Tilraunaframleiðsla á metanóli er hafin í nýrisinni verksmiðju á vegum Carbon Recycling International (CRI). Hugmyndin er að breyta koltvísýringi í útblæstri frá jarðvarmavirkjunum í metanól og blanda því í bensín fyrir íslenska bílaflotann. Þegar horft er til umhverfisverndar er framtakinu lýst sem mikilli frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun en í umræðunni er alfarið sneitt framhjá spurningum um skaðsemi efnisins. Metanól er mjög hættulegt efni með hraða uppgufun sem veldur skæðum eiturverkunum í fólki sem andar því að sér, snertir eða neytir. Er hér á ferð umhverfisvernd á kostnað lýðheilsu?

Eituráhrif metanóls
Metanól heitir einnig tréspíri og er vel þekkt efni. Eins og etanól er þetta eitt af alkóhólunum en það er mikill misskilningur að halda að efnin séu eins. Ekki má heldur rugla saman metanóli og metani. Metanól, ólíkt etanóli og metan, er sterkt eiturefni og hafa heilsufarsleg áhrif þess verið vel skilgreind: Efnið er mjög rokgjarnt og smátt og kemst þar af leiðandi auðveldlega inn í líkamann við innöndun eða snertingu. Metanól hefur áhrif á miðtaugakerfið og veldur taugaskemmdum, höfuðverkjum, ógleði, uppköstum, jafnvægisleysi, geðdeyfð og dauða í meira magni. Efnið skaðar sjóntaugarnar og veldur sjóndepurð eða blindu. Neysla á 10 ml af metanóli veldur varanlegri blindu og eins lítið og 30 ml getur valdið dauða. Fóstur eru sérlega viðkvæm fyrir metanóli. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin flokkar metanól í 3. flokk eiturefna. Þetta þýðir að sérstakar kröfur eru gerðar við meðhöndlun efnisins, þar með talin krafa um notkun varnarbúnaðar. Sem dæmi vinna líffræðingar með metanól í sérstökum sogskápum og skal rýma rannsóknarstofuna ef metanólflaska fellur í gólfið. Slíkar flöskur eru merktar "TOXIC" með tilheyrandi höfuðkúpumerki. Þar er unnið með efnið í smáum skömmtum og má þá spyrja hvort þau olíufélög sem hyggjast blanda þessu í lítravís á hvern bensíntank ætli ekki að merkja dælurnar sínar á samskonar hátt?

Metanól sem eldsneyti
Notkun metanóls sem eldsneytis er ekki ný hugmynd. Ítarlegar rannsóknir áttu sér stað á metanóli til eldsneytisnotkunar á 8. og 9. áratugnum. Síðan þá hefur metanól ekki náð mikilli útbreiðslu sem eldsneyti og er notkun á heimsvísu lítil sem engin, að frátöldum ákveðnum kappakstursgreinum og héruðum í Kína. Í São Paulo í Brasilíu stóð til að blanda metanóli í eldsneyti 1989-92. Þau áform voru stöðvuð af borgarstjóranum vegna þeirrar hættu sem steðjaði að starfsfólki bensínstöðva. Í Bandaríkjunum er metanóli ekki blandað í bensín sem fer í almenna dreifingu. Slíkar tilraunir áttu sér stað á 9. og 10. áratugnum í Kaliforníu en lauk með reglum sem settar voru í ríkinu og bönnuðu notkun metanóls í bensíni frá 2003. Í reglunum stendur að notkunin sé óleyfileg nema að "Umhverfisráð Kaliforníuríkis geti sýnt fram á að notkun efnisins hafi ekki marktæk skaðleg áhrif á lýðheilsu eða umhverfið". Í Evrópu er hámark leyfilegs metanóls í bensíni takmarkað við 3%.

Metanól á íslenska bílaflotann
Til stendur að blanda metanóli í bensín á Íslandi í 3% styrk. Það eru 2 L af hreinu metanóli á hvern 65 L bensíntank. Raunhæft markmið skv. CRI er svokallað RM70, sem er 70% blanda metanóls og 30% bensín. Flestir kannast við að finna bensínlykt á bensínstöðvum og ljóst að við öndum að okkur þeim rokgjörnu efnum sem í bensíni er að finna. Óhjákvæmilega vakna ýmsar spurningar þegar bæta á metanóli í bensín. Hvaða áhrif hefur innöndun á metanóli á viðskiptavini og starfsfólk bensínstöðva? Hvaða áhrif hefur þessi íblöndun á óléttar konur sem dæla á tankinn og fóstur þeirra? Eituráhrif metanóls koma ekki fram fyrr en 8-24 klst. eftir snertingu við efnið. Hvernig eiga viðskiptavinir sem verða fyrir vanlíðan að tengja það við ferð á bensínstöð, til dæmis daginn áður, sér í lagi ef engar viðvaranir eru á dælunum? Þetta þýðir að erfitt verður að sýna fram á orsakatengsl. Einnig vakna spurningar um það mikla magn leysiefna sem þarf til að blanda metanóli í bensín og formaldehýðs sem myndast við brennslu á metanóli. Þessi efni eru einnig skaðleg heilsu manna.

Metanól og lýðheilsa
Öllum er ljóst að þörfin á umhverfisvænum orkugjöfum er brýn. Nýting koltvísýrings úr útblæstri orkuvera hljómar vel en þegar sýnt hefur verið fram á mikla skaðsemi efna eins og metanóls, ber þá ekki að forðast þau frekar en að þvinga þeim upp á alla landsmenn? Tilraunir sem þessar hafa verið gerðar erlendis á undanförnum áratugum en hafa í flestum tilfellum ekki náð fram að ganga. Er það framför í orkumálum að færa þessa tilraunastarfsemi hingað til lands eða er þetta hrein afturför?

Höfundurinn Hjalti Andrason, er líffræðingur.

Birt:
17. nóvember 2011
Höfundur:
Hjalti Andrason
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Hjalti Andrason „Metanól í bensín - eitrum fyrir öllum?“, Náttúran.is: 17. nóvember 2011 URL: http://nature.is/d/2011/11/17/metanol-i-bensin-eitrum-fyrir-ollum/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. janúar 2012

Skilaboð: