Eðli svefns manna og dýra er ennþá ráðgáta sem vísindin glíma við að leysa. Rannsóknir vísindamanna á svefnvenjum í dýraríkinu eru farnar að leiða ýmislegt nýtt í ljós.
Kóalabirnir sofa t.d. mjög mikið eða að meðaltali 14,5 klst. á sólarhring. Hins vegar sofa litlu brúnu leðurblökurnar mest allra dýra eða í um 20 klst. af 24.
Þau dýr sem þurfa á minnstum svefni að halda eru stórir grasbítar. Þannig þurfa fílar og gíraffar einungis að sofa um 3 – 4 klst. á hverri nóttu.

Ef ljón telja sig vera örugg t.d. í dýragarði þá hefur komið í ljós að þau sofa meira. En þar sem kattardýr eru sífellt á verði og sofa laust, þá sofa ljónin minna í náttúrulegu umhverfi sínu þar sem hætta getur skyndilega steðjað að.
Rannsóknir vísindamanna benda einnig til þess að hvalir geti haft draumfarir og upplifað svokallaðan REM svefn, jafnvel þótt draumarnir standi ekki lengi í einu.

Albatrosfuglar hafa verið sagðir sofa á flugi, en það er víst ekki rétt. Þeir setjast hins vegar á hafflötinn og fá sér kríu nokkrar klukkustundir á hverri nóttu á milli þess sem þeir fljúga hundruðir kílómetra.
Þannig eru sífellt að safnast meiri upplýsingar um það hvernig hinar mismunandi dýrategundir sofa og víst er að allir, bæði dýr og menn sofa með sínu nefi og á sinn einstaka hátt.

Þýtt og endursagt af Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur úr greininni Busting the myths of animal sleep af Nature.

Ljósmynd: Fresskötturinn Flóki Steinn sefur vært. Ljósmyndari: Móna Róbertsdóttir Becker.

Birt:
9. mars 2014
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Vísindamenn komast að nýjum niðurstöðum um svefnvenjur í dýraríkinu“, Náttúran.is: 9. mars 2014 URL: http://nature.is/d/2014/03/09/visindamenn-komast-ad-nyjum-nidurstodum-um-svefnve/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: