Vegna umræðu um fyrirhugaða álþynnuverksmiðju á Akureyri vill Áhugahópurinn um verndun Jökulsánna í Skagafirði koma eftirfarandi á framfæri:

Á sama tíma og unnið er að undirbúningi álverksmiðju við Húsavík með tilheyrandi virkjunum, stendur til að afgreiða samning um álþynnuverksmiðju á Akureyri. Landsvirkjun hefur undirritað orkusölusamning við Becromal, eiganda fyrirhugaðrar álþynnuverksmiðju, um að selja því 75 MW í byrjun. Auk þess skuldbindur Landsvirkjun sig til að selja Becromal allt að 100MW samtals síðar. Landsvirkjun fullyrðir að þessi 75MW séu til í raforkukerfinu en segir jafnframt að þessi samningur auki þörfina á frekari virkjunum. Minnst er á Þjórsá, Skjálfandafljót og skagfirsku Jökulsárnar í því sambandi.

Það er krafa Áhugahópsins um verndun Jökulsánna í Skagafirði, að skýr greinverði gerð fyrir hvar ætlunin sé að bera niður í virkjunaráformum vegna orkuþarfar þessarar verksmiðju, sem nú bætist við fyrirhuguð álver við Húsavík og víðar. Það er ljóst að þrýstingur á virkjanir í Jökulsám Skagafjarðar, Skjálfandafljóti og Þjórsá mun enn aukast og brýnt að náttúrverndarfólk um land allt haldi vöku sinni til að koma megi í veg fyrir ófyrirgefanleg og óbætanleg spjöll á náttúru Íslands.

Áhugahópur um verndun Jökulsánna í Skagafirði. Sjá vef áhugahópsins.

Myndin er af Runufoss í Runuhvísl, Vesturdal. Ljósmynd: Gísli Rúnar Konráðsson.
Birt:
5. september 2007
Tilvitnun:
Áhugahópur um verndun jökulsánna í Skagafirði „Stöndum vörð um Jökulsárnar í Skagafirði“, Náttúran.is: 5. september 2007 URL: http://nature.is/d/2007/09/05/stndum-vr-um-jkulsrnar-skagafiri/ [Skoðað:19. maí 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: