Innbú okkar samanstendur af ýmsum efnum bæði úr jurta- og steinaríkinu s.s. viði, málmum, gleri, trefjum úr plöntum, steinefnum og úr gerviefnum allskonar. Það eru aðallega þau sem að við þurfum að vera með augun opin gagnvart. Ekki aðeins getur útgufun ákveðinna efna verið heilsuspillandi heldur geta umhverfisáhrif verið geigvænleg. Yfir 100.000 efni eru notuð í allskyns framleiðslu í heiminum í dag, mörg hver hafa ekki verið rannsökuð nægjanlega áður en þau verða hluti framleiðslu. Eins gildir að það sem er meinlaust í ákveðnu magni getur verið skaðlegt í meira magni eða í sambandi við önnur efni.

Ef við tökum húsgögn úr viði sem dæmi, eins og t.d. náttborðið, þá skiptir máli út frá umhverfissjónarmiðum að skógurinn hafi verið ræktaður á sjálfbæran hátt. Húsgögn merkt sem Forest Stewardship Council (FSC) eru örugglega ekki úr regnskógarvið heldur úr sjálfbærum skógum. Korkur er talin til þeirra náttúruefna sem er umhverfisvænt, sérstaklega ef hann er endurunnum úr korktöppum. PVC- gólfdúkur getur aftur á móti undir engum kringumstæðum talist heilsusamlegur né umhverfisvænn.

Þegar kaupa á húsgögn í svefnherbergið er ráðlagt að kaupa vandaða og endingargóða vöru. Sem kaupandi hefurðu rétt á að vita hvaðan efnin sem húsgögnin eru gerð úr séu fengin og hvernig og hvar vinnsla fór fram. Athugaðu að áklæði geta innihaldið eiturefni svo og leðurlíki sem getur innihaldið PVC. Það er ekki dónalegt að spyrja spurninga í verlsunum. Til að ná fram breytingum á framboði verða neytendur að byrja á að spyrja spurning og setja fram kröfur, öðruvísi gerist ekkert.

Gömul húsgögn nýtast einnig eftir að þú þarft ekki lengur á þeim að halda engin ástæða til að kasta þeim á haugana. „Góði hirðirinn“ nytjamarkaður Sorpu og líknarfélaga tekur t.a.m. við öllum húsgögnum fegins hendi og selur í versluninni „Góða hirðinum“ eða gefur áfram til bágstaddra. Nytjagáma má finna á öllum endurvinnslustöðvum Sorpu og á sorpstöðvum ýmissa sveitarfélaga. Sorpa tekur við gömlum dýnum í sérstaka gáma en þær eru síðan urðaðar því gormar eyðileggja sorptætara og því ekki hægt að kurla þær. Gormalausar yfirdýnur og annað sem telst til vefnaðarvöru má setja í gáma merkta Rauða Krossinum sem lætur kurla og nýta efnið.

Einnig má auglýsa húsgögn til sölu og fá fyrir þau pening eða gefa beint til vina og vandamanna. Síðasta úrræðið ætti að vera að kasta þeim á haugana.

Birt:
25. júní 2007
Höfundur:
Náttúran er
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Náttúran er „Náttborð“, Náttúran.is: 25. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/25/nttbor/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 3. maí 2014

Skilaboð: