Toyota Prius C er umhverfisvænastur bíla 2013 að mati ACEEE, American Council for an Energy Efficient Economy, óháðra samtaka sem árlega gefa út lista yfir umhverfisvænustu bíla ársins. Toyota Prius C er tvinnbíll en fast á hæla hans kemur Honda Fit EV sem er rafdrifinn bíll. Þriðja sætið verma þrír bílar; Toyota Prius, Prius PHV og Honda Civic Hybrid.

En hvernig getur tvinnbíll verið „grænni“ en bíll sem gengur fyrir rafmagni? Svarið er að finna í talnafræðinni.

Samtökin skoðuðu útblástur bílanna, mengandi útblástur og gróðurhúsalofttegundir, auk losunar frá þjónustufyrirtækjunum sem hlaða rafbíla. Þá var einnig tekin til greina orkan sem fer í að framleiða bílinn og áhrif sem förgun bílsins hefði á náttúruna þegar tíma hans lyki. Þegar öll kurl voru komin til grafar stóð bíll, sem bæði er drifinn með rafmagni og eldsneyti, uppi sem sá grænasti.

Úttektina má lesa á vef breska ríkisútvarpsins, www.bbc.co.uk, og þar er einnig hægt að nálgast listann yfir bílana sem athugaðir voru.

Birt:
22. janúar 2013
Höfundur:
Fréttablaðið
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Rafbíll ekki sá umhverfisvænsti“, Náttúran.is: 22. janúar 2013 URL: http://nature.is/d/2013/01/22/rafbill-ekki-sa-umhverfisvaensti/ [Skoðað:27. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: