Tímamótasamkomulag í loftslagsmálum náðist í kvöld á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París. Samningurinn var samþykktur einróma, með atkvæðum 195 þjóða, laust fyrir klukkan hálf sjö að íslenskum tíma. Mikil fagnaðarlæti brutust út í fundarsalnum þegar ljóst var að samkomulagið væri í höfn. Fulltrúar margra þjóða táruðust af gleði yfir því að samkomulag hefði náðst.

Það var Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, sem lýsti því yfir að loftslagssamningurinn hefði verið samþykktur samhljóða. - Ég lít yfir salinn og sé að allir eru jákvæðir, enginn virðist ætla að hreyfa andmælum, sagði Fabius og barði með hamri sínum í borðið til marks um að allir væru nýja samningnum samþykkir.

  • Fyrsta samkomulag um aðgerðir allra ríkja til að draga úr losun
  • Tryggja á að hlýnun verði innan við 2°C og reynt verði að halda henni innan við 1,5°C
  • Regluleg eftirfylgni og uppfærsla landsmarkmiða á 5 ára fresti
  • 100 milljarðar dollara á ári í loftslagsaðstoð til þróunarríkja
  • Íslenskir ráðamenn fagna „sögulegu samkomulagi“

Nýtt samkomulag í loftslagsmálum náðist í París í dag og var samþykkt með lófataki. Í samkomulaginu er í fyrsta sinn kveðið á um að öll ríki skuli bregðast við til þess að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og tryggja umtalsvert fjármagn til grænna lausna og aðstoð við ríki sem verða verst úti í breytingum. 

Parísarsamkomulagið er sérstakt lagalega bindandi samkomulag undir Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og er stefnt að formlegri undirritun þess í apríl á næsta ári. Það nær til aðgerða ríkja eftir 2020, en þá lýkur tímabili skuldbindinga ríkja í Kýótó-bókuninni. Innan við 15% af losun gróðurhúsalofttegunda er nú undir reglum Kýótó. Með hliðsjón af hinu nýja samkomulagi hafa nær öll ríki heims, með losun samtals vel yfir 90% af heimslosun, sent inn markmið sem verða hluti af Parísarsamkomulaginu..

"Ég fagna því að náðst hefur sögulegt og metnaðarfullt samkomulag í loftslagsmálum á Parísarfundinum og við munum leggja okkar af mörkum bæði hér heima og við að miðla þekkingu okkar og reynslu til annara þjóða", segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.

„Við höfum orðið vitni að metnaðarfullu samkomulagi þennan dag 12/12, þar sem ákvarðanir hafa verið teknar um nýtt upphaf, nýja heimsmynd,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Þetta eru skilaboð um breytta hegðun ríkja og einstaklinga, sem er möguleg vegna nýrrar tækni sem á eftir að þróast áfram í framtíðinni. Ég sagði áður en ég fór til Parísar að ég ætlaði að læra af öðrum - sjá og nema það sem hæst bæri í loftslagsmálum og það gekk svo sannarlega eftir. Það var ógleymanlegt að skynja þá miklu hugarfarsbreytingu sem er að verða á öllum vígstöðvum; hjá stjórnvöldum, atvinnulífi og einstaklingum og taka þátt í gerð þessa tímamótasamnings sem verður án efa til hagsbóta fyrir mannkynið. Ísland setti sig í flokk ríkja sem vildu ná háu metnaðarstigi á lokaspretti samningsins og þær áherslur sem þar voru settar fram náðust inn. Þetta sýnir að það skiptir engu hvort ríki eru stór eða smá - við erum öll undir sama þakinu.“

„Það er mikið fagnaðarefni að samkomulag hafi náðst og nú skiptir verulegu máli að efndir fylgi orðum," segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. „Parísarsamkomulagið er varða á lengri leið. Þá var einkar ánægjulegt að verða vitni að þeirri vitundarvakningu sem er að verða um þau mál sem Ísland hefur sett á oddinn; um viðtæk áhrif loftslagshlýnunar á norðurslóðum og nauðsyn þess að efla hlut endurnýjanlegrar orku til að draga úr útblæstri. Við fundum það vel í París að ríki, fyrirtæki og almenningur um allan heim eru að vakna til vitundar um að aðgerða er þörf og horfa m.a. til þeirra þátta sem við höfum talað fyrir.“

Helstu atriði í Parísarsamkomulaginu

Parísarsamkomulagið og tengdar ákvarðanir 21. aðildarríkjaþings Loftslagssamnings S.þ. ná yfir alla helstu þætti sem hafa verið til umfjöllunar í loftslagsmálum á undanförnum áratugum: Aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti; bókhald yfir losun og kolefnisbindingu; aðlögun að loftslagsbreytingum; stuðning við þróunarríki til að nýta græna tækni og bregðast við afleiðingum breytinga; og fjármögnun aðgerða.

Samkomulagið hefur aðra nálgun en í Kýótó-bókuninni, þar sem kveðið er á um tölulega losun einstakra ríkja í texta bókunarinnar sjálfrar og sett á eins konar kvótakerfi, þar sem m.a. er heimilt að versla með heimildir. Um 190 ríki sendu sjálfviljug inn markmið sín varðandi losun fyrir Parísarfundinn sem vísað er til í samkomulaginu. Ná markmiðin yfir um 90% af heimslosun.

Nokkur helstu atriði í samkomulaginu eru:

  • Sett er markmið um að halda hlýnun lofthjúpsins vel innan við 2°C og jafnframt verður reynt að halda hlýnuninni innan við 1,5°C;
  • Losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu skal ná hámarki „eins fljótt og auðið er“ og minnka síðan þannig að losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum nái jafnvægi við upptöku kolefnis úr andrúmsloftinu á síðari helmingi aldarinnar; tekið er fram að þróunarríki fái meira svigrúm en önnur að þessu leyti;
  • Fara skal yfir stöðu mála á 5 ára fresti og í kjölfar þess skulu ríki senda inn endurnýjuð landsmarkmið; ný markmið eiga að vera eins metnaðarfull og viðkomandi ríki telur sig geta náð og alla jafna metnaðarfyllri en fyrri markmið í ljósi leiðsagnar vísindanna;
  • Lofað er að fjármögnun loftslagsmála til þróunarríkja nái 100 milljörðum dollara árið 2020 og að hún haldi áfram eftir 2020 og minnki ekki eftir það;
  • Settar eru fram kröfur um bókhald yfir nettólosun ríkja; ítarlegar kröfur eru nú um slíkt bókhald í Kýótó-bókuninni varðandi þróuð ríki. Í Parísarsamkomulaginu er gerð krafa um bókhald fyrir öll ríki, þótt kröfur á þróunarríki séu vægari;
  • Viðurkennt er að bregðast þurfi við skaða sem fátæk ríki verða fyrir vegna neikvæðra áhrifa loftslagsbreytinga, bæði við að draga úr líkum á skaða og bregðast við tjóni sem verður.

Í lokalotu viðræðnanna var einkum tekist á um þrjú atriði: Metnaðarstig og eftirfylgni markmiða ríkja; sanngjarna ábyrgðarskiptingu þróaðra ríkja og þróunarlanda; og fjármögnun aðgerða og stuðning við þróunarríki. Ísland gekk til liðs við hóp ríkja sem vildi tryggja hátt metnaðarstig í samningnum og voru sett fram nokkur atriði þar, sem öll náðu fram. Almennt eru menn sammála um að ríkur vilji hafi verið til að ná samkomulagi á Parísarfundinum. Þetta endurspeglaðist meðal annars skýrt í ræðum 150 þjóðarleiðtoga í upphafi fundarins. Frakkar fá einróma hrós fyrir gott skipulag og stjórn viðræðna, sem hafi átt sinn þátt í að samkomulag náðist nú.  

Birt:
12. desember 2015
Höfundur:
Ríkisútvarpið
Uppruni:
Rúv
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Loftslagssamningur samþykktur með klappi“, Náttúran.is: 12. desember 2015 URL: http://nature.is/d/2015/12/12/loftslagssamningur-samthykktur-med-klappi/ [Skoðað:19. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: