Markmið: Samhæfing, auka líkamlegt þrek, efla félagsþroska, skapa tilbreytingu.

Aldursmörk: Frá 8 ára.

Gögn: Bolti, fjórar keilur og gjörð.

Leiklýsing: Þátttakendur þurfa að vera tíu eða fleiri.

Leikurinn fer fram í sal eða á opnu svæði utanhúss. Stærð vallarins fer eftir aldri og fjölda þátttakenda. Á völlinn eru settar fjórar borgir sem mynda ferhyrning. Skipt er í tvö lið, A og B, og skipaður kóngur fyrir hvort lið. Lið A, inniliðið, stillir sér upp í röð fyrir aftan strik sem er á endalínu vallarins. Síðan reyna liðsmenn þess að sparka knettinum þangað sem lið B, útiliðið, á erfiðast með að ná í hann. Eftir að hafa sparkað knettinum reynir leikmaðurinn að hlaupa eins langt og hann kemst áður en lið B hefur náð knettinum og komið honum til kóngsins og hann sett knöttinn í pottinn sem er staðsettur við endalínu. Ef leikmaðurinn sem hleypur sér að hann kemst ekki allan hringinn í einu, getur hann farið í borg og beðið þangað til sá næsti sparkar og komist þannig heilan hring. Ef hann kemst hringinn í einum spretti fær liðið þrjú stig, en bara eitt ef hann þarf að stöðva í borg. Lið B, útiliðið, reynir að grípa knöttinn áður en hann lendir í jörðinni og ef það tekst þarf sá sem sparkaði að fara aftast í röðina. Takist ekki að grípa knöttinn reynir liðið sem allra fyrst að koma boltanum til kóngsins sem setur hann í pottinn.

Bæði liðin fá jafn langan tíma fyrir hvort hlutverk og það lið vinnur sem fær fleiri stig. Mjög gott er að hafa einn dómara sem sker úr um vafaatriði og hefur stjórn á talningunni.

Birt:
25. maí 2014
Tilvitnun:
Hlynur Svan Eiríksson, Guðlaugur Baldursson „Sparkó“, Náttúran.is: 25. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/25/sparko/ [Skoðað:14. maí 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. ágúst 2014

Skilaboð: