Þetta er síðasti mánuður vetrar að forníslensku tímatali og hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar 20. - 26. mars. Um fyrsta dag hans er svipað að segja og fyrsta dag þorra og góu, að hann er helgaður annað tveggja ungum piltum eða stúlkum. Eiga viðeigandi persónur þá að vera fyrsta á fætur, taka á móti einmánuði og veita öðru heimilisfólki glaðning. Hefur hann verið nefndur yngismannadagur, þar sem það á við. Hann er nefndur í Snorra Eddu og lögbókunun, en ekki í fornkonungasögunni í Flateyjarbók.

Í síðari þjóðsögum eru þorri og góa hinsvegar gerð að hjónum og börn þeirra eru einmánuður og harpa. Fyrsti dagur einmánuðar á sér hins vegar merka sögu sem samkomudagur. Það var forn venja bæði í Noregi og á Íslandi, að menn héldu fundi snemma að vorinu til og ræddu þá um garðsetningar og ýmislegt fleira varðandi sameiginleg hagsmunamál. Hér virðist þetta hafa verið fest við fyrsta dag einmánaðar. Svo er hinsvegar að sjá sem þessar einmánaðarsamkomur hafi smám saman fallið niður nema í Eyjafirði, þar sem einkum hafa verið fjallað um samskot handa fátæklingum, sem menn hétu að leggja fram, enda hefur um það leyti verið orðið nokkuð ljóst, hverjir helst voru í bjargarþroti. Um þetta er til frægt heitibréf frá 1477, en samskonar bréf eru a.m.k. til frá 1562, 1633 og 1726. Eftir heimsókn þeirra Lúðvíks Harboes og Jóns Þorkelssonar 1741-1745 var heitdagur þessi bannaður, því að slíkt helgihald viðgekkst ekki í öðrum löndum Danakonungs og ekki þótti hæfa, að Íslendingar höguðu sér á neinn hátt frábrugðið öðrum. Norðlendingar rituðu kirkjustjórnarráðinu og beiddust þess að fá heitdaginn aftur lögleyfðan, en án árangurs.

Úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.

Birt:
22. mars 2012
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Einmánuður“, Náttúran.is: 22. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/einmnuur/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 12. mars 2012

Skilaboð: