Ný verkefnisstjórn rammaáætlunar skipuð
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur skipað verkefnastjórn rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða. Verkefnisstjórn er skipuð til fjögurra ára í senn og skal að fengnum niðurstöðum faghópa, samráði við haghafa og umsagnar almennings vinna drög að rökstuddum tillögum til ráðherra um flokkun virkjunarhugmynda og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða. Rammaáætlun er meðal þeirra verkefna sem fluttust til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við breytingar á Stjórnarráðinu 1. september 2012.
Sem kunnugt er var rammaáætlun um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða samþykkt á Alþingi í janúar sl. en hún byggði á viðamiklu starfi fyrri verkefnisstjórnar og faghópa. Samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun sem Alþingi samþykkti 2011 skal ráðherra skipa verkefnisstjórn til fjögurra ára í senn sem er honum til ráðgjafar við undirbúning að gerð tillagna fyrir rammaáætlun. Er markmið laganna að tryggja að nýting landsvæða þar sem möguleikar eru á orkuvinnslu byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Verkefnisstjórn skal fjalla um virkjunarhugmyndir og landsvæði í biðflokki rammaáætlunar og svæði sem ekki hafa verið áður til umfjöllunar, en getur einnig endurmetið virkjunarhugmyndir og landsvæði gildandi áætlunar. Á vegum verkefnisstjórnar starfa faghópar með sérfræðingum á viðeigandi sviðum sem fara yfir þessi svæði en niðurstöður faghópanna verða til grundvallar tillagna verkefnisstjórnar til ráðherra um flokkun virkjunarhugmynda og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða.
Verkefnisstjórn er ætlað að líta sérstaklega til ábendinga sem komu fram við vinnu fyrri áfanga rammaáætlunar, sem voru teknar saman í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar við afgreiðslu fyrstu rammaáætlunarinnar. Sérstaklega skal skoða nýtingu jarðhita m.t.t. sjálfbærni orkuvinnslunnar, áhrif nýtingar á grunnvatn, mengun lofts af völdum brennisteinsvetnis og annarra lofttegunda, hugsanleg áhrif á lýðheilsu og jarðskjálftavirkni í tengslum við niðurdælingu og nýtingarhlutfall jarðvarma til raforkuframleiðslu. Þá er verkefnisstjórn ætlað að afla gagna og meta hagsmuni annars konar nýtingar en til orkuframleiðslu.
Lögð er sérstök áhersla á að verkefnisstjórnin starfi með þeim hætti að tryggt sé að almenningur hafi virka aðkomu og félagasamtök taki þátt í öllu starfi í tengslum við rammaáætlun.
Verkefnisstjórn er ætlað að skila tillögum sínum til ráðherra innan fjögurra ára. Hún er skipuð sex fulltrúum og jafnmörgum til vara:
Skipuð án tilnefningar:
- Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, formaður
- Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, skipulagsfræðingur, varamaður formanns
- Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor
- Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, til vara
Tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti:
- Helga Barðadóttir, sérfræðingur, aðalfulltrúi
- Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, til vara
- Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður, aðalfulltrúi
- Sigrún Helgadóttir, líffræðingur, til vara
Tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti:
- Ragnheiður Helga Þórarinsdóttir, sérfræðingur, aðalfulltrúi,
- Eiríkur Þorláksson, sérfræðingur, til vara.
Tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga:
- Elín R. Líndal, sveitarstjórnarfulltrúi, aðalfulltrúi
- Guðjón Bragason, sviðsstjóri, til vara
Starfsmaður verkefnisstjórnarinnar er Herdís Helga Schopka, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Ný verkefnisstjórn rammaáætlunar skipuð“, Náttúran.is: 28. mars 2013 URL: http://nature.is/d/2013/03/28/ny-verkefnisstjorn-rammaaaetlunar-skipud/ [Skoðað:1. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.