Á aðalfundi NSS - Náttúruverndarsamtaka Suðurlands sem var haldinn á Sólheimum í Grímsnesi þann 21. apríl 2008 voru kosin í stjórn: Birgir Þórðarson, Gunnar Ágúst Gunnarsson, Ólafía Jakobsdóttir, Ragnheiður Jónasdóttir og Sigþrúður Jónsdóttir.
Í varastjórn eru: Daníel Magnússon, Elín Erlingsdóttir og Guðrún Tryggvadóttir.
Ályktað var um fjögur mál á fundinum:

Ályktun um lífræna þróun:
Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands haldinn á Sólheimum í Grímsnesi 21. apríl 2008 vekur athygli á því að vísindamenn hafa nú sýnt fram á að lífrænar aðferðir skila betra umhverfi, fjölþættara lífríki, meiri kolefnisbindingu, auknum næringargæðum og meira heilbrigði en hefðbundnar aðferðir.

Fundurinn hvetur bændur og fyrirtæki til að taka upp vottaðar lífrænar aðferðir í framleiðslu matvæla og náttúruafurða.

Fundurinn átelur jafnframt að bændum skuli ekki vera tryggður stuðningur til lífrænnar aðlögunar á borð við þann sem veittur er í nær öllum löndum Evrópu. Fundurinn skorar á landbúnaðarráðherra og Alþingi að gera hér snarlega bragarbót á og margfalda fjárveitingar til lífrænnar aðlögunar.

Ályktun um Vatnajökulsþjóðgarð og Langasjó:
Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands haldinn á Sólheimum í Grímsnesi 21. apríl 2008 fagnar stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem væntanlega verður staðfest með setningu reglugerðar á árinu.

Náttúruverndarsamtök Suðurlands fagna ósk umhverfisráðuneytisins um að Langisjór verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði frá upphafi og hvetur sveitarstjórn Skaftárhrepps eindregið til að verða við beiðni ráðuneytisins og fella Langasjó og nærliggjandi svæði allt vestur að Tungnaá undir Vatnajökulsþjóðgarð.

Á vestursvæði þjóðgarðsins á hálendinu vestan og suðvestan Vatnajökuls er að finna eitt af fáum stórum víðernum sem eftir eru í Evrópu. Á svæðinu eru einnig margar merkar jarðfræðiminjar á lands- og heimsvísu. Má þar m.a. nefna hinar einstöku móbergshryggjamyndanir allt frá Lakagígum að Tungnaá sem ekki er að finna annars staðar á jörðinni.

Virkjanir í neðri hluta Þjórsá:
Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands haldinn 21. apríl 2008 á Sólheimum í Grímsnesi leggst eindregið gegn virkjunum í neðri hluta Þjórsár og lýsir undrun sinni á vinnubrögðum Landsvirkjunar og sveitarstjórna sem málið varðar sem hafa m.a. hafnað íbúafundum um þetta stóra og afdrifaríka mál gegn náttúru Suðurlands.

Aðalfundurinn skorar einnig á þingmenn Suðurkjördæmis að standa vörð um náttúru og landslag á Suðurlandi.

Ályktun um Náttúruverndarsamtök Vestfjarða og olíuhreinsunarstöð:
Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands haldinn á Sólheimum í Grímsnesi 21. apríl 2008 fagnar endurvakningu Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða og styður samtökin heils hugar í baráttu þeirra fyrir verndun náttúrunnar og gegn olíuhreinsunarstöð sem hugmyndir eru um að reisa á Vestfjörðum.

Myndin er tekin á Hrepphólum í Hrunamannahreppi, Daníel Tryggvi 5 ára horfir yfir Stórulaxá. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
1. maí 2008
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Suðurlands „Ályktanir frá aðalfundi Náttúruverndarsamtaka Suðurlands“, Náttúran.is: 1. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/01/nss-telur-nyja-veglinu-vio-vik-i-myrdal-otimabaera/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: