Í sumar hefur rannsóknum verið haldið áfram á rústum í landi Þjótanda en rannsóknirnar eru gerðar vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda í Þjórsá. Fornleifafræðistofan ehf. annast rannsóknirnar og þeim stýrir Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðidoktor. Nú hefur grunurinn sem kviknaði í fyrra verið staðfestur, að elstu minjarnar væru frá landnámsöld.
Föstudagskvöldið 22. ágúst ætlar Bjarni F. Einarsson að fræða fólk um rannsóknirnar í Þjótanda; hvað hefur fundist og hverjar tilgátur hans eru um viðfangsefni fólks við Þjórsá fyrir meira en 1000 árum. Það er nefnilega ekki skáli sem fundist hefur, heldur einhvers konar útstöð.
Mæting er á gömlu Þjórsárbrúna kl. 19:15, þaðan sem rölt verður í rólegheitum þennan stutta spöl upp með ánni að uppgreftrinum, en minjarnar eru einmitt í stíflustæði hins fyrirhugaða Heiðarlóns. (Líka má komast beint á staðinn á stærri bílum ef nauðsyn ber til.)
Kaffisopi bíður við túngarðinn og fyrirlestur Bjarna hefst kl. 20:00. Fólk er minnt á að klæða sig eftir veðri.
Með von um að sem flestir mæti til að fræðast og gleðjast á fallegum stað við Þjórsá. Myndin er frá fornleifauppgreftrinum við Þjótanda við Þjórsá. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
17. ágúst 2008
Tilvitnun:
Áhugafólk um samfélags- og umhverfismál í Flóahreppi „Fræðslukvöld um fornminjar í Þjótanda“, Náttúran.is: 17. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/17/fraeoslukvold-um-fornminjar-i-thjotanda/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 5. febrúar 2011

Skilaboð: