin einungis verið með um 2-3°C hærri meðalhita en nú er. Magn CO2 í andrúmsloftinu hafi verið á bilinu 350 – 450 ppm en sjávarstaða hafi hins vegar verið 25 +- 10 m hærri en hún er í dag. Hansen bendir á að fari magn CO2 í andrúmslofti jarðar aftur upp í 450 ppm sem allt stefnir í, þá sé ekki hægt að útiloka þann möguleika að sjávarstaða hækki aftur um 25 +- 10 m.

Sé þetta rétt hjá James Hansen og þegar haft er í huga að Flóahreppur liggur að meðaltali í um 10-15 m yfir núverandi sjávarmáli, er ljóst að geigvænleg losun álversins í Helguvík á gróðurhúsalofttegundum mun beinlínis stuðla að því að koma Flóahreppi undir sjávarmál fari magn CO2 upp í 450 ppm sem er mjög líklegt að gerist um miðbik eða á seinni hluta þessarar aldar.  Að sjálfsögðu munu öll starfandi álver á Íslandi leggja sitt af mörkum, en álverið í Helguvík mun verða með stærstu losendum hér á landi og jafnvel flokkast sem stór punktuppspretta á heimsvísu.

Sól á Suðurlandi telur því að hér sé verið að fórna miklum framtíðarhagsmunum fyrir skammtímagróða og mótmælir því fyrir hönd íbúa Flóahrepps að stuðlað sé að því að koma blómlegum landbúnaðarhéruðum Íslands beinlínis undir sjávarmál. Varðandi nánari rökstuðning er vísað í meðfylgjandi vísindagreinar eftir James Hansen et.al.

Algjörlega er hafnað þeim röksemdum að betra sé að framleiða ál á Íslandi með vatnsafli, en erlendis með kjarnorku. Ekki hefur verið sýnt fram á með óyggjandi rökum, að heiminn vanti meira ál, og mikil sóknarfæri væru í endurvinnslu áldósa, ef vilji væri fyrir hendi. Endurvinnsla áls þarf í þessu sambandi aðeins um 5% þeirrar orku sem þarf til frumframleiðslu. Þeim rökum að heiminn skorti ál, er því alfarið hafnað.
Birt:
20. mars 2009
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Flóahreppi fórnað? - Álver í Helguvík hækkar yfirborð hafsins“, Náttúran.is: 20. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/20/floahreppi-fornao-alver-i-helguvik-haekkar-yfirbor/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. mars 2009

Skilaboð: