Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lagt fram skýrslu fyrir Alþingi um stöðu og stefnu í loftslagsmálum. Tilgangur skýrslunnar er að draga saman nýjustu og bestu upplýsingar um stöðuna í loftslagsmálum og að skapa umræðu um næstu skref í þeim efnum.

Í skýrslunni er farið yfir alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum, sem er að finna í Kýótó-bókuninni og Parísarsamningnum, auk Evrópureglna á grunni EES-samningsins. Ísland hefur tilkynnt sitt framlag til Parísarsamningsins um að vera með í sameiginlegu markmiði 30 ríkja (Íslands, Noregs og 28 ríkja ESB) um 40% minnkun losunar til 2030 miðað við 1990. Farið er yfir stöðuna varðandi losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og spár fram til 2030. Sagt er frá niðurstöðum í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, þar sem spáð er verulegri aukningu í losun til 2030. Þar segir einnig að Ísland muni ekki standa við sín markmið í Kýótó-bókuninni fyrir árið 2020 og Parísarsamningnum árið 2030 að óbreyttri þróun.

Einnig er í skýrslunni yfirlit yfir aðgerðir stjórnvalda til þessa og umfjöllun um væntanlega nýja stefnumótun og aðgerðaáætlun. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að gerð verði aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamninginn, sem feli í sér m.a. græna hvata, skógrækt, landgræðslu og orkuskipti í samgöngum. Fjallað er nánar í skýrslunni um hvernig slík áætlun geti verið byggð upp, en hún mun ekki síst fjalla um hvernig hægt verði að standa við töluleg markmið Íslands til 2030. Einnig segir að stefnt sé að gerð vegvísis um langtímasýn í loftslagsmálum, þar sem m.a. verði skoðað hvenær og hvernig verði hægt að ná kolefnishlutleysi á Íslandi.

Í skýrslunni er umfjöllun um lykilþætti til að ná árangri við að draga úr losun og efla kolefnisbindingu, fjármögnun verkefna og samvinnu og samstarf aðila innan og utan stjórnkerfisins. Sett eru fram sex leiðarljós í loftslagsstefnu, sem verði notuð við gerð aðgerðaáætlunar.

Skýrsla umhverfis-og auðlindaráðherra um stöðu og stefnu í loftslagsmálum (pdf-skjal)

Birt:
2. mars 2017
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Skýrsla um stöðu og stefnu í loftslagsmálum“, Náttúran.is: 2. mars 2017 URL: http://nature.is/d/2017/03/02/skyrsla-um-stodu-og-stefnu-i-loftslagsmalum/ [Skoðað:19. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: