Ferðaþjónusta fer vaxandi á Norðurlöndum. Á krepputímum kemur það sér vel fjárhagslega, en er mikið álag á náttúruna ekki síst á Íslandi og á norðurslóðum Norðurlandaráð vill því að ferðamannastaðir verði vottaðir í líkingu við það sem gert er með norræna umhverfismerkinu Svaninum, til að vernda viðkvæm náttúrusvæði.

Ferðaþjónusta fer vaxandi á Norðurlöndunum. Samtals vex ferðaþjónustan þar um 4% á ári og reiknað er með að ferðaþjónustan sé sú starfsgrein sem muni skapa flest störf í framtíðinni.

Það er gott á krepputímum. En stöðugt aukinn fjöldi ferðamanna ferðast í auknum mæli til að sjá einstaka náttúru, sem Norðurlöndin bjóða upp á, ekki síst Ísland og norðurheimskautið. Ferðaþjónustan er nefnilega að breytast úr hópferðum í það að ferðamenn vilja einstaka upplifun, að mati sérfræðinga. Það er því hætta á því að sú einstaka náttúra sem ferðamenn hvaðan æva að koma til að skoða verði eyðilögð.

Umhverfisnefnd og atvinnumálanefnd Norðurlandaráðs ætla því að láta kanna möguleikann á því að sett verði á stofn vottun sjálfbærra ferðamannastaða. Vottunin á að tryggja að gengið verði um viðkvæma náttúru af nauðsynlegri virðingu. Jafnframt ætti slík vottun að geta orðið mikilvægur mælikvarði í samkeppni.

„Hvergi annars staðar í heiminum eru ferðamannastaðir vottaðir með tilliti til sjálfbærni. Á þessu sviði gætu Norðurlönd verið í fararbroddi og sýnt græna ásýnd sína", segja Ann-Kristine Johansson og Cecilie Tenfjord-Toftby, formenn annars vegar umhverfisnefndar og hins vegar atvinnumálanefndar Norðurlandaráðs.

„En ferðaþjónustan gæti einnig nýtt vottunina við markaðssetningu. Málið snýst um grænan hagvöxt: að skapa tækifæri til vaxtar án þess að grafa undan umhverfinu og þjóðarhag til lengri tíma litið", segja formennirnir tveir á Norðurlandaráðsfundinum, sem haldinn er á Íslandi 28. janúar.

Alþjóða ferðamannaráðið vinnur að fjölda mælikvarða um sjálfbærni og ESB hefur einnig sett á laggirnar vinnuhóp um málið. En ef frá eru talin Earth Check í Ástralíu og Destination 21, kerfi sem þróað var í Danmörku, eru ekki til nein kerfi sem votta ferðamannastaði.
Svanurinn sem fyrirmynd

Árið 2012 gaf Norræna ráðherranefndin út skýrsluna „Bæredygtighedscertificering af turistdestinationer", þar sem greind voru þau tækifæri sem felast í ferðaþjónustu, ekki síst í mörgum litlum samfélögum vítt og breitt á Norðurlöndum. Niðurstöður skýrslunnar sýna að mikil þörf er á sameiginlegu norrænu kerfi, bæði til vernda viðkvæm náttúrusvæði og til að skapa vaxtarmöguleika.

„Hægt er að bera þetta saman við norræna umhverfismerkið Svaninn, sem stuðlar að því að tryggja sjálfbæra þróun á Norðurlöndum með því að setja skilyrði sem þarf að uppfylla til að vara fái vottun. Vottun er mikilvægt tæki til að efla grænt samfélag og ég tel, að Norðurlöndin ættu að vinna að henni einnig á ferðaþjónustusviðinu", segir einn af skýrsluhöfundunum, Stefán Gíslason fulltrúi íslenska ráðgjafafyrirtækisins Environice.

„Svanurinn vottar einnig hótel og farfuglaheimili, sem verða að uppfylla skilyrði til að halda stöðu sinni á listanum yfir sjálfbær fyrirtæki. Á sama hátt gæti vottun svæðis eða áfangastaðar orðið hvatning til að viðhalda einkennum svæðisins", að mati Stefáns Gíslasonar.

Hann leggur til að reynslan af danska vottunarkerfinu Destination 21, sem ekki er notað eins og er, og nýtt verkefni Innovation Norge verði nýtt sem undirstaða fyrir norrænt vottunarkerfi.

Norðurlandaráð hefur áður stutt sjálfbæra ferðaþjónustu, en árið 2011 hlaut norræna hótelkeðjan Scandic umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir starf við að auka bæði félagslegt réttlæti og umhverfisvæna ferðaþjónustu.

Nefndirnar tvær í Norðurlandaráði munu vinna áfram að málinu og byrja á því að ræða við starfsmenn norræna umhverfismerkisins Svansins. Ný skýrsla kemur út bráðlega á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar með fjölda ráðlegginga um framhaldið.

Birt:
29. janúar 2013
Tilvitnun:
Norden - Norræna ráðherranefndin „Norðurlandaráð vill vistvæna vottun ferðamannastaða“, Náttúran.is: 29. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/01/29/nordurlandarad-vill-vistvaena-vottun-ferdamannasta/ [Skoðað:27. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: