Umhverfismál er málaflokkur sem okkur öllum kemur við. Mikið hefur verið rætt um díoxin-mengunina bæði frá sorpbrennslustöðinni Funa og frá öðrum sorpbrennslustöðvum undanfarið og vonandi er sú umræða ekki búin. Hér hefur nefnilega enn eitt umhverfisslysið átt sér stað, og það með vitund mjög margra aðila, aðallega sveitarstjórnarmanna og heilbrigðisfulltrúum sveitarfélaga. Það hlýtur að vera mjög alvarlegt mál þegar fólk vísvitandi er að menga fyrir samferðafólki sínu. Öllu alvarlegra er að það skuli aldrei vera tekið á þessum málum af neinni festu.

Íslendingar eru mjög aftarlega á merinni þegar kemur að endurvinnslu og sjálfbærni og hvatinn er svo lítill til að „vera umhverfisvænn“. Þegar ég kaupi mér eitthvað sem ég þarfnast á ég þann hlut. Ef ég hef ekki lengur þörf fyrir hlutinn þá vil ég selja hann aftur til endurvinnslu. Hver á að kaupa hann af mér? Umhverfisverndarsjóður Íslands. Hlutverk hans er að sjá til þess að allt sem er notað til daglegrar notkunar fari í endurvinnslu og þannig verður stuðlað að bættri sjálfbærni.

Hvernig á að fjármagna þennan sjóð. Til að byrja með ætti hann að fá 1-2% af virðisaukanum sem er á nánast öllum hlutum. Þessi sjóður styður svo við sveitarfélögin sem öll vilja núna verða sjálfbær samfélög. Þessi ráðstöfun á 1-2% af virðisaukanum gæti skapað fjölda manns atvinnu við að flokka sorp, útbúa moltugerð, fegra landið sitt, bæta ímynd landsins, auka gæði jarðarinnar o.s.frv. Í stað þess að borga til sveitarfélagsins fyrir það að losna við það sem ég ekki lengur þarf á að halda, ætti ég að fá borgað fyrir það að vilja vera sjálfbær og „umhverfisvænn“ samborgari. Ég tek þannig þátt í því að bæta ímynd landsins, ég rækta skyldu mína gagnvart jörðinni („think globally – act locally“) og ég gef komandi kynslóðum betra umhverfi.

Núna er kjörið tækifæri til að endurnýta allt og innleiða sjálfbærni á öllu landinu, komandi kynslóðir munu meta það sem bestu gjöfina sína frá okkur. Nýlega var frétt um það að strendur landsins væru að sögn „tiltölulega hreinar“ og ekki væri þörf að aðhafast neitt sérstaklega vegna mengunar af völdum ruslsins sem á strendurnar rekur. Enn og aftur vitlaust tekið á málum.

 

Greinarhöfundur hefur barist fyrir hreinsunarverkefnum, m.a. að hreinsa strendur landsins og hefur hreinsað hundruð tonna af rusli á Reykjanesinu einu sér og nóg eftir. Svo segir einhver spekingur að þetta sé ekkert vandamál. Ef ég tæki mig nú til og sneri svona athugasemdum við. Skrifaði t.d. greinar í erlend tímarit, fengi blaðamenn og umhverfisverndarsinna til landsins og sýndi þeim hvernig við Íslendingar hugsuðum í raun og veru um landið okkar. Ég gæti sýnt þeim hvar Funi væri og að það væri búið að senda mengað kjöt til útlanda frá nærliggjandi sveitabæ. Ég gæti sýnt þeim hvar skólabörn á Klaustri leika sér innan um eiturskýin frá sorpbrennslu bæjarins, ég gæti sýnt þeim myndir af rafgeymum á hafsbotni, fleiri hundruð í öllum höfnum landsins, ég gæti sýnt þeim hvernig almenningur hendir rusli út um bílrúður á rúntinum, hvernig landinn fer krókaleiðir fram hjá móttökustöðum sorps og hendir rusli á almannafæri, sýnt þeim skýrslur um saurgerlamengun í Faxaflóanum og víðar (hreint haf – hagur Íslands) og svona get ég talið upp endalaus umhverfisslys út um allt land, svo ekki sé minnst á fráveitumálin okkar. Ef það væri hins vegar hvatning til að vera „umhverfisvænn“ væri staðan allt öðruvísi. Allir tækju þátt í því að vera boðberar nýrrar ímyndar okkar í umhverfismálum. Verkefnið Hreint land – Fagurt land yrði endurræst, allir sem vildu fara út í náttúruna að þrífa rusl fengju úthlutuð svæði, allir sem vildu leggja það á sig að vera „umhverfisvænir“ gætu tekið þátt og þannig gætum við snúið ómynd Íslands í umhverfismálum við í bættari ímynd landsins í umhverfismálum á skömmum tíma. Auðvitað yrði þetta svo auglýst sem hreinasta land í heimi og allt það bla bla bla. Þangað til höfum við ekki efni á því að opna kjaftinn á okkur og monta okkur af því að við séum með hreinasta loftið, hafið, vatnið, landið, náttúru o.s.fr.

Þegar öllu er á botninn hvolft erum við með buxurnar á hælunum á svo mörgum sviðum í umhverfismálum að það yrði algjör skandall og við yrðum að athlægi út um allan heim ef hingað kæmu aðilar sem vildu sýna umheiminum hvernig við blekkjum allt og alla í okkar umhverfismálum. Það myndi enginn kaupa okkar kjötafurðir af því að þær væru mengaðar, fiskurinn okkar synti innan um eintóma rafgeyma, skólabörnin okkar lékju sér innan um svifryksmengun frá nagladekkjum, dioxini o.s.frv.

Snúum blaðinu við

Háttvirtur umhverfisráðherra, virkjaðu þá sem geta, vilja og þora í þetta verkefni, vertu hugrökk og snúðu þér að því sem við ættum að hafa gert fyrir áratugum en umhverfismálin voru og eru svo léttvægur málaflokkur að það tekur því ekki að vera að rífa sig neitt. Ef við viljum láta sem þetta sé eitthvað léttvægt þá skulum við bara byrja á morgun að auglýsa ástandið eins og það er. Ekki vildi ég vera sá sem fyrstur embættismanna tók við skýrslunni um mengunina frá Funa. Kæra þjóð, tökum okkur tak og snúum menguninni við til að bjarga okkur.

Höfundur er kafari og er formaður Bláa hersins .

Ljósmynd: Hreinsun Bláa hersins í fjörunni við Seltanga

Birt:
27. febrúar 2011
Höfundur:
Tómas J. Knútsson
Tilvitnun:
Tómas J. Knútsson „Vitlaust gefið í umhverfismálum“, Náttúran.is: 27. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/27/vitlaust-gefid-i-umhverfismalum/ [Skoðað:17. maí 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. mars 2011

Skilaboð: