Tvær greinar eftir undirritaðann hafa nýlega verið birtar hér á vef Náttúrunnar.is, http://www.natturan.is/frettir/6984/ og http://www.natturan.is/frettir/7009/. Í fyrri greininni (24. apríl) var þeirri spurningu kastað fram, hvers vegna þingsályktunartillaga um útiræktun erfðabreyttra lífvera (EBL), sem lögð var fram á Alþingi í byrjun árs í fyrra, hafi aldrei verið rædd. Sama dag fékk höfundur vitneskju um, að ný þingsályktunartillaga um þetta mál hefði verið lögð fram á Alþingi skömmu áður, í tilefni þess að fyrri tillagan hafði ekki verið rædd, en þessi síðari tillaga hefur heldur ekki verið rædd á Alþingi. Í síðari greininni (3. maí) var þeirri umleitan beint til Alþingis, að þessar þingsályktunartillögur yrðu ræddar.

Sama dag og síðari greinin birtist á vef Náttúrunnar.is, kom auglýsing frá Stjórnarráði Íslands, umhverfisráðuneyti, um að haldið yrði málþing með heitinu „Erfðabreytt ræktun - slepping og dreifing“ á vegum ráðuneytisins í (salnum) Hvammi á Grand Hóteli í Reykjavík þ. 15. maí n.k. Þingið hefst með ávarpi umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, kl. 13, og lýkur svo með samantekt hennar kl. 17. Til málþingsins er boðinn, auk sérfræðinga ráðuneytisins, danskur ráðgjafi, sem heldur utan um umsóknir um útiræktun EBL fyrir danska umhverfisráðuneytið (http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2082).

Það eru óneitanlega góðar fréttir, að nú eigi loksins að fara að ræða málin opinbera - vissulega einu og hálfu ári eftir að tillaga um það var fyrst lögð fram, en samt … . Tilhögun boðaðs málþings vekur þó áleitnar spurningar, sem einnig er þörf að ræða. Í fyrsta lagi er þetta engin venjuleg ráðstefna, þar sem sérfræðingum er almennt boðið að flytja erindi, sem metin hafa verið af nefnd óháðra sérfræðinga, og þau málefnalegustu valin til framsetningar. Hér ákveður greinilega umhverfisráðherra hverjir fái að segja álit sitt, þ.á.m. hún sjálf. Það læðist að manni grunur um, að hér sé verið að mála upp einhliða mynd af „veruleikanum“.

Í öðru lagi er val sumra sérfræðinga ráðherra dálítið merkilegt. Þannig heldur danskur maður ræðu á þinginu, en hann virðist ekki vera sérfræðingur um EBL sem slíkar, heldur ráðgjafi fyrir umsóknir og leyfisveitingar og áminningar til þeirra, sem ekki senda inn tilskyldar áfangaskýrslur. Auk þess hafa tveir af íslensku sérfræðingunum, sem halda erindi á málþinginu, áður komið við sögu ofan nefndra þingsályktunartillaga um bann við útiræktun EBL (þeirra sem ekki hafa verið ræddar á Alþingi), annar þeirra sem aðalhvatamaður mótmælanna og efstur á báðum undirskriftarlistum, en hinn sem annar á lista vísindamannanna 37 í fyrra mótmælabréfinu. Það verður áhugavert að sjá hvaða ályktun ráðherra dregur af vitnisburðinum á málþinginu, þ.e.a.s. ef ályktunin hefur ekki þegar verið dregin.

Einnig má spyrja sig, hvort þær fræðilegu niðurstöður um alvarleg vandamál kringum EBL, sem æ oftar birtast, verði teknar til greina í ályktunum þessa málþings. Því er rétt að ræða nokkrar þessara niðurstaða lítillega:

Í seinni greininni í Náttúrinni.is, þ. 3. maí s.l., var skýrt frá rannsóknum, sem sýna fram á, að útiræktað EBL bygg dreifist óhjákvæmilega á nærliggjandi akra, þar sem það síðan vex og krossfrjóvgast, og hið breytta erfðamengi blandar sér í erfðamengi annarra, áður óbreyttra planta. Fullljóst er, að það er ekki sannleikanum samkvæmt, þegar líftæknimenn tilkynna, að þetta gerast ekki. Auk þess öðlast EBL óvænta eiginleika þegar erfðamengi þeirra er breytt, og e.t.v. einnig þegar það krossfrjóvgast. Þannig kemur það t.d. fram í nýbirtri svissneskri rannsókn á EB hveiti (Bobwhite GM), sem inniheldur sveppaeitur (Rieben et al., 2011, PLoS ONE 6(12): e29730. doi:10.1371/journal.pone.0029730), að þetta EB yrki er sex sinnum líklegra til að krossfrjóvgast við bygg á nærliggjandi ökrum en aðrar, óbreyttar tegundir.

Í samantekt umfangsmikillar yfirlitsrannsóknar, gerðri við líffræðideild Universitat Rovira i Virgili á Spáni (Domingo & Bordonaba, Environ. Int., 37, 2011), var tilkynnt, að erfitt væri að ákvarða nákvæmlega hversu miklar áhyggjur við ættum að hafa af eiturverkunum EBL. Ástæðan fyrir því væri sú, að þær rannsóknir sem bentu til, að ekki þyrfti að hafa áhyggjur, væru u.þ.b. jafn margar og þær sem bentu til þess, að við ættum að hafa alvarlegar áhyggjur af eiturverkunum EBL. Höfundarnir bættu svo við, „Nevertheless, it should be noted that most of these studies [not finding cause for concern] have been conducted by biotechnology companies responsible [for] commercializing these GM plants.“ Síðar í greininni stendur, „Recently, de Vendômois et al. [Int. J. Biol. Sci., 5, 2009] performed, for the first time, a comparative analysis of blood and organ system data … [and found] … new side effects linked with GM maize consumption, … mostly associated with the kidney and liver, [and] the dietary detoxifying organs … Other effects were also observed in heart, adrenal glands, spleen and hematopoietic system. It was concluded that these data highlighted signs of hepatorenal toxicity …“.

Ári síðar birtu de Vendômois og kollegar, sem starfa við líffræðideildir háskólanna i Caen, París og Rouen í Frakklandi, fleiri niðurstöður, sem sýndu fram á alvarlega eitrun í líffærum dýra, sem étið höfðu EB maís, einkum lifrar- og nýrnaskaða, en einnig skaða á hjarta, innkirtlum og öðrum líffærum (Int. J. Biol. Sci., 6, 2010). Þeir bentu auk þess á, að líftæknifyrirtæki notuðu ekki rannsóknaraðferðir, sem væru til þess fallnar að leiða í ljós marktækar niðurstöður af þessu tæi. Þrátt fyrir hávær mótmæli EBL framleiðenda við birtingu þessara niðurstaða, hafa þeir ekki getað sýnt fram á villur í niðurstöðunum, og sjálfir hafa framleiðendurnir ekki birt neinar eigin rannsóknir, sem benda afdráttarlaust til skaðleysis EB matvæla fyrir líf og heilsu neytenda.

Í síðasta miðvikudagsblaði DV var rætt um þau ýmsu efni, mörg afar skaðleg, sem fyrirfinnast í snyrtivörum, og neytendur eru oftast allsóvitandi um (http://www.dv.is/consumer/2012/5/9/skadleg-efni-i-snyrtivorum/). Þar er þó ekki rætt sérstaklega um það krem, sem framleitt er hér á landi úr EB byggi, sem inniheldur erfðaefni úr mönnum. Í þessum EB byggplöntum myndast mannlegur frumuvaki (vaxtarprótein), sem svo er notað í snyrtivörur. Engar áreiðanlegar rannsóknir, til lengri eða skemmri tíma, hafa verið gerðar á líffræðilegum afleiðingum notkunar þessara snyrtivara. Hinsvegar hafa þær verið mikið auglýstar, og seldar með góðum hagnaði fyrir eigendur fyrirtækisins, og því ekki furðulegt, að þeir berjist með kjafti og klóm gegn öllu því, sem gæti takmarkað hagnaðinn, s.s. bann við útiræktun EB byggs í stórum skala.

Annað og mikilvægara áhyggjuefni í sambandi við þessa ræktun er krossfrjóvgum EB byggs við óbreytt bygg á nærliggjandi ökrum. Það bygg er svo notað til manneldis, en engar rannsóknir hafa verið gerðar á afleiðingunum!

Annað, merkilegt og þessu skátengt, er auglýsingamynd Dorritar Moussejeff og manns hennar, Ólafs Ragnars, frá í fyrradag í ameríska spjallþættinum „The Martha Stewart Show“ (http://www.marthastewart.com/902985/iceland-show). Þátturinn byrjar með því, að Dorrit kemur þeysandi inn í eldhús á íslenskum hesti og auglýsir ýmsar vörur, og lýkur með því, að Martha fer lofsorðum um áfenga, íslenska drykki og erfðabreytta húðdropa, og segir m.a. „ … it really is wonderful … it is like being in Iceland when you use this, I think!“ (Það er ekki ljóst hvort hún á hér við brennivínið eða húðdropana). Þessi auglýsingamynd er óyggjandi vitnisburður um, að forsetahjónin eru enn á fullu að auglýsa útrásarvíkinga og söluvörur þeirra:

You ain't seen nothing yet!

Höfundur: dr. Valdimar Briem, fræðilegur ráðgjafi.

Grafík: Varúð erfðabreytt. Tillaga að varnaðarmerki sem ætti heima á síkum vörum en tekið skal fram að þetta er ekki opinbert merki heldur sjálfstæð tillaga G.A.T. og skal skoðuð sem frjáls og listræn útfærsla með húmor. Hún styðst þó við raunveruleg gjörning sem á sér stað við erfðabreytingar. Þ.e. að taka gen úr mönnum, svínum eða öðru óskildum lífverum og skjóta inn í t.d. bygg, hafra og maís til að ná fram ákveðnum eiginleikum sem oftast hafa þó einnig dökkar hliðar. Guðrún A. Tryggvadóttir. Creative Commons.

Skjáskot: Úr þætti Mörthu Steward, efri; nærmynd af kassanum undan Sif húðdropunum, neðri Björn Örvar framkvæmdastjóri Orf líftækni lýsir ágæti eigin framleiðslu, úr sal, fyrir bandarískum sjónvarpsáhorfendum.

Birt:
11. maí 2012
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Valdimar Briem, dr. phil. „EBL hvað - eigum við eitthvað að ræða það meir?“, Náttúran.is: 11. maí 2012 URL: http://nature.is/d/2012/05/11/ebl-hvad-eigum-vid-eitthvad-ad-raeda-thad-meir/ [Skoðað:4. maí 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. maí 2012

Skilaboð: